Sérlög fyrir einstaka landshluta

Pistlar
Share

Ríkisstjórnin braut í blað í síðustu viku og hélt inn á áður óþekkta braut. Hún tók sér löggjafarvaldið og setti bráðabirgðalög þess efnis að ákvæði laga sem tryggja eiga öryggi borgaranna við rafmagnsnotkun gildi ekki um þriggja ára skeið á ákveðnu landssvæði, á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli.

Ástæðan er sú að fyrirtæki nokkurt, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hf. Þarf að leggja út í mikinn kostnað ef íbúðirnar eiga að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til íbúða annars staðar á landinu og að félagið hefur ekki yfir fjármunum að ráða til þess að borga kostnaðinn. Þá mun útleiga íbúðanna dragast ef þær eiga að uppfylla öryggisákvæðin og tefja að skólastarf muni hefjast.

Viðskiptaráðherra er þingmaður kjördæmisins og hann varði lagasetninguna með tilvísun til atvinnuástands á svæðinu sem þyrfti að styrkja eftir að Bandaríkjamenn fóru skyndilega með allt sitt hafurstask. Skólastarfið sem vísað er til mun einkum felast í því að íbúðirnar eru leigðar á góðum kjörum ungi fólki sem stundar nám í Reykjavík við háskóla þar.

Einhverjum gæti dottið í hug að spyrja hvort þörf er á almennu löggjöfinni um öryggi raflagna og raffanga fyrst hægt er að sleppa lagaákvæðunum sums staðar í 3 ár eða hvort ekki sé þá þörf á að fjölga undanþágusvæðunum, en út í þá sálma verður ekki farið hér.

Rökstuðningurinn er sem sé einvörðungu sá að styrkja atvinnulíf á afmörkuðu landssvæði og með þeirri réttlætingu eru lögin löguð að fjárhag eins fyrirtækis með því að láta ein lög gilda í íbúðum á Keflavíkurflugvelli og önnur lög annars staðar á landinu. Mér er ekki kunnugt um að þetta hafi áður verið gert, að setja svæðisbundin undanþágulög.

En fordæmið er komið og ríkisstjórnin situr uppi með það. Nú hefur sama ríkisstjórn sett atvinnulíf í mikinn vanda í mörgum sjávarplássum landsins með ákvörðun sinni um mikinn niðurskurð í Þorskveiðum um margra ára skeið. Eðlilega hlýtur að koma til athugunar að setja svæðisbundna löggjöf til þess að verja hagsmuni einstakra fyrirtækja og íbúanna.

Það mætti létta af þeim kvöðum og skyldum sem ýmis ákvæði laga mæla fyrir um svo sem sköttum og gjöldum. Tekjuskattur, virðisaukaskattur og tryggingargjald eru dæmi um skatta sem ríkisstjórnin hlýtur að vera tilbúinn að hlífa mönnum og fyrirtækjum við meða niðurskurðurinn stendur yfir eða skattar og gjöld á bensín og olíu. Ríkisstjórninni er án nokkurs vafa jafn annt um fjárhag fyrirtækja og launamanna í þorskútgerð eins og fjárhag Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar hf.

Einfaldara er hins vegar að setja bráðabirgðalög um breytingu á fiskveiðistjórnunarlögunum og mæla fyrir um það að á ákveðnum og tilgreindum svæðum landsins gildi önnur lög um veiðar á þorski og að þar séu útgerðir undanþegnar niðurskurði veiðiheimilda, enda hafi fyrirtækin augljóslega ekki yfir að ráða fjármunum til þess þola samdráttinn.

Það hlýtur að koma með næstu bráðabirgðalögum svar ríkistjórnarinnar við 5 milljarða króna árlegu tekjutapi fyrirtækja á Vesturlandi af niðurskurði þorskveiðiheimilda.

Athugasemdir