Sömu vandræði – færri úrræði

Pistlar
Share

Nýlega er komið út yfirlitshefti vikuritsins Economist fyrir árið 2009. Er þar farið yfir horfur í efnahagsmálum um allan heim. Þar er meðal annars fróðleg grein um stöðuna á Spáni. Síðasta áratug hefur hefur mikil uppsveifla þar í landi og lífskjör batnað mikið. Ástæðurnar fyrir uppsveiflunni eru okkur Íslendingum kunnuglegar, mikið framboð af ódýru lánsfé og mikil fjárfesting erlendra aðila í landinu meðal annars í íbúðarhúsnæði sem hefur hækkað gríðarlega í verði. En nú er partíið búið og komið að skuldadögunum. Blaðið segir uppsveifluna hafa orðið vegna aðildar Spánverja að evrunni.

Það má svo sem vera, en sama gerðist hérlendis þrátt fyrir að engin sé evran. Mér sýnist að lærdómurinn sé sá að mikið af ódýru lánsfé inn í hagkerfið leiði af sér eignabólu og lífskjör almennings umfram raunveruleg efni. Síðan springur bólan og skiptir engu máli hvað gjaldmiðillinn heitir, afleiðingin er í meginatriðum sú sama. Lífskjör falla og eftir standa skuldirnar og þær þarf að borga.

Blaðið lýsir vanda Spánverja þannig að hann sé heimatilbúinn vegna hás gengis gjaldmiðlisins, of mikillar áherslu á byggingariðnaðinn og gengdarlausrar skuldasöfnunar fyrirtækja og heimila. Kannast einhver við þessa lýsingu?

En sérstaka athygli mína vakti að the Economist segir að vegna evrunnar standi Spánverjar nú í verri sporum en síðast þegar þeir glímdu við niðursveiflu í efnahagslífinu. Það var árið 1993 og blaðið segir efnislega: án eigin gjaldmiðils geta Spánverjar hvorki i látið lækkun gengisins leiða sig út úr vandanum eins og þá var gert né lækkað vexti til þess að létta byrðina af skuldunum hjá heimilunum og fyrirtækjunum.

Í þessari stöðu sé muni atvinnuleysi aukast og verða 15% og kaupmáttur skerðast og fátt til ráða annað en að endurskipuleggja vinnumarkaðinn og auka sveigjanleika hans. Það þýðir á mæltu máli lægra kaup og færri störf.

Niðurstaðan er þá þessi: Spánverjar komu sér í sambærileg vandræði og Íslendingar þótt þeir væru með evruna, þeir þurfa að glíma einir við þá erfiðleika rétt eins og við, en vegna evrunnar hafa þeir færri úrræði til þess að milda höggið á almenning.

Þótt ekkert sé einhlítt í henni verslu þá dregur þessi grein fram þá staðreynd að það eru kostir við að hafa eigin gjaldmiðil og að þeir nýtast kannski einmitt helst við núverandi aðstæður. Svo má hafa það í huga að því að taka upp gjaldmiðil annarra fylgir að hluti af okkar vandræðum er þar með velt yfir á aðra og trúir því einhver að þeir hinir sömu sé tilbúnir til þess að axla nýjar byrðar án greiðslu fyrir?

Nei, ég hef enga trú á því að eitthvað fáist fyrir ekki neitt. Þetta er svona eitthvað annað syndróm. Þegar við höfum komið okkur í óefni þá sé hægt að fá einhvern annan til þess að borga. Gleymum því.

Athugasemdir