Kynbundin viðhorf til stjórnmálaflokka

Pistlar
Share

Í síðasta pistli dró ég fram tölur úr tveimur Gallup könnunum, sem sýndu mikla breytingu á fylgi kvenna við Framsóknarflokkinn til hins verra. Fyrri könnunin er frá maí 2003 og mælir viðhorf svarenda í tvær vikur í maímánuði 2003 að loknum alþingiskosningum. Síðari könnunin er frá ágúst 2005 og var framkvæmd í júlímánuði.

Fleira athyglisvert má draga fram úr þessum könnunum. Mikill munur er á afstöðu kynjanna til stjórnmálaflokkanna og það sem ekki síður er athyglisvert er að fylgi karla hefur lítið breyst á þessum tíma en sveiflurnar eru fyrst og fremst hjá konunum.

Aðeins 5% breyting er á afstöðu karlanna milli þessarra kannanna. Fylgi karla við Samfylkinguna er óbreytt, 29% og nánast óbreytt við Sjálfstæðisflokkinn( úr 40% í 41%). Fylgið minnkar hjá Framsókn, úr 14% í 11% og Frjálslyndum úr 8% í 6% á móti því eykst fylgi karla við Vinstri græna um 5%, úr 7% í 12%. Þetta verður að telja litlar breytingar.

Annað er upp á teningnum þegar fylgi kvenna er athugað. Þar hefur hreyfingin orðið nærri fjórum sinnum meiri en hjá körlunum eða 18% tilfærsla í stað 5% hjá körlunum. Framsókn hefur misst 11% ( úr 18% í 7%), Frjálslyndir 3% ( úr 6% í 3%) og Samfylking 3% ( úr 38% í 35%), en Sjálfstæðisflokkurinn hefur bætt við sig 10% ( úr 25% í 35%) og Vinstri grænir 8% ( úr 12% í 20%).

Þetta eru verulegar fylgissveiflur og uppistaðan í heildarbreytingu á fylgi flokkanna. Niðurstaðan í stuttu máli er að fylgi karlanna er frekar stöðugt á tímabilinu en breytingar á fylgi meðal kvenna valda því að Sjálfstæðisflokkur bætir við sig 5,5% fylgi, Vinstri grænir 6,5% og Framsóknarflokkurinn tapar 7%, sem eru stóru drættirnir í breytingu á fylgi flokkanna sem þessar tvær kannanir sýna. Það er greinilegt að það borgar sig fyrir flokkana að höfða til kvenna.

Karlar 2003 2005

B 14 11
D 40 41
F 8 6
S 29 29
Vg 7 12

Konur 2003 2005

B 18 7
D 25 35
F 6 3
S 38 35
Vg 12 20

Athugasemdir