Er stóra stjórnin stóru mistökin?

Pistlar
Share

Athyglisvert viðtal við varaformann Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra var í Viðskiptablaðinu föstudaginn 1. ágúst síðastliðinn. Þar upplýsir Þorgerður Katrín að hún hafi allan tímann verið sannfærð um það að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar væri sú stjórn sem gæti tekist á við erfiða tíma með tilstyrk mikils þingstyrks.

Framsóknarmenn taka sjálfsagt eftir því að ráðherrann segir „allan tímann“ sem staðfestir að varaformaður Sjálfstæðisflokksins var þessarar skoðunar á sama tíma og formaðurinn, Geir H. Haarde var í viðræðum við Framsóknarflokkinn um áframhaldandi samstarf flokkanna eftir alþingiskosningarnar í fyrra. En það er önnur saga.

Fréttapunkurinn er það mat að stóra ríkisstjórn hafi þurft til. Skoðum hvernig það hefur gengið eftir hingað til. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er einmitt spurð að því í viðtalinu. Svar hennar segir býsna mikið : „maður þorir varla að segja það, því þá er bara gert grín að manni, en það hefur gengið vel.“ Það þarf svo sem ekkert að tilfæra dæmi um misvísandi áherslur og skoðanir einstakra ráðherra í mörgum stórmálum fram að viðtalinu, þau eru fólki fersk í minni.

En enn hefur bæst í þann sarp á þeim fáum dögum sem liðnir eru frá því að viðtalið birtist. Hafi það verið talið grín í síðustu viku að segja að samstarf stjórnarflokkanna gangi vel þá er það líklega stólpagrín að halda slíku fram núna. Menntamálaráðherra tilgreinir úi viðtalinu tvö mál sem ríkisstjórnin er sammála um.

Annars vegar segir hún mikilvægt að ríkisstjórnin gefi út skýrar yfirlýsingar um að „við ætlum í þessar álversframkvæmdir í Helguvík og á Bakka og það fyrr en ella. Máli skiptir að þau merki séu skýr og skorinorð og að ekki sé verið að humma þetta fram af sér.“ Forsætisráðherra hefur að auki sagt skýrt á öðrum stað að þetta sé stefna ríkisstjórnarinnar. En sama dag og viðtalið birtist þá fellur Umhverfisráðherra úrskurð sinn um að álvers- og virkjunarframkvæmdir í ÞIngeyjarsýslu skuli fara í sameiginlegt mat. Talið er að ákvörðunin fresti framkvæmdum um a.m.k. eitt ár og það kemur sem blaut tuska framan í Þingeyinga og varaformann Sjálfstæðisflokksins.

Hitt málið er framtíð Íbúðarlánasjóðs. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins fullyrðir í viðtalinu að samkomulag hafi náðst milli stjórnarflokkanna og að sjóðnum verði breytt í heildsölubanka. Í dag segir félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, á forsíðu Viðskiptablaðsins að „það séu engar hugmyndir uppi á sínu borði að íbúðalánasjóður hætti almennum útlánum og verði einungis heildsölubanki. Hún segir að helst myndi hún vilja að Íbúðalánasjóður yrði óbreyttur.“ Ólíkari verða skoðaninar varla.

Þesu til viðbótar spyr Jóhanna hvar menn væru staddir núna ef tekist hefði að leggja sjóðinn niður eins og sumir vildu og bendir á að enginn sé í útlánum nema Íbúðalánasjóður. Þorgerður Katrín segir hins vegar í viðtalinu við hana í siðustu viku að gæta verður þess að íbúðalánasjóður hagi sé ekki þannig á markaði að til óþurftar sé og að bankarnir séu fullfærir um að sinna ákveðnum þáttum í starfsemi íbúðalánasjóðs.

Enn neyðarlegri verða þessar deilur milli flokkanna síðustu daga í ljósi þess að Menntamálaráðherra leggur mikla áherslu á að það sé gott samstarf í ríkisstjórninni sem byggir á trausti milli forystumanna flokkanna. Samstarfinu lýsir hún þannig að unnið sé vel á bak við tjöldin og síðan komið með fullbúna áætlun. Samt vann Umhverfisráðherra úrskurð sinn án samráðs við forsætisráðherrann eða aðra ráðherra og Menntamálaráðherrann vissi greinilega ekkert hvað var í vændum í viðtalinu í síðustu viku. Ætli henni líði ekki þannig að verið sé að gera grín að henni.

En það sem blasir við og er aðalatriðið, er að samstarf stóru flokkanna og þingstyrkurinn mikli sem þeir hafa er ekki að skila árangri. Flokkarnir eru ekki að ná saman um helstu stefnumálin og sérstaklega er ágreiningurinn sláandi um stefnu í efnahagsmálunum. Það hefur víðar en á Íslandi verði mynduð stóra samstarfsstjórnin og reynslan bendir til þess að slíkt samstarf gangi að jafnaði erfiðlega vegna ágreinings milli flokkanna.

Það er rannsóknarefni hvers vegna svo er. Ef til vill er skýringin sú að um er að ræða flokka sem telja sig báða vera forystuflokka. Samfylkingin hefur til dæmis alltaf kynnt sig sem mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Það felur í sér að flokkurinn skilgreinir sig í ríkisstjórn í stað Sjálfstæðisflokksins og sé þar leiðandi. Hvor um sig gæti komið fram efnahagsstefnu sinni í ríkisstjórn með minni flokkum og tekið á aðsteðjandi vanda tiltölulega greiðlega.

En þegar þeir eru saman í ríkisstjórn þá mætast stálin stinn og hvorugur er tilbúinn til þess að gefa eftir fyrir hinum. Við slíkar aðstæður verður forsætisráðherrann óöruggur og veit varla hvar mörkin liggja gagnvart samstarfsflokknum. Engin skýr forysta verður í ríkisstjórninni og hún virðist láta reka á reiðanum. Mér sýnist þetta vera vandinn sem ríkisstjórnin glímur við og gerir það að verkum að varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefur misreiknað dæmið. Stóra stjórnin er ekki sú sem ræður best við að leysa erfiðu málin.

Stóru flokkarnir eru mótvægi við hvorn annan með mismunandi meginstefnu. Þeir geta ekki bæði verið samstarfsflokkar og höfuðandstæðingar. Annað hvort markmiðið hlýtur að víkja.

Kjarni málsins er að ríkisstjórnin þarf að vera samstíga og undir óumdeildri forystu. Til sjós er aðeins einn formaður á hverju skipi og það er fyrirkomulag byggt á gömlum sannindum.

Athugasemdir