Atkvæðaskýring

Pistlar
Share

Atkvæðaskýring í atkvæðagreiðslu um vantrauststillögu á ríkisstjórnina, sem fram fór á Alþingi í dag.

Kjarninn er sá að mörg verk þarf að vinna á næstu vikum sem ekki þola bið. Þau eru vandasöm og finna þarf bestu eða skárstu lausnina á skömmum tíma. Kosningar munu einungis koma í veg fyrir þau verk engum til góðs. Upplýsa þarf allt er snertir bankahrunið til þess að almenningur geti lagt mat á ástæður þess og ábyrgð þeirra sem að málinu koma. Það er forsenda uppgjörs í kosningum.

Virðulegi forseti.

Það er verkefni stjórnvalda, sérstaklega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar, næstu mánuði að vinna að endurreisn fjármálakerfisins og tryggja fjárhag heimilanna og fyrirtækja landsmanna.

Það er verkefni stjórnvalda að sjá til þess að orsakir bankakreppunnar verði rannsakaðar og upplýstar og greindur þáttur hvers og eins og ábyrgð hans, þannig að almenningi verði gert kleift að taka yfirvegaða ákvörðun í alþingiskosningum í kjölfarið og getur valið milli stjórnmálaflokka, sem hver um sig ber fram svar sitt og stefnu.

Það er verkefni stjórnvalda að virða réttarríkið og tryggja sanngjarna málsmeðferð og traustar upplýsingar.

Samþykkt tillögunnar og þingkosningar nú mun færa vinnu stjórnvalda frá lausn aðsteðjandi vanda yfir til baráttu um hylli kjósenda, þar sem þjóðarhagur víkur fyrir flokkshagsmunum.

Tillagan er fjarri því að vera tímabær og ég segi því NEI

Athugasemdir