Skoðanakannanir sem áróðurstæki

Pistlar
Share

Undanfarnar vikur hefur dunið yfir landsmenn flóðbylgja af skoðanakönnunum um fylgi flokkanna. Greinilegt er að fjölmiðlar landsins telja það sitt helsta hlutverk að láta framkvæma könnun og fjalla síðan um hana endalaust aftur á bak og áfram. Fengnir eru álitsgjafar, sem eru mismunandi lítið lausir við að vera hlutlausir og draga það helst fram sem þeim finnst að landsmenn eigi að tileinka sér.

Satt best að segja er þessi síbylja fyrir löngu komin út fyrir allt eðlilegt fréttagildi og er fyrst og fremst til þess að sannfæra kjósendur um það að þessi flokkur sé að tapa eða hinn að vinna. Forsendur kannanna liggja í láginnu og stundum í þagnargildi og nauðsynlegum fyrirvörum er ekki komið á framfæri. Það keyrði algerlega um þverbak í gær þegar Morgunblaðið og Ríkisútvarpið settu mikið pláss og drjúgan tíma í að kynna splunkunýja könnum Capacent Gallup og fóru létt með að draga miklar ályktanir af litlu efni og brjóta það svo niður í frumeindir og deila út fylgi flokkanna á einstök kjördæmi þrátt fyrir að svarfjöldinn væri ekki tilskiptanna á höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina hvað þá í 6 kjördæmi.

Það sem eiginlega varð til þess að fram af mér gekk er að þessir virðulegu fjölmiðlar notuðu tölur í þessari nýju könnum til þess að henda á haugana nýlegri könnun RÚV um fylgi í Norðvesturkjördæmi sem byggðist á mun stærra úrtaki og meiri svörun. Hvað gengur Ríkiútvarpinu til með þessu óvönduðu vinnubrögðum? Er þetta bara fúsk hjá fréttamönnum sem nenna ekki að gera fréttir um stefnur og skoðanir flokka og frambjóðenda eða er það sérstakt keppikefli að fæla kjósendur frá tilteknum flokkum og að öðrum?

Í vikunni var sent til allra fjölmiðla stefna Frjálslynda flokksins í skatta- og velferðarmálum. Skemmst er frá því að segja að aðeins Mbl.is greindi frá nokkrum aðaltriðum í tillögunum,en hvorki prentaða útgáfa Morgunblaðsins né aðrir fjölmiðar hafa sagt eitt orð um stefnu flokksins. Rétt eins og það komi kjósendum ekki við. Ég hélt að fjölmiðlar litu á það sem hlutverk sitt að upplýsa almenning og miðla til hans efni. En þessi frammistaða vísar frekar til þess að þeir líti á sitt hlutverk sem tæki til þess að beina kjósendum að tilteknum flokkum og frá öðrum. Þeir verða að taka sig á að mínu mati ef þetta á ekki að verða útbreidd skoðun.

Helsta staðreyndin, sem bæði Morgunblaðið og RÚV þegja yfir, er að áreiðanleiki kannanna er með allra minnsta móti. Það er nokkuð stöðugt að aðeins 47-49% úrtaksins taka afstöðu . Með öðrum orðum meirihlutinn gefur ekki upp afstöðu. Önnur staðreynd, sem varðar könnun gærdagsins er að svörin í einstökum kjördæmum eru svo fá að ekkert verður byggt á þeim. Allt fimbulfambið um fylgi einstakra flokka í einstökum kjördæmum er algerlega marklaus fréttaflutningur.

Í Norðvesturkjördæmi er skiptingin á fylginu milli flokkanna greinilega byggt á færri en 60 svörum. Í kjördæmakönnun RÚV fyrir sama kjördæmi var úrtakið 970 manns og svörin að lokum um 470 eða um 8 sinnum fleiri. Í könnum gærdagsins voru svörin fyrir allt landið aðeins um 600. í kjördæmakönnun Stöðvar 2, sem Félagsvísindastofnun H.Í framkvæmdi um fylgi flokkanna í Norðvesturkjördæmi var úrtakið 800 manns og svörin 374.

Í kjördæmakönnunum er Frjálslyndi flokkurinn með um 10% fylgi og í RÚV könnuninni um 13% og fylgið er greinilega á uppleið miðað við mánaðarkannanir fram til mars sem sýndu 7-9% fylgi .Þrátt fyrir fá svör í könnuninni í gær hika Morgunblaðið og Ríkisútvarpið ekki að fullyrða að fylgi Frjálslyndra sé um 5% í kjördæminu. Hvers konar vitleysa er hér á ferðinni?

Könnun þar sem um 27% neita að svara og samtals 53% gefa ekki upp afstöðu er kynnt sem marktæk vísindi og fengið svo út að Frjálslyndi flokkurinn fái ekki þingmann kjörinn. Þrátt fyrir betri vitund, þrátt fyrir betri gögn og þrátt fyrir miklu marktækari könnun fyrir fáum vikum er þessu haldið fram.

Það er svo alveg sérstak mál sem Capacent Gallup þarf að svara fyrir hvers vegna fyrirtækið lætur nota sig með þessum hætti. Til dæmis er því haldið fram í Morgunblaðinu, væntanlega í nafni fyrirtækisins að fylgi Frjáslyndra hafi þokast hægt niður á við og engin breyting verði þar á nú. Þessi fullyrðing stenst ekki, en ef hún er rétt gagnvart Frjálslynda flokknum stenst hún gagnvart öðrum flokkum svo sem Samfylkingunni.

Er ekki rétt að fjölmiðlar landsins einbeiti sér að stefnu og skoðunum og komi þeim áframfæri við kjósendur og láti svo þá um að ákveða sig? Þeir fjölmiðar sem ég gagnrýni sérstaklega í þessum pistli hafa mikla burði til þess að sinna hlutverki sínu og hafa yfir að ráða hæfum fréttamönnum. Þeim fer það ekki vel að fara svona út af sporinu.

Athugasemdir