Lægri skattar á lágar tekjur

Pistlar
Share

Tillögur um sérstakan persónuafslátt til þeirra framteljenda sem hafa lágar tekjur, til viðbótar almennum persónuafslætti sem allir fá, lækka skattgreiðslur lágtekjufólks, svo sem ellilífeyrisþega, öryrkja og þeirra sem vinna illa launuð störf en þurfa samt að greiða af takmörkuðum tekjum sínum skatta til hins opinbera. Með þessari aðferð tekst að bætin kjörin umtalsvert hjá þeim sem helst þarf á því að halda án þess að sambærileg kjarabót gangi upp allan tekjustigann og verði ríkissjóði mjög kostnaðarsöm. Enginn mun hins vegar tapa á aðgerðinni, þeir sem hafa háar tekjur munu borga sömu skatta og áður.

Þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um sérstakan persónuafslátt og ASÍ lagði fram kröfu um slíkan afslátt í viðræðum við stjórnvöld og atvinnurekendur um nýjan kjarasamning. Forsætisráðherra tók hugmyndinni illa fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og formaður Samtaka atvinnnulífsins sá ástæðu til þess að segja ríkisstjórninni fyrir verkum um skattastefnu hennar. Fyrrverandi ríkisskattstjóri blandaði sér í málið í Morgunblaðinu í blaðagrein endurómaði sömu rök og áður voru komin fram gegn sérstökum persónuafslætti. Ég ætla að leyfa mér að taka til varna fyrir sérstökum persónuafslætti og aukinni tekjujöfnun með skattkerfinu.

Rökin fyrir sérstökum persónuafslætti eru þau að þannig megi bæta fólki með lágar tekjur rýrnun persónuafsláttarins undanfarin ár og vaxandi skattbyrði. Frá 1988 til 2006 lækkaði frítekjumarkið um fjórðung. Tekjur sem í upphafi staðgreiðsluskattkerfisins voru innan skattleysimarka eru orðnar hærri en mörkin og af þeim er nú greiddur umtalsverður skattur. Þetta þekkja t.d. ellilífeyrisþegar flestum öðrum betur. Með sérstökum persónuafslætti tekst að færa skattleysismörkin til upphaflegs horfs hjá þeim sem hafa lágar tekjur.

Á sama tíma og lágar tekjur sæta vaxandi skattheimtu þá hafa skattar lækkað á hærri tekjur. Annars vegar hefur almenn skattprósenta lækkað um rúmlega 6% frá því sem hún var hæst árið 1996 og hins vegar hefur hátekjuskatturinn verið afnuminn, en hann var lengst af 5-7%. Í þriðja lagi eru umtalsverðar tekjur sem áður hefðu fallið undir til sem launatekjur taldar fram og skattlagðar sem fjármagnstekjur með aðeins 10% skattþrepi. Í heildina hefur álagning tekjuskattsins þyngst á lægri tekjurnar en lækkað á þær hærri.

Tekjuskattskerfið jafnaði áður milli tekjuhópa af því að tekjuháir greiddu meiri skatta en tekjulágir. Nú er svo komið að tekjuskattskerfið eykur ójöfnuðinn, munurinn milli tekjulágra og tekjuhárra vex við skattheimtu ríkisins. Vísa ég til fræðigreinar Stefáns Ólafssonar, prófessors við Háskóla Íslands, sem kom út árið 2006 til frekari upplýsinga um þennan þátt málsins.

Það þarf að breyta skattheimtunni á þann veg að minna verði greitt af lágum tekjum og meira af hærri tekjum. Sérstakur persónuafsláttur á valinn tekjuhóp er einföld og áhrifarík aðgerð til þess að bæta kjör lágtekjufólksins. Telji menn þörf á að auka tekjur ríkisins af tekjuskatti til mótvægis við lækkunina sem verður af sérstaka persónuafslættinum er eðlilegast að hækka álagningarprósentuna eða að taka upp sérstakan hátekjuskatt að nýju og sækja þannig viðbótartekjurnar fyrst og fremst í efri hluta teknanna.

En það er ekki í tillögunum að þessu sinni. Kostnaðurinn sérstaka persónuafsláttinn er langt innan þeirra marka sem ríkissjóður getur borið. Samkvæmt upplýsingum frá efnahagsskrifstofu Fjármálaráðuneytisins var talið að um 80.000 framteljendur hefðu lægri árstekjur en 3,5 mkr. á síðasta ári og greiddu samtals um 14 milljarða króna í tekjuskatt. En þar sem sérstaki persónuafslátturinn lækkar með vaxandi tekjum frá 1,8 mkr. árstekjum upp í 3,6 mkr. mun þessi tekjuhópur áfam greiða tekjuskatt þótt skatturinn lækki. Ef miðað er við að þessi hópur muni að meðaltali greiða um helming þess sem áætlaðs var í tekjuskatti þá er tekjutapið um 7 milljarðar króna samkvæmt þessum upplýsingum miðað við árið 2007.

Þá er því haldið fram að tillögurnar feli í sér fátæktargildru og að fólk með tekjur undir 3,6 mkr. muni borga meiri skatt en þeir sem hafa tekjur yfir þeim mörkum. Þetta er alrangt. Skattprósentan verður áfram eins fyrir alla 35,72% og enginn mun borga hærri skatt en hann gerir nú. Þeir sem munu fá sérstakan persónuafslátt munu njóta hans og greiða lægri skatta. Munurinn í ráðstöfunartekjum eftir skatta mun því minnka milli tekjuhópanna. Þeir sem eru sagðir lenda í fátæktargildru með tilkomu sérstaks persónuafsláttar verða betur settir en þeir eru nú og eiga meiri möguleika á því að bæta sína stöðu.

Það er verulega ómaklegt og jafnvel óheiðarlegt að láta að því liggja að staða þeirra sem fá aukinn persónuafslátt muni versna þegar hið gagnstæða er staðreyndin. Það er hins vegar pólitísk afstaða hvernig afla eigi skatta til þess að standa undir velferðinni.Ég get ekki fallist á að velferðin eigi að hvíla í vaxandi mæli á herðum þeirra sem hafa lágar tekjur.

Pistillinn bortost í Morgunblaðinu laugardaginn 12. janúar 2008.

Athugasemdir