Heimagerður vandi.

Pistlar
Share

gær var rætt á Alþingi um vanda rækjuiðnaðarins að frumkvæði Kristjáns Möllers, þingmanns Samfylkingarinnar. Ekki er ofmælt að vandi vandi þeirrar greinar er ærinn, hár útgerðarkostnaður við veiðarnar, lækkandi afurðaverð erlendis og hækkandi gengi íslensku krónunnar.

Sjávarútvegsráðherra hefur skipað nefnd sem hann ætlar að skila greiningu á vandanum og hugmyndum um aðgerðir. Staða greinarinnar, og reyndar fiskvinnslu almennt, er svo alvarleg að aðgerða er þörf fljótt. Stjórnvöld verða að vinna hratt og koma með ráðin til úrbóta. Þar er ég sammála Kristjáni Möller. Það er til lítils að skapa ný störf ef háa gengið eyðir öðrum jafnóðum.

En ég hnaut um þá greiningu framsögumanns umræðunnar að vandinn væri að hluta til heimagerður vandi og bitnaði fyrst og fremst á landsbyggðinni. Það er nefninlega ekki eins víst og Kristján Möller vill vera láta að hægt sé að skella skuldinni einvörðungu á "heimagerða vandanum" á stjórnarflokkana.

ég er ekki viss um að ástandið væri neitt öðruvísi ef Samfylkingin hefði verið við stjórnartaumana. Lítum á helstu orsakir efnahagsástandsins, þ.e. "heimagerða vandann":

1. Miklar virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka og álver í Reyðarfirði. Kristján styður það.
2. Áframhald stóriðjuframkvæmda þar sem annað álver í Norðausturkjördæmi virðist vera í fyrirrúmi. Væntanlega styður Kristján það.
3. Hækkun lána til íbúðakaupa og bygginga íbúðarhúsnæðis í 90%. Kristján studdi það.
4. Einkavæðing ríkisbankanna. Kristján var sammála því.
5. Lækkun skatta um tugi milljarða króna á ári. Kristján vildi það líka.

Í öllum þessum málum var Samfylkingin sammála stjórnarflokkunum, vildi í öllum meginatriðum gera það sama. Ég minni t.d. á kosningastefnu flokksins fyrir síðustu Alþingiskosningar. Þar var farið mikinn í fyrirheitum um lækkun skatta. Þá má benda á afgreiðslu þessara mála á Alþingi og afstöðu Samfylkingarinnar í þeim.

Niðurstaðan verður einfaldlega sú, að staðan í efnahagsmálum væri mjög svipuð ef ekki eins og nú er, þótt Samfylkingin hefði verið við stjórnvölinn. Þá spyr ég: hvernig ætlaði Samfylkingin og Kristján Möller að bregðast við? Það vantar alveg svörin við því. Tillaga Kristjáns Möllers um að láta rækjufyrirtækin fá lítinn kvóta í botnfiski er góðra gjalda verð, en dregur skammt. Stærðargráða vandans er allt önnur og meiri en lítill byggðakvóti getur leyst. Eftir stendur að Kristján hefur ekki svörin á reiðum höndum. Það er hans heimagerði vandi.

Athugasemdir