Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins ræðst Svanfríður Jónasdóttir að Frjálsynda flokknum með með óvanalegum og rætnum hætti. Óvanalegum að því leyti að hún skrifar sem bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð og setur fram skoðanir og dóma yfir einstaklingum og stjórnmálaflokki í krafti embættis síns og rætnum að því leyti að hún ætlar talsmönnum flokksins ákveðnar skoðanir sem hún tilgreinir, og líkir þeim síðan við nasisma og þjóðernishreinsanir. Rökstuðningurinn er síðan að hætti Gróu á Leiti , "það sagði mér skólastjóri".
Það verður að mótmæla harðlega svona málflutningi og gera þá kröfu til bæjarstjórans að hann haldi sig við málefnalega umræðu. Svanfríður flýr efnisatriðin í málinu en gripur til þess að sverta þá persónulega sem hún er ósammála með fádæma ómerkilegum hætti. Við Eyjafjörð er vel þekkt spakmælið, að enginn hvítni þótt annan sverti.
Margir vöruðu við því að opna strax á síðasta ári vinnumarkaðinn fyrir nýju ríkjunum 10 í Evrópusambandinu. ASÍ lagði til að frjálsri för launafólks yrði frestað um þrjú ár vegna ótta við að til landsins kæmi á skömmum tíma verulegur fjöldi verkafólks frá þessum ríkjum sem væru tilbúið til þess að sætta sig við lakari kjör en hér gilda. Verkalýðsfélag Húsavíkur sagði blasa við að velferðarkerfið væri vanbúið til þess að taka þeim fjölda sem þá var kominn til landsins, hvað þá að það gæti tekist á við enn meiri fjölgun, en svo hefur orðið raunin. Verkalýðsfélag Akraness benti á að reynsla sé fyrir því að mikill meirihluti verkafólks frá láglaunasvæðum vinni á lágmarkslaunum. Jóhanna Sigurðardóttir, alþingismaður varaði við því í þingræðu að of hröð fjölgun innflytjenda gæti leitt til stéttskiptingar í landinu.
Frjálslyndi flokkurinn er ekki að ala á ótta við "hina", þ.e. útlendingana, fremur en þeir sem að framan eru nefndir, en því heldur Svanfríður Jónasdóttir fram. Formaður Samfylkingarinnar talaði í viðtali við Stöð 2 í liðinni viku um "okkar fólk" sem yrði útilokað frá vinnu og námi í Evrópusambandslöndunum ef Íslendingar gripu til þess að hafa stjórn á fjölda erlendra launamanna. Hver er munurinn á því að tala um hina og okkar fólk?
greinin birtist í Mbl. 11. apríl 2007.
Athugasemdir