Ekki að því stefnt en skársti kosturinn
Segja má að niðurstaða Alþingis hafi verið óvænt, því lengi hefur verið stefnt á því að viðhalda sóknarkerfinu sem handfærabátarnir í dagakerfinu hafa verið í síðustu ár. Af minni hálfu var markmiðið að fá gólf í dagafjöldann, þannig að dagarnir yrðu aldrei færri en 23 hvert fiskveiðiár. En vegna vaxandi sóknargetu lá það fyrir að samfara gólfi yrði að setja frekari sóknartakmarkanir en daga og þá tengja sóknartímann við vélarafl og setja takmörk á það hve margar rúllur megi vera í hverjum báti. Þar vísa ég til tillagna sem lágu fyrir í viðræðum milli Landssambands smábátasjómanna og Sjávarútvegsráðherra fyrir síðustu Alþingiskosningar.
Ekki þingmeirihluti
Eftir miklar þreifingar og viðræður í allan vetur lá það fyrir að ekki var þingmeirihluti fyrir því að setja 23 daga gólf í dagakerfið. Í stjórnarandstöðunni eru þingmenn sem munu ekki styðja slíka tillögu þegar á reynir. Menn eins og Einar Már Sigurðarson og Lúðvík Bergvinsson munu ekki standa að því að lögfesta slíkt gólf. Það sést best á því að tillaga stjórnarandstöðunnar í málinu var ekki um 23 daga gólf heldur um 22 daga sem viðmiðun og dögunum gæti fækkað í samræmi við það sem heildaraflinn yrði umfram ákveðna viðmiðun. Miðað við stöðuna nú sýnist mér að dagarnir yrðu 15-17 á næsta fiskveiðiári miðað við þessa útfærslu.
Óbreytt kerfi slæmur kostur
Óbreytt kerfi þar sem dögunum fækkar jafnt og þétt ár hvert er vondur kostur. Það endar með því að setja rekstrargrundvöll bátanna í uppnám og margir munu ekki ráða við sínar skuldbindingar. Vestfirskir stjórnarþingmenn gátu hugsanlega komið í veg fyrir lagasetningu en þeir gátu ekki knúið fram gólfið i sóknardagana. Í þessari stöðu var skynsamlegast að ná fram niðurstöðu sem tryggði útgerðarmönnunum í kerfinu sem skástan grundvöll til áframhaldandi útgerðar. Því það er öllum ljóst að án útgerðarmanna verður lítið um atvinnu til sjós og lands. Íbúar í sjávarbyggðunum eiga meira en aðrir framtíð sína undir því að menn fáist til þess að hætta fé sínu og stunda atvinnurekstur frá þessum stöðum.
Hvað vildu útgerðarmenn?
Sjónarmið útgerðarmanna hafa mikið vægi, það segir sig sjálft. Sú eindregna skoðun þeirra til þessa um að fá 23 daga gólf í kerfið hefur haft áhrif bæði í stjórnmálamenn og stefnu flokkanna. Þess vegna var hlustað á það sem þeir höfðu fram að færa nú í vor, rétt eins og áður. Svör þeirra voru skýr, yfirgnæfandi meirihluti þeirra vildi ná niðurstöðu með því að fara inn í krókaaflamarkskerfið. Ekki endilega vegna þess að það væri þeirra óskastaða, margir þeirra vilja sóknarkerfi og horfa með nokkurri eftirsjá á eftir því. Heldur vegna þess að þeir mátu stöðuna þannig að áfram yrði ófriður um sóknarkerfið, jafnvel þótt svo ólíklega tækist að fá lögfest ásættanlegt gólf. Til framtíðar litið mátu þeir starfsumhverfið óvíst og óöruggt. Þá komu einnig fram þau sjónarmið að dagakerfið væri líkamlega mjög erfitt og vegna fjárfestinga í leyfi, bát eða dögum mætti lítið út af bera í veiði til þess að fjárhagurinn stefndi í óefni. Bent var á að í krókaaflamarkskerfinu væru 365 dagar til veiða í stað 19 og mögulegt að veiða allt árið og nota línu við veiðarnar eftir atvikum.
Tillaga Sjávarútvegsráðherra um 8.800 tonna kvóta til dagaflotans vakti áhuga margra og í viðræðunum við landssamband smábátasjómanna jókst potturinn í tæp 10.000 tonn af þorski. Það var í raun mjög góð niðurstaða þegar litið er til þess að þess floti hafði veitt um 11.000 tonn á síðasta fiskveiðiári. Forystumenn smábátaeigenda stóðu sig vel að mínu mati fyrir hönd sinna umbjóðenda, þar sem leitast er við að gera öllum kleift að halda áfram sinni útgerð og rísa undir þeim fjárfestingum sem menn hafa ráðist í.
Verra fyrir byggðirnar?
Ýmsir óttast að þessi breyting leiði af sér breytingu á útgerðarmynstri handfærabáta. Þeir hafi margir gert út frá Vestfjörðum og landað afla sínum þar en muni nú færa útgerð sína annað, líklega til heimahafnar og því muni landaður afli dragast mjög saman á Vestfjörðum með tilheyrandi samdrætti í umsvifum og atvinnu. Þetta eru eðlileg sjónarmið og rétt að reyna eftir megni að gera sér grein fyrir líklegri framvindu.
Fyrst er að athuga að handfæraveiðarnar hafa færst til eftir veiði og ekkert er víst til framtíðar um að afli síðustu ára berist á land á Vestfjörðum. Minna má á að landaður afli á síðasta fiskeiðiári dróst verulega saman í öllum höfnum á Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum og reyndar alveg til Þingeyrar sé miðað við fiskveiðiárið þar á undan. Óbreytt kerfi tryggir ekki óbreytt framboð af fiski. Veiðin getur færst norður og austur fyrir land án þess að menn fái rönd við reist í dagakerfi.
Í öðru lagi er munur á lönduðum afla á Vestfjörðum og úthlutuðum kvóta til vestfirskra dagabáta miklu minni en menn hafa talið. Miðað við tölur frá Fiskistofu var landað um 5.100 tonnum á Vestfjörðum á síðasta fiskveiðiári en kvótinn verður um 2.750 tonn. Munurinn er mun minni þegar bornar eru saman tölur um unnin afla og kvóta eða aðeins um 670 tonn. Þá bendir reynslan af krókaaflamarkskerfinu til þess að líklegt sé að bátarnir veiði meira en kvóta þeirra nemur og þá minnkar munurinn enn. Loks má svo nefna að ef vel veiðist fyrir vestan tel ég að margir útgerðarmenn munu halda áfram að veiða þar, enda eru það hagkvæmustu veiðarnar fyrir viðkomandi báta. Menn mega ekki gefa sér að hagkvæmar veiðar hætti að vera það við kerfisbreytinguna.
Það er að mínu mati full ástæða til þess að taka alvarlega áhyggjur manna en ég vil samt vara við að draga upp dökka mynd fyrirfram. Það eru rök fyrir því að breytingarnar verði minni en ætla má við fyrstu sýn og krókaaflamarkið hefur staðið fyrir sínu. Breytingin þýðir að það eru líka tækifæri í stöðunni fyrir Vestfirðinga og þau eigum við að nýta okkur.
Nýliðun?
Bent er á að nýliðun verður síður möguleg í krókaaflamarki en var í dagakerfinu. Það er rétt að vissu marki. Engu að síður var alls ekki ókeypis fyrir menn að komast inn í dagakerfið. Það þurfti að kaupa leyfi og daga og svo bát. Stofnkostnaður skiptir milljónum og milljónatugum króna. Ef sett hefði verið gólf í dagana hefði það leitt til þess að verð á dögunum hefði hækkað og líklega nálgast verð á kvóta í krókaflamarki. Hvort leiðin sem er hefði leitt til svipaðrar niðurstöðu hvað varðar nýliðun útgerðarmanna.
Ég legg áherslu á að niðurstaðan sem varð er ekki bara byggð á mati stjórnmálamannanna heldur styðst við mat útgerðarmannanna sjálfra. Það er ekki vænlegt að mínu mati að knýja fram niðurstöðu í andstöðu við þá sem helst eiga að búa við hana. Niðurstaðan varð ekki, hvað mig varðar, ekki sú sem að var stefnt, en engu að síður hef ég fulla trú á því að hún gefi Vestfirðingum góða möguleika til þess að sækja fram og efla sínar byggðir.
Kristinn H. Gunnarsson
Athugasemdir