Tuttugu og tvö þúsund manns dóu í gær úr örbirgð

Pistlar
Share

Um helgina hafa tónlistarmenn vakið athygli á þeim vanda sem fátækt í heiminum er. Það er vel og hafi þeir þakkir fyrir.Talið er að á hverju ári deyi ríflega 8 milljónir manna af völdum fátæktar. Það eru um 22.000 manns á hverjum degi.

Frásögn dagblaðanna á morgun gæti verið þessi: 22 þúsund manns dóu í gær úr örbirgð. Um 8.000 börn dóu úr malaríu, 5.000 mæður og feður dóu af völdum berkla, AIDS lagði 7.500 fullorðna að velli, þúsundir létust af niðurgangi, öndurfærasýkingu og öðrum sjúkdómum sem fylgja í kjölfar langvarandi hungurs og vannæringar. Þeir létust á spítölum þar sem ekki voru til lyf, í rúmum þar sem engin net voru til varnar malaríu, í húsum án drykkjarvatns. Ekki er hægt að greina frá nafni hinna látnu og verður aldrei hægt.

Í Malawi er í þorpinu Nthandire litla uppskeru að hafa af maís ökrunum. Þurrkar plaga sem aldrei fyrr, en aðalvandinn er skortur á vinnuafli. Það er varla nokkur lifandi maður eða kona eftir á aldrinum 20 – 40 ára. Allir hinir hafa látist af völdum AIDS. Dauðinn hefur verið daglegt brauð árum saman. Sérhver amma reynir að halda lífinu í barnabörnum sínum og er með allt upp í 15 börn á framfæri sínu.

Um 900 þúsund manns eru smitaðir af HIV í Malawi og munu deyja innan fárra ára án viðeigandi meðferðar. Hún kostar sem svarar 1 bandarískan dollar á dag fyrir hvern sjúkling. Stjórnvöld hafa ekki efni á því og því stendur meðferðin aðeins þeim til boða sem geta greitt sjálfir fyrir hana. Það eru um 400 manns. Það nær ekki helmingnum af 0.1% þeirra sem eru smitaðir.

Meðaltekjur í Malawi eru um hálfur dollar á mann á dag. Þess vegna leituðu Malavísk stjórnvöld aðstoðar alþjóðasamfélagsins eins og það heitir á tyllidögum. Sett var saman áætlun og báðu um hjálp til þess að veita þriðjungi sýktra eða 300 þúsund manns aðstoð innan 5 ára. Bandarískum og Evrópskum stjórnvöldum þótti markmiðið of hátt og fóru fram á að samin yrði ný og ódýrari áætlun. Það var gert og nú var aðeins miðað við að veita 100 þúsundum sýktra hjálp innan fimm ára. Það var of mikið. Enn var skorið niður. Og aftur. Niðurstaðan varð að Malawi fékk fjárhagsaðstoð til þess að hjálpa 25 þúsund manns innan 5 ára.

Fátækt er stærsta vandamál heimsins. Um 1.100 milljónir manna eru í sárustu fátækt, hafa minna en sem samsvarar 1 bandarískum dollar á dag í tekjur. Sá hópur berst fyrir lífi sínu dag hvern. Um 1.600 milljónir manna þrauka á 1 – 2 dollurum á hverjum degi. Þeir eru aðeinsbetur settir en líða næringarskort og vantar heilbrigðisþjónustu, húsaskjól og vatn svo eitthvað sé nefnt. Samtals búa um 40% jarðarbúa við verulega fátækt, þ.e. hafa minna en 2 dollara á dag úr að moða.

Bandaríkin verja eftir árásirnir á New York árið 2001 árlega 450 milljarða dollara til hernaðarmála. En til þróunarmála fara 15 milljarðar dollara, það jafngildir 0.15% af vergri landsframleiðslu Bandaríkjamanna. Framlögin til hernaðarmála eiga að tryggja öryggi. Skortur á framlögum til þróunaraðstoðar veldur ómældu óöryggi. Fátækin og örbirgðin er gróðarstía haturs, hefndarþorsta og annarra hvata sem leiða menn inn á ofbeldisbrautir.

Í nýjustu bók sinni The End of Poverty færir hagfræðingurinn Jeffrey Sachs sannfærandi rök fyrir því að unnt sé að útrýma sárustu fátæktinni á næstu 20 árum. Það er að hans mati aðeins spurning um val, vilja ríku þjóðirnar fara þá leið. Tónlistarmennirnir, sem ég minntist á í upphafi pistils míns, létu til sín taka um helgina , til þess að hafa áhrif á almenningsálitið og stjórnmálamennina. Þeir hafa valið eins og Sachs. Við skulum slást í för með þeim og velja lífið og friðinn.

Athugasemdir