Ríkisstjórnarbankinn?

Pistlar
Share

Einkavæðing helstu fjármálafyrirtækja landsins stóð stutt yfir. Eftir sex ár eða svo þurfti ríkið að yfirtaka innlenda starfsemi viðskiptabankanna og stofa þrjá nýja ríkisbanka. Við það rifjast upp beittasta gagnrýnin gegn ríkiseign á viðskiptabönkunum. Hún var sú að stjórnmálamenn og flokkar beittu áhrifum sínum sem fylgdi ríkiseigninni til pólitískt þóknarlegrar niðurstöðu sem væri jafnvel í blóra við viðskiptalegar forsendur. Afleiðingin var að menn sátu ekki við sama borð.

Það liðu ekki nema þrír mánuðir frá ríkisvæðingunni þar til einn ráðherrann kom fram í Ríkissjónvarpinu og beinlínis kallaði eftir tiltekinni ákvörðun stjórnenda Landsbankans sér þóknanlegri. Kaldhæðni örlaganna hagaði því þannig að í hlut á varaformaður þess stjórnmálaflokks sem mest hefur talað fyrir einkavæðingu bankanna. Það er engu líkara en að ekkert sé að marka pólitíska boðskapinn hjá Sjálfstæðisflokknum þegar á reynir.

Miðvikudagskvöldið 7.janúar var viðtal við Menntamálaráðherra í seinni fréttum kvöldsins um Tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík, en framkvæmdir við byggingu hafa verið stöðvaðar vegna fjárskorts. Ráðherrann lýsti yfir miklum vonbrigðum með það og kallaði eftir ákvörðunum stjórnenda Landsbankans.

Málum er þannig háttað að félag sem heitir Portus annast framkvæmdir og fjármagnar verkið að mestu með eigin fé og lánsfé. Portus er í eigu Nýsir og Landsbankans. Ríkið er ekki aðila að framkvæmdunum en fyrir liggur samningur ríkisins og borgarinnar þar sem þessir aðilar lofa að leggja fram árlega fjárhæð í 35 ár. Þær greiðslur eiga að duga til þess að reisa og reka bygginguna. Það er hlutverk Landsbankans að leggja fram lánsfé.

Nú Þarf ekki að lýsa því að aðstæður eru gjörbreyttar og lánsfé af skornum skammti. Bolmagn Portus til þess að efna sinn hlut samningsins er ekki fyrir hendi og þess vegna hafa framkvæmdir stöðvast.
Á þessu stigi máls skerst ráðherra í leikinn. Í viðtalinu við RÚV upplýsir Menntamálaráðherra að hann og fleiri ráðherrar hafi komið að lausn málsins og segir orðrétt: “Ég bind miklar vonir við það að þetta verk haldi áfram af fullum krafti en ég verð hins vegar að lýsa yfir miklum vonbrigðum með það að málið skuli hafi stöðvast því það var búið að upplýsa að minnsta kosti mig og fleiri ráðherra um að það væri ákveðin lausn í sjónmáli sem myndi fela það í sér að það yrði haldið áfram með verkið“ og velkist menn í vafa um hvernig lausnin eigi að vera þá kemur það fram í næstu orðum ráðherrans:
„ en þá verða menn einfaldlega ekki síst innan bankakerfisins að fara að horfa með ákveðnum augum á þetta mál og taka ákvarðanir, ég kalla eftir ákvörðunum.“

Skýrar getur ráðherrann ekki talað. Það er ekki hlutverk bankastjóra og bankaráðs Landsbankans að taka ákvarðanir um útlán á þeim forsendum sem þeir telja bestar fyrir bankann, sem þeim er trúað fyrir að stjórna , heldur eiga stjórnendurnir að gera það sem ríkisstjórnin vill. Ríkisbankinn á að vera ríkistjórnarbanki þegar að er gáð, ef Menntamálaráðherrann fær sitt fram.

Eitthvað hefur greinilega staðið í stjórnendum Landsbankans að lána og nú er spurningin þessi: skyldu þeir hundskast til þess að hlýða eftir þess hýðingu á opinberum vettvangi frá pólitíska valdinu?

Athugasemdir