Mat Íraka sjálfra á innrás Bandaríkjamanna og Breta er að innrásin hafi verið skaðleg og siðferðilega ekki réttlætanleg. Þeir líta svo á að herlið bandalagsþjóðanna sé hernámslið og eigi að fara strax úr landi. Þetta kemur fram í könnun sem Gallup gerði í Írak í mars og apríl síðastliðnum fyrir USA TODAY og CNN. Alls voru 3.444 Írakar spurðir, viðtalið fór fram heima hjá hverjum og einum og tók það að meðaltali um 70 mínútur. Alls voru spurningar 23 og varpa svörin skýru ljósi á afstöðu írösku þjóðarinnar til ýmissa mála tengdum innrásinni. Það sem mér finnst hvað athygliverðast er hversu skýrir megindrættirnir eru.
ekki réttlætanleg
Skýr meirihluti svarenda eða 57%, telur að herlið Bandaríkjamanna og Breta eigi að fara strax ( á næstu mánuðum) og aðeins 36% vilja að það verði lengur. Að öllu samanlögðu telja 46% að innrásin hafi verið skaðleg ( unnið meiri skaða en gagn) en 33% telja að hún hafi verið til góðs. Þá segja 39% að á engan hátt sé hægt að réttlæta siðferðilega hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna og Breta og 13% segja að afar litla réttlætingu sé hægt að finna. Aðeins 12% telja að aðgerðirnar séu réttlætanlegar og 19% eru á þeirri skoðun að aðgerðirnar séu að einhverju leyti réttlætanlegar. Úr þessu má lesa að meirihluti Íraka telur skorta siðferðilega réttlætingu fyrir hernaðaraðgerðunum. Til viðbótar þá líta 71% Íraka á herlið bandalagsþjóðanna sem hernámslið en aðeins 19% telja það frelsara. Þegar innrásin var gerð voru þeir jafnmargir sem litu á innrásarherinn sem frelsara og sem hernámslið, þannig að breytingin er mikil á viðhorfi Íraka til herliðsins. Meginniðurstöður könnunarinnar eru þessar: meirihluti Íraka telur ekki hægt að réttlæta innrásina, hún hafi verið skaðleg í heildina litið, herinn sé hernámslið og eigi að fara strax. Þetta eru hinir skýru megindrættir, sem koma fram þegar Írakar meta málið í heild.
vildu Saddam út
Könnunin leiðir í ljós að sumt telja Írakar hafi breyst til hins betra. Þannig telja ívið fleiri að landið sé að nokkru leyti betur sett eftir innrás en áður og mun fleiri telja að fjölskylda þeirra sé betur sett eða 51% á móti 25% sem telja hið gagnstæða. Fáir Íraka styðja Saddam Hussein og 61% svarenda telja að þrátt fyrir erfiðleikarna, sem þeir hafi mátt þola síðan innrásin var gerð, sé þess virði að losna við hann. Þarna má sjá að málið er flókið, því Þrátt fyrir það telja flestir innrásina hafa verið skaðlega þegar allt er metið. Annað dæmi um þetta er að ríflega helmingur Íraka telur að öryggi þeirra minnki við brottför innrásarliðsins, en engu að síður vill 57% að herinn fari strax.
Fleira er forvitnilegt úr könnuninni, svo sem það 81% telja að á engan hátt sé réttætanlegt að ráðast á Íraska lögreglumenn og nærri helmingur telur enga eða litla réttlætingu fyrir árásum á Bandaríska herliðið, hinir eru mun færri sem vilja réttlæta árásirnar. Í heildina fær bandaríski herinn slæma einkunn, framferði hans þykir slæmt, einkum er fundið að því að lítið sem ekkert er gert til að vernda íraska borgara þegar átök eiga sér stað.
Athugasemdir