Í vikunni kom pólitísk niðurstaða um Byggðastofnun. Stofnunin mun halda áfram að lána, störfum verður ekki fækkað og ekki verður dregið úr starfseminni á Sauðárkróki. Allar helstu kröfur sem ég setti fram í síðustu viku hafa náð fram að ganga. Ég fagna því. Nefnd sem ráðherrann skipaði fyrir nærri hálfu ári hefur greinilega unnið mjög hratt síðustu daga.
Menn hljóta að spyrja sig að því hvers vegna stjórn stofnunarinnar tók þá ákvörðun í upphafi að loka fyrir lánveitingar, fyrst nú á að hefja þær að nýju að óbreyttri fjárhagsstöðu. Ég geri ráð fyrir því að pólitískir trúnaðarmenn ráðherrans, en ráðherrann skipar stjórnina, hafi gert ráðherra grein fyrir stöðunni og síðan tekið sína ákvörðun að fengnum viðbrögðum ráðherrans. Þá blasir við sú ályktun að stjórnin hafi ekki þá fengið stuðning til frekari lánveitinga.
Það er líka augljóst að stefnumörkun er komin skammt á veg hálfu ári eftir að fyrirtækið Stjórnhættir ehf. skilaði sinni skýrslu og enn er langur tími þar til þess má vænta að fullmótaðar tillögur liggi fyrir um framtíð Byggðastofnunar og fyrirkomulag þeirra málefna sem helst tengjast byggðamálum. Það er gagnrýnivert að setja starf Byggðastofnunar í uppnám við þessar aðstæður og iðnaðarráðherrann verður að axla ábyrgð á því.
Í gær gerðist það að endurskoðandi Byggðastofnunar gerði alvarlegar athugasemdir við skýrslu Stjórnhátta ehf. Telur hann að útlánatöp stofnunarinnar hafi verið að meðaltali um 3,6% af útlánum á árunum 1995-2004 eða um 361 mkr. á ári, en úttektaraðilinn heldur því fram að tapið hafi verið að meðaltali um 23%. Þá telur endurskoðandi Byggðastofnunar að útlánatap ársins 2004 hafi verið um 6% en ekki 50% eins og haldið var fram í skýrslu Stjórnhátta ehf. Fleiri alvarlegar athugasemdir eru gerðar við þá skýrslu sem ráðherra lét gera og á að vera grundvöllur að breyttri stefnu í málefnum Byggðastofnunar.
Þetta er alveg með ólíkindum. Grundvallarupplýsingar í málinu eru sagðar tóm vitleysa. En sérstaka athygli vekur hvers vegna Byggðastofnun gerir ekki athugasemdir fyrr en 30. nóvember við skýrslu sem er dagsett 5. júní. Ástæðan mun vera að stofnunin fékk aldrei skýrsluna í hendur og var ekki gefinn kostur á því að gera athugasemdir. Hvernig má þetta vera að sérstökum trúnaðarmönnum ráðherrans, stjórninni og forstjóra, er ekki treyst, hvorki til þess að gera athugasemdir við skýrslu Stjórnhátta ehf né til þess almennt að segja skoðun sína á því hver eigi að vera framtíð Byggðastofnunar? Hvaða vantraust er hérna á ferðinni?
Ég get tekið undir að nokkru leyti þá gagnrýni sem kemur fram á Byggðastofnun bæði í skýrslu Stjórnhátta ehf. og áliti starfshóps ráðherra. Mér finnst vanta allan kraft í stofnunina síðustu ár og starf hennar er ekki markvisst. Þessi breyting endurspeglast að mínu mati af því að pólitísk leiðsögn, sem áður var í stjórninni, er kominn upp í ráðuneyti og ákvarðanataka innan stofnunarinnar hefur færst frá stjórn til embættismanna. Af því leiðir að stjórnin hefur ekki lengur frumkvæði og áður var og verður frekar ósjálfstæð í störfum sínum.
En að lokum, svo mikið er víst að ég hefði ekki sem stjórnarformaður setið þegjandi og horft á stofnunina flatreka upp í fjöru og bíða þess sem verða vildi. Það verður að berjast fyrir hagsmunum landsbyggðarinnar og peningar eru afl þess sem gera skal. Byggðastofnun án peninga er meira og minna gagnslaus stofnun. Já, ráðherra er ekki alltaf besta svarið.
Athugasemdir