Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega að meta stöðuna eftir landsfund Samfylkingarinnar. Morgunblaðið gefur oft sterkar vísbendingar um hræringar innan Sjálfstæðisflokksins, enda löngum sterk tengslin milli ritstjóra blaðsins og flokksins. Leiðarar Morgunblaðsins föstudaginn 27. maí og svo Reykjavíkurbréfið daginn eftir eru mjög athygliverð. Þau skrif lýsa mati ritstjóra blaðsins á stöðu flokkanna eftir landsfund Samfylkingarinnar og átakalínunum í næstu alþingiskosningum. Það fer ekkert á milli mála, ef marka má skrif Morgunblaðsins, að sjálfstæðismenn eru smeikir eftir landsfund Samfylkingarinnar og telja að þeir verði strax að bregðast við.
Mestu tíðindum hljóta að sæta útreið Framsóknarflokksins í þessari pólitísku ritgerð Morgunblaðsins. Eftir 10 ára stjórnarsamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem um margt hefur tekist vel og a.m.k. sjálfstæðismenn hafa mikið dálæti á, er farið langt með að skrifa Framsóknarflokkinn út úr íslenskum stjórnmálum, sem sjálfstætt pólitískt afl í náinni framtíð.
Það er greinilegt að Morgunblaðið er að benda lesendum sínum á að sömu örlög geti beðið Framsóknarflokksins og Alþýðuflokkurinn mátti reyna eftir 12 ára samfellt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, en flokkurinn náði sér aldrei eftir það samstarf og klofnaði ítrekað.
Í leiðara blaðsins segir:
"Staða Framsóknarflokksins er sýnu erfiðari en Sjálfstæðisflokks. Raunar er ljóst að Framsóknarflokkurinn er í kreppu, sem ekki blasir beinlínis við hvernig hann á að ráða við. Að óbreyttu eru hins vegar meiri líkur en minni á því, að bæði sveitarstjórnarkosningar og þingkosningar verði erfiðar fyrir Framsóknarflokkinn."
Þessu til viðbótar segir í Reykjavíkurbréfinu að svo virðist vera að vinstri armur Framsóknarflokksins sé horfinn úr flokknum. Í ritstjórnargreinunum er sérstaklega bent á að framundan sé baráttan um miðjuna í íslenskum stjórnmálum og þar munu Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn keppa um miðjufylgið og til þess að styrkja stöðu sína verði Sjálfstæðisflokkurinn að breyta vissum áherslum í málflutningi sínum. Það þýðir augljóslega að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér að ýta Framsóknarflokknum út af miðjunni og eftirtektarvert er að ekkert er minnst á það að Framsóknarflokkurinn muni keppa um fylgið á miðjunni.
Ritstjóri Morgunblaðsins heldur því fram að Framsóknarflokkurinn sé vinalaus, Samfylkingin vilji ekki starfa með flokknum og fullyrðir að Samfylkingin gæti frekar hugsað sér samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en Framsókn. Þetta verður ekki skilið öðru vísi en sem pena ábendingu um hið gagnkvæma, að Sjálfstæðisflokkurinn vilji frekar Samfylkinguna en Framsókn eftir næstu alþingiskosningar.
Ef dreginn er saman boðskapur Morgunblaðsins varðandi Framsóknarflokkinn þá er hann þessi: Vinstri armur Framsóknarflokksins er farinn. Flokkurinn er ekki lengur miðjuflokkur. Flokkurinn er í kreppu, hann mun tapa í næstu kosningum og flokkurinn er vinalaus.
Þetta má botna þannig að Mbl. sé að segja að Framsóknarflokkurinn sé orðinn hægri flokkur og að það valdi kreppu hans. Ritstjóri blaðsins bendir á þau úrræði sem stjórnarflokkarnir geti gripið til að gera róttæka breytingu á verkefnaskiptingu og ráðherraskipan og taka mið af því að "hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þýðir landsfundur Samfylkingarinnar og niðurstaða hans að vígstaðan á vettvangi stjórnmálanna hefur breyst". Ritstjórinn er samt ekki bjartsýnn á að þessi ráð dugi Framsóknarflokknum því hann segir flokkinn vera "í kreppu sem ekki beinlínis blasir við hvernig hann á að ráða við" og reynir að skrifa á stjórnmálasamband við Samfylkinguna.
Þetta er ekki glæsileg staða sem ritstjóri Morgunblaðsins dregur upp af Framsóknarflokknum. Ég ætla ekki í þessum pistli að upplýsa um skoðun mína á greiningu Morgunblaðsins. Ég hef sett fram innan flokksins mína greiningu á pólitískri stöðu flokksins fyrir löngu og nú er tíminn til þess að ræða málin þar. En það þýðir ekki að hafa uppi stóryrði í garð ritstjórans og saka hann um rógburð, illvilja eða eitthvað annað þaðan af verra. Enn síður þýðir það nokkuð að fara í fórnarlambshlutverkið. Af hálfu okkar framsóknarmanna verður að bregðast málefnalega við, greina stöðuna, draga fram staðreyndir sem máli skipta og draga ályktanir af því.
Við höfum ýmsar upplýsingar úr skoðanakönnunum, sem birst hafa opinberlega um fylgi við flokksins, breytingar á því og hvers vegna, og að auki upplýsingar um afstöðu kjósenda flokksins til ýmissa umdeildra mála. Þegar illa gengur er besta ráðið að huga að málefnunum og því sem kjósendur flokksins hafa að segja um þau. Hlusta á þá og taka mark á þeim.
Athugasemdir