Draugagangur um Ríkisútvarpið.

Pistlar
Share

Í vikunni sagði Ríkisútvarpið frá því að í haust yrði lagt fram stjórnarfrumvarp þar sem lagt yrði til að stofnuninni yrði breytt í hlutafélag. Horfið yrði frá því að gera stofnunina að sameignarfélagi eins og ríkisstjórnin lagði til á síðasta vori. Ekki voru tilgreindir neinir heimildarmenn fyrir fréttinni, en greinilegt að fréttastofa útvarpsins telur sig hafa áreiðanlegar heimildir.

Ekki hef ég heyrt af slíkum áformum og þau hafa ekki verið rædd innan Framsóknarflokksins svo mér sé kunnugt um. Stefna flokksins varðandi Ríkisútvarpið hefur verið ákaflega skýr og óbreytt í meginatriðum í mörg ár. Fyrir fjórum árum var beinlínis ályktað gegn því að breyta RÚV í hlutafélag á flokksþingi og stendur sú samþykkt enn.

Stefna Framsóknarflokksins er að RÚV verði áfram í þjóðareigu og sjálfstæði þess eflt frá því sem nú er, m.a. með því að endurskoða stjórnskipulag stofnunarinnar, einkum til þess að færa það undan áhrifavaldi stjórnmálamanna og tryggja fjárhag þess. Ríkisútvarpinu verði breytt í sjálfseignarstofnun og rekstur hennar tryggður með þjónustusamningi við ríkið.

Í sérstakri ályktun miðstjórnar flokksins frá 2002 um Ríkisútvarpið er þessu lýst nánar svona:

– stofnuninni skal skipað fulltrúaráð eftir tilnefningu Alþingis, ýmissa ólíkra samtaka og stofnana úr íslensku samfélagi, svo það endurspegli sem best fjölbreytt sjónarmið þjóðarinnar.
– fulltrúaráð skal kjósa úr sínum hópi stjórn stofnunarinnar sem ber ábyrgð á rekstri og dagskrá hennar. Stjórnin ræður forstjóra, sem ræður aðra starfsmenn. Um ráðningu helstu stjórnenda skal hann hafa samráð við stjórn.
– fulltrúaráðið velur málskotsnefnd. Hlutverk hennar er að fjalla um og skera úr um deilumál sem henni berast og lúta að álitamálum varðandi grundvallarhlutverk RÚV. Afar mikilvægt er að tryggja óhlutdrægni málskotsnefndar.

Þetta verður ekki skýrara af hálfu flokksins. Það fer ekki á milli mála að flokksmenn láta sig málefni RÚV miklu varða. Málið hefur verið rætt og um það ályktað á mörgum flokksþingum og sérstakur starfshópur á vegum miðstjórnar fór vandlega yfir það fyrir fáum árum.

Það væri meiriháttar mál fyrir Framsóknarflokkinn að standa að því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Í slíkum leiðangri væri gengið gegn eindregnum vilja flokksmanna í máli sem þeir telja mjög mikilvægt og það kann ekki góðri lukku að stýra.

Það að breyta RÚV í hlutafélag þýðir að fallið er frá þjóðareigninni og sjálfstæðinu, það verður hægt að selja útvarpið. Það var ekki að ástæðulausu að í greinargerð með RÚV frumvarpinu í vor, sem ekki varð útrætt, stóð :

Við samningu frumvarps þessa var ekki farin sú leið að stofna hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins. Ástæða þess er sú að Ríkisútvarpið hefur sérstöðu – hér er um að ræða félag sem ekki er ráðgert að selja.

Þingflokkurinn hefur ekkert umboð til þess að standa að hlutafélagavæðingunni. Flokkurinn hefur með beinum hætti hafnað þeirri leið og stjórnarsáttmálinn, sem miðstjórn flokksins hefur lagt blessun sína yfir, veitir engar heimildir fyrir þingmenn til þess að standa að málamiðlun í þessa veru.

Svona standa málin gagnvart Framsóknarflokknum, en hinu er ekki að neita að fréttaflutningur RÚV er byggður á einhverjum heimildum svo það er ljóst að einhver draugagangur er í málinu. Það hlýtur að skýrast fljótlega hvar hann er.

Athugasemdir