Landbúnaðarstefnan er til umræðu um þessar mundir í kjölfar nýrrar skýrslu OECD. Atvinnugreinin og stefna stjórnvalda hefur tekið miklum breytingum á síðustu tveimur áratugum. Útgjöld ríkissjóðs til landbúnaðar eru aðeins um þriðjungur þess sem þá var mælt sem hlutfall af ríkisútgjöldum. Framleiðendum í hefðbundnum greinum hefur fækkað mjög mikið í kjölfar hagræðingar og gildandi búvörusamningar beina þróuninni áfram í þátt að tryggja landsmönnum góða vöru á hagsstæðu verði.
Nýleg könnun staðfestir að landsmenn vilja innlendar landbúnaðarvörur og eru tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir þær en innfluttar. Hvorki meira né minna en 80% landsmanna telja það skipta miklu máli að Íslendingar séu ekki öðrum háðir um landbúnaðarafurðir og um 62% eru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir íslenskar vörur en innfluttar.
Frjálslyndi flokkurinn hefur greitt búvörusamningum atkvæði á Alþingi og styður þá stefnu í meginatriðum sem í þeim felst, en hefur að nokkru leyti aðrar áherslur um framkvæmd innanlandsstuðningsins. Varðandi tolla á innfluttum matvælum og aðflutningsgjöld er rétt að stefna í átt til minni innflutningsverndar en vera þá í samræmi við alþjóðlega samninga sem Íslendingar eru aðilar að og opna munu þá sóknarfæri fyrir útflutning innlendrar vöru.
Landbúnaðar er mikilvæg atvinnugrein, þar sem liðlega 5000 störf eru tengd henni. Það samsvarar um 15 álverum s á stærð við Norðurál í Hvalfirði. Þess vegna er nauðsynlegt að breytingar á starfsumhverfi greinarinnar verði á þann veg að hún nái að aðlagast þeim og haldi styrk sínum í vaxandi samkeppnisumhverfi.
5% af útgjöldum heimilanna
Útgjöld heimilanna til matvæla og drykkjarvöru hefur farið lækkandi á undanförnum árum og eru samkvæmt nýjustu tölum 12,9%. Þetta kemur fram í rannsókn Hagstofu Íslands á útgjöldum heilanna árin 2003-2005. Þar af er innlendi hlutur matvælanna aðeins 5,0% af útgjöldum heimilanna. Innfluttar vörur eða vörur framleiddar innanlands og eru ekki háðar innflutningsvernd eru hærri liður í matarreikningi heimilisins eða tæplega 7%.
Matarreikningurinn er um 530 þúsund krónur fyrir meðalheimilið fyrir heilt ár, þar af eru kjöt, mjólk, ostar og egg 205 þúsund kr. Til samanburðar þá er húsnæðisliðurinn 25,4% af útgjöldum fjölskyldunnar eða fimmfalt hærri kostnaður en við kaup á innlendum matvælum sem njóta innflutningsverndar.
Í raun er fjármagnskostnaður og útgjöld heimilanna vegna viðskipta við bankana miklu hærri útgjaldaliður og sú staðreynd að raunvextir hér á landi eru 2-5% hærri en gerist í mörgum Evrópulöndum er helsta áhyggjuefni íslenskra heimila um þessar mundir. Fjármagnskostnaður íslenskra heimila hefur farið vaxandi en matvælaútgjöld lækkandi.
Ódýr matvæli miðað við kaupmátt
Verðlag hérlendis á matvælum er ekki það hæsta í heimi eins og haldið hefur verið fram þegar litið er til hlutfalls af útgjöldum heimilanna. Þannig eru t.d. útgjöld heimilanna í Rúmeníu liðlega 30% til matvæla, í Portúgal, Spáni og fleiri löndum frá 15-20%, en hér á landi er hlutfallið 12,9%. Þá vekur athygli að ýmsar vörur hér á landi sem engin innflutningsvernd er á eru mun hærri í verði miðað við meðaltasverð í gömlu ESB löndunum 15.
Innlendu matvælin eru sögð vera um 46% hærri en í Evrópusambandslöndunum, en þegar litið er til annarrra vöru, svo sem fatnaðar og skóvöru þá er verðið hér á landi enn hærra eða um 49% yfir meðaltali ESB 15 landanna. Brauð og kornvörur eru 67% dýrari og þjónusta hótel og veitingahúsa um 82% yfir ESB meðaltalsverðinu.
Allt eru þetta vörur og þjónusta sem engin innanlandsvernd er á. Samt er verðlagið svona hátt. Þetta lýsir því að verðlagið er meira háð kaupmættinum í viðkomandi landi og samkeppni en tollum. Afnám tolla og aðflutningsgjalda að óbreyttu er ekki líkleg til þess að lækka matvöruverð. Það mega menn hafa í huga.
Athugasemdir