Hagdeild ASÍ gaf út í janúarmánuði skýrslu um lífskjör á Norðurlöndum. Gerður var samanburður á lífskjörum launafólks í 4 löndum, á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Leitast var við að svara spurningunni: hver eru efnahagsleg lífskjör íslensks launafólks í samanburði við launafólk í hinum löndunum þremur.
Skoðuð voru heildarlaun, verðlag og vinnutími, skattkerfi og tilfærslur frá ríki til einstaklinganna fyrir ákveðnar fjölskyldustærðir. Íslendingar eru yfirleitt með hæstu heildarlaunin, þar er verðlag langhæst og flestar vinnustundir þarf til að afla teknanna.
Opinber þjónusta er dýrari á Íslandi en hinum löndunum þremur enda heildarskattheimta minnst og tekjujöfnunaráhrif íslenska skattakerfisins eru minnst. Á Íslandi bera fjölskyldur hærri kostnað af heilbrigðisþjónustu og lyfjum sem og menntun og tómstundum barna sinna en í hinum löndunum. Niðurstaðan í heild er að efnahagsleg lífskjör á Íslandi eru sambærileg við eða heldur lakari en á Norðurlöndunum.
Heildarlaunin á Íslandi eru að jafnaði hæst, en vinnutíminn er verulega lengri. Getur munað upp í 12 klst á viku, sem er 30% lengri vinnuvika, fyrir véla- og vélgæslufólk á Íslandi en er í Svíþjóð. Algengt er að vinnutíminn sé 6 – 8 klst. lengri á viku hverri hér á landi, en það samsvarar 10-15% lengri vinnuviku.
Tölur um verga landsframleiðslu segja sömu sömu. Hún er pr. íbúa sú næsthæsta á Íslandi, en verður langlægst þegar reiknuð er framleiðslan pr. vinnustund eða 33.7 dollarar. Næstir eru Svíar með 39,9 dollara, Danir með 40,9 dollara og Norðmenn eru langhæstir með 56,6 dollara. Þarna er Íslendingar 15% lægri en Svíar og tæplega 18% lægri en Danir. Vegna olíuauðlindarinnar er kannski ekki sanngjarnt að miða að fullu við Norðmenninga.
Miklu munar á verðlagi milli landanna. Verðlagið er hæst á Íslandi, miðað við mánaðarlegar mælingar OECD. Í skýrslunni er miðað við verðlag í september 2005. Þá er verðlag 27% lægra í Svíþjóð, 15% lægra í Danmörku og 10% lægra í Noregi.
Þegar búið er að taka tillit til verðlags og vinnutíma kemur í ljós að kaupmáttur launa Íslendinga eru að jafnaði sá lægsti á Norðurlöndunum fjórum. Það er ekki nógu gott.
En það þarf líka að skoða skattana og opinberu þjónustuna til þess að bera saman lífskjörin. Þar eru heildarskattar á Íslandi lægstir miðað við 2004. Þá var skattheimtan 41% af landsframleiðslunni, en frá 45% – 51% í hinum löndunum. Íslenska skattkerfið er einfaldara en hin kerfin, skattleysismörk hærri, háu launin skattleggjast hlutfallslega minna og tekjujöfnunaráhrifin eru minni.
Á móti því kemur að útgjöld hins opinbera til velferðarmála var lægst á Íslandi. Árið 2003 fóru 23,9% af landsframeiðslunni til þessara mála, en 25,1% í Noregi, 31,2% í Danmörku og 33,6% í Svíþjóð. Mestur munurinn liggur í lægri framlögum Íslendinga til aldraðra og fatlaðra. Húsnæðisbætur pr. íbúa á Íslandi eru um 80% af bótum í Noregi en aðeins um fjórðungur af bótum í Danmörku og Svíþjóð.
Útgjöld vegna barnabóta á íbúa á Íslandi eru aðeins um helmingur af því sem er í hinum löndunum, þótt hér séu hlutfallslega flest börn. Barnabætur er óháðar tekjum foreldra nema á Íslandi og eru greiddar til 18 ára aldurs í Danmörku og Noregi. Í Svíþjóð er greitt til 18 ára aldurs ef barnið stundar nám. Á Íslandi er aðeins greitt til 16 ára aldurs.
Fleira væri ástæða til að tíunda úr skýrlu ASÍ en hér verður látið staðar numið. Skýrsluna geta áhugasamir nálgast á vef ASÍ. En það er greinilegur munur á Íslandi og hinum löndunum hvað varðar framleiðni í atvinnulífinu og verðlag, þar sem við erum eftirbátar frænda okkar.
Ekki síður er greinilegur munur á fjölskyldu- og velferðarstefnu landanna, þar sem Ísland sker sig úr með lægri skattheimtu, minni jöfnuð og þyngri byrði fjölskyldnanna af heilbrigðisþjónustunni, menntun og tómstundum barnanna. Þarna staldra ég vil og spyr hvort þessi fjölskyldustefna sé vænleg til framtíðar litið? Ég hef um það efasemdir.
Athugasemdir