Loksins eitthver hreyfing.

Pistlar
Share

Eftir að ég vakti athygli á stöðu Byggðastofnunar í síðasta pistli og fann að aðgerðarleysi ráðherra og ríkisstjórnar hafa hjólin loksins farið að snúast. Iðnaðarráðherra hefur síðan lýst því yfir að þegar verði að finna lausn á vanda stofnunarinnar a.m.k. til skamms tíma og einnig að störfum verði ekki fækkað hjá stofnuninni. Þá sé þess að vænta að tillögur liggi fyrir í þessari viku. Það er veruleg bót að þessum yfirlýsingum, sem ég fagna, en til viðbótar þarf að vera ljóst að ekki verði dregið úr umsvifum Byggðastofnunar á Sauðárkróki. Um slík áform, ef þau eru fyrir hendi, getur ekki orðið samstaða.

Vissulega kemur til greina að stokka upp stofnanakerfið, eins og ég gat um í síðasta pistli, og þar finnst mér vera álitlegast að sameina Byggðastofnun og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og tengja hina nýju stofnun nánar ráðgjöf og þróun í atvinnumálum. Stofnunin hefði allt landið sem starfssvæði og gæti beitt sér af verulegu afli í einstökum verkefnum með lánveitingum, hlutafjárkaupum, styrkjum eða ábyrgðum, allt eftir því hvað best hentaði hverju sinni.

Það er stöðugt verkefni stjórnvalda að vinna að atvinnumálum landsmanna. Þar hafa þau beitt sér af krafti eins og á Austurlandi með stóriðjuuppbyggingu. Breytingarnar sem þar eru að verða hefðu ekki gerst af sjálfu sér og alls ekki án opinberrar íhlutunar. Nú er kröftum hins opinbera varið til þess að gera stóriðju í Þingeyjarsýslu að veruleika. Annars staðar eru horfurnar misjafnlega bjartar og sumar staðar eru þær alls ekki svo bjartar.

Þar er helst treyst á stuðning Byggðastofnunar og á stórum landssvæðum í Norðvesturkjördæmi hafa menn hafa í fá önnur hús að venda en að leita til Byggðastofnunar. Þess vegna er það algerlega óásættanlegt að flaggskip byggðastefnunnar reki vélarvana á land. Það er af því bitur reynsla að erfitt getur reynst að draga aftur á flot strandað skip. Vandinn er víða ærinn og í ýmsum byggðarlögum er beðið eftir stuðningi sem ekki fæst meðan þetta ástand varir.

Ráðherrar hafa sóst eftir starfi sínu, óskað eftir stuðningi félaga sinna í þingflokknum til þess og fengið hann og þeir verða þá líka að standa undir þeirri ábyrgð sem þeir takast á hendur. Til ábyrgðar iðnaðarráðherra heyrir að tryggja fjárhagslegan grundvöll Byggðastofnunar svo stofnunin geti framfylgt byggðastefnu ríkisstjórnarflokkanna.

Vandinn var fyrirsjáanlegur með löngum fyrirvara. Það hefur verið nægur tími til þess að taka til skoðunar stofnanaverkið og sjálfa stefnuna. Þrátt fyrir það er Byggðastofnun fjárhagslega lömuð, engar skýrar tillögur liggja fyrir til framtíðar og málið hefur enga umræðu fengið á ýmsum lykilstöðum, en á sama tíma hefur verið leyst úr fjárhagsvanda Nýsköpunarsjóðs.

Upplýst er að Iðnaðarráðherra fékk ráðgjafa síðastliðið vor til þess að gera skýrslu um Byggðastofnun, fáir vissu um hana og enn færri höfðu séð hana, þar til fjölmiðlar sögðu frá efni hennar í síðustu viku. Það eru því orð að sönnu að skýrslan fór lágt eins og ég sagði í síðasta pistli. Það var ekki fyrr en að fjölmiðlar höfðu fengið skýrsluna í hendur og birt úr henni að ég fékk afrit af henni.

Skýrsluna er ekki að finna á vef ráðuneytisins, hana er heldur ekki að finna á vef Byggðastofnunar, hún hefur ekki verið kynnt í flokknum né í þingflokknum og það var ekki fyrr en að þingmaður stjórnarandstöðunnar hafði tekið málið upp á Alþingi og kvartað yfir því að hann hefði ekki fengið skýrsluna að hún var gerð opinber.

Hvernig á að fara fram umræða og stefnumótun um framtíð Byggðastofnunar þegar fáir vita um úttektina og þar að auki legið á henni? Ekki er heldur neitt að finna í opinberum upplýsingum um tilvist þeirrar nefndar sem ráðherrann skipaði í framhaldi af skýrslunni og á að gera tillögur um framtíð stofnunarinnar. Við hverja ráðfærir nefndin sig og hvaða hugmyndir hefur hún, hvaða forsendur eru nefndinni lagðar? Er það svo að ráðherrann telur að þingmönnum komi málið ekkert við fyrr en búið er að afgreiða fullbúið frumvarp frá ríkisstjórninni, sem svo verður ekki breytt?

Alþingismenn eru kosnir af þjóðinni til starfa á Alþingi. Það eru ráðherrarnir ekki. Ráðherrarnir eru valdir af þingmönnum og sitja í skjóli þeirra. Það heitir þingbundin ríkisstjórn. Þess vegna eru það þingmennirnir sem hafa umboðið. Þeim er ætlað af kjósendum sínum að beita sér og móta málin. Mikilvæg mál þurfa að fara um hendur þeirra og fá stuðning þeirra. Alþingismenn eiga að koma að málum frá upphafi og hafa til þess fullan rétt.

Það er ekki fyrirkomulag sem ég sætti mig við að handhafar framkvæmdavaldsins sniðgangi alþingismenn við undirbúning mála. Um það eru mörg dæmi frá mörgum ráðherrum og því verður að linna.

Athugasemdir