Lengi getur vont versnað. Það máltæki á vel við þessa dagana. Svo gott sem á hverjum degi er upplýst um ný mál sem tengjast bankagjaldþrotinu mikla. Það nýjasta varðar Kaupþing. Hópur stjórnenda og lykilstarfsmanna hjá bankanum skráðu sig árið 2004 fyrir nýjum hlutum samtals að fjárhæð tugi milljarða króna. Aðalfundur bankans samþykkti heimild til stjórnar félagsins að hafa útboðsgengi og söluskilmála samkvæmt sérstökum samningum sem stjórnin eða forstjóri gerir við hlutaðeigandi starsfmenn.
Nú er upplýst í Morgunblaðinu í dag að til sé yfirlýsing frá fyrri stjórn Kaupþings þar sem fram komi að kaupendurnir á þessum tími, hluti þeirra eða allir, ekki er vitað hvort er, þurfi ekki að greiða fyrir skráða hluti. Upphaflega fengu kaupendurnir sölurétt sem var þannig úr garði gerður að þeir gátu ekki tapað á viðskiptunum heldur bara hagnast. Sölurétturinn var seinna afnuminn en í staðinn komu ráðstafanir sem takmörkuðu persónulega ábyrgð hópsins með sérstökum skilmálum.
Þetta eru alveg ævintýralega ósvifnir viðskiptahættir. Það er skýlaus krafa til stjórnvalda að þessi viðskipti verði að öllu leyti dregin fram í dagsljósið og upplýst að fullu. Við annað verður ekki unað. Einn þeirra sem á hlut að þessum óeðlilegum viðskiptaháttum er Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þar sem eiginmaður hennar er einn þeirra sem kaupti hluti í Kaupþingi. Hún hefur þegar sagt opinberlega að allt verði upplýst og ekkert dregið undan.
Ég vil skora á hana að gera það nú þegar og upplýsa um fjárhæð lánsins og skilmála þess og hve mikið að því verður greitt.Ráðherra í ríkisstjórn getur ekki leynt neinu í þessum viðskiptum ef hann vill sitja áfram. Krafa um fullar upplýsingar fela ekki í sér neina afstöðu til viðskiptanna á þessu stigi, hvorki til né frá. Það verður metið þegar upplýsingarnar og öll málsatvik liggja fyrr.
En það er líka annað sjónarhorn á málið. Menntamálaráðherra er hluti af ríkisstjórninni sem hefur fjallað um stöðu viðskiptabankanna og tekið ákvörðun um afdrif þeirra. Ein ákvörðunin er að verja Kaupþing og Seðlabankinn lánaði bankanum 500 milljónir evra, ef ég man rétt, í því skyni. Það kann að hafa verið eðlileg ákvörðun í ljósi þess sem fyrir lá, en Menntamálaráðherrann á mikilla hagsmuna að gæta í eigin fjárhag. Og þarna verður ráðherann augljóslega ekki lengur hæf til þess að véla um málið. Enn síður er það í ljósi þess að ráðherrann er varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og mikilsverðar ákvarðanir í ríkisstjórn verða varla tekna nema með aðkomu hans og samþykki.
Ráðherrar eru hluti af framkvæmdavaldinu og um þá gilda stjórnsýslulög. Í þeim lögum eru sérstök ákvæði um hæfi og vanhæfi. Það eru skýr fyrirmæli um vanhæfi ráðherra ef mál tengist maka ráðherrans eða fyrirtæki í eigu makans eða þegar aðstæður eru þess eðlis að þær eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni í efa. Þegar vanhæfi á við má viðkomandi ekki taka þátt í undirbúningi máls, meðferð þess eða úrlausn.
Ekkert hefur komið fram um það að Menntamálaráðherra hafi haldið sig fjarri öllu því sem tengist bankakreppunni og Kaupþing tengdist. Vandséð er að jafnvel þótt svo hafi verið sé það nægilegt. Ráðherrann hefði þurft að víkja úr ríkisstjórninni til þess að með trúverðugum hætti sé hægt að halda því fram að hann hafi ekki haft áhrif á gang mála.
Nú verður Menntamálaráðherra að gera rækilega grein fyrir aðkomu sinni að málunum er varða viðskiptabankana og yfirtöku ríkisins að þeim og ekki síður meðferð skuldanna í Kaupþingi. Í þeim efnum má ekkert undan draga svo almenningur geti lagt sanngjarnt mat á málsatvik. Eins og málið blasir við mér miðað við fyrirliggjandi upplýsingar er borðleggjandi að ráðherrann hefur haft aðstöðu til þess að beita sér í eigin þágu og er þar af leiðandi vanhæfur.
Rétt er að taka fram að vanhæfi leiðir ekki endilega til þess að ráðherrann hafi misbeitt aðstöðu sinni, það verður að metast þegar upplýsingar liggja fyrir og ég set ekki fram neinar fullyrðingar um slíkt að svo stöddu. En til þess eru lög sett um hæfi og vanhæfi að koma í veg fyrir að unnt sé að draga hlutleysi manna í efa. Það er kjarni málsins.
Athugasemdir