Draugagangurinn um Íbúðalánasjóð

Pistlar
Share

Eins og menn muna þá gerði Framsóknarflokkurinn það að stærsta kosningamáli sínu fyrir síðustu Alþingiskosningar að styrkja Íbúðalánasjóð og hækka almenn lán sjóðsins upp í 90% af verði hóflegrar íbúðar. Þetta gekk eftir og snemma á kjörtímabilinu var þessu takmarki náð almenningi til hagsbóta, og reyndar gott betur því sjóðurinn aflaði sér lánsfjár á svo góðum kjörum að unnt var að lækka vexti umfram verðtryggingu úr 5,1% í 4,15% líka almenningi til hagsbóta.

Viðskiptabankarnir brugðust ókvæða við og reyndu að koma Íbúðalánasjóði á kné en þeim mistókst það ætlunarverk sitt. Þá fóru að berast yfirlýsingar úr Seðlabankanum þar sem sagt var að breyta þyrfti lögunum og helst að færa hlutverk sjóðsins alveg til bankanna. Sjálfstæðismenn hafa tekið undir kröfur bankanna en þegar gengið var á formann Sjálfstæðisflokksins og núverandi forsætisráðherra fyrr á þessu ári sagði hann alveg skýrt að ef framsóknarmenn vildu ekki breyta hlutverki Íbúðalánasjóðs þá yrðu engar breytingar. Svo einfalt er það.

En engu að síður þá er búið að lækka lánshlutfallið úr 90% í 80% og sífellt er í gangi einhver nefnd sem á að gera tillögur um framtíð Íbúðalánasjóðs. Hvernig má það vera að það gerist sem ekki á að vera vilji fyrir og er í andstöðu við stjórnarsáttmálann? Hvaða draugagangur er þetta í málinu? Og síðast í gær var aðalseðlabankastjóri Íslands, sjálfur Davíð Oddsson, með yfirlýsingar um málið og heimtaði lagabreytingar fyrir áramót um Íbúðalánasjóðinn.

Vísaði hann til einhverra ummæla ótilgreindra ráðherra sem hann túlkaði svo að fælu í sér loforð um að slá sjóðinn af og krafðist efnda strax og ef ég skildi hann rétt þá skyldi Framsókn svo hætta að draga lappirnar í málinu. Ég horfði á manninn í forundran og flaug það helst í hug hvort maðurinn væri búinn að gleyma því að hann hætti í fyrra í stjórnmálunum. Það var engu líkara en að hann væri í hlutverki pólitískrar afturgöngu í íslenskum stjórnmálum sem birtist á leiksviði Seðlabankans.

En veruleikinn er sá að það er ekki Seðlabankans að ráða löggjöf um húsnæðislán og bankastjórinn gefur engin fyrirmæli til Alþingis eða ríkisstjórnar. Ég ætla rétt að vona að Framsókn dragi lappirnar sem mest í þessi máli og helst hreyfi þær ekkert. Það er engin ástæða til. Íbúðalánin hafa ekki hrint af stað verðbólgunni, þær takmarkanir eru á hámarkslánum sjóðsins að ekki er lánað upp fyrir brunabótamatsverð, sem þýðir að lánshlutfallið á höfuðborgarsvæðinu er ekki í raun 90% heldur lægra. Það eru hins vegar bankarnir sem hafa spennt upp markaðsverðið með því að lána upp í 100% af markaðsverði þótt það væri langtum hærra en brunabótamatsverðið.

Málið er alveg kristaltært í stjórnarsáttmálanum og samþykktum Framsóknarflokksins. Eftir því á að vinna með almannahagsmuni að leiðarljósi. Ríkisstjórnin hefur ekkert umboð til þess að fara út fyrir stjórnarsáttmálann og við framsóknarmenn erum bundnir af ákvæðum hans og loforðum okkar til kjósenda í síðustu Alþingiskosningum. Orð skulu standa og draugar niður kveðnir.

Athugasemdir