Enn eru málefni sjávarútvegsins líklega stærsta málið í þessu kosningum hér á Vestfjörðum og greinilega ber þau mál hátt á landsvísu. Það kemur mér ekki á óvart. Sú niðurstaða, sem varð á kjörtímabilinu að taka upp veiðigjald, en að öðru leyti gera ekki breytingar, tók ekki á þeim atriðum sem helst hafa valdið deilum. Þess vegna voru þær deilur ekki settar niður. Ég á ekki von á því að málinu ljúki við þessar kosningar en vonandi miðar okkar áleiðis í því að breyta löggjöfinni þannig að fólk í sjávarbyggðunum geti betur unað við sinn hlut en nú er. Ég vil leggja fram sex tillögur sem gefa Vestfirðingum færi til sóknar á næstu árum , ef þær ná fram að ganga.
Hafró til Umhverfisráðuneytis
Nauðsynlegt er að færa Hafrannsóknarstofnun frá Sjávarútvegsráðuneyti til Umhverfisráðuneytis. Með því verður meiri áhersla lögð á umhverfi- og vistkerfisþátt veiðanna en verið hefur. Þá verður vísinda- og rannsóknastofnun að vera algerlega laus undan áhrifum beinna hagsmunaaðila svo sem LÍÚ. Á síðasta þingi flutti ég frumvarp um þetta sem varð ekki útrætt, en fékk víða góðar undirtektir.
Jafnstöðuafli til 5 ára
Eftir hringlið síðasta áratug sérstaklega í þorskveiðiráðgjöfinni er ég kominn á þá skoðun að best sé að ákveða afla til nokkurra ára í senn og gera ekki breytingar á því nema eitthvað sérstakt komi til. Það yrði til mikilla bóta fyrir útgerðina, gerði henni kleyft að gera áætlun um rekstur sinn fram í tímann með meiri vissu en nú er og yrði jafnframt til þess að styrkja markaðsstarf erlendis. Selja þarf afurðirnar og ef framboð er mjög sveiflukennt og það minnkar skyndilega þá geta markaðir tapast sem ekki svo einfalt að vinna aftur.
Á þremur síðustu árum hefur leyfilegur afli í þorski dregist saman um 28% og við erum nánast á sama stað og fyrir 10 árum, þrátt fyrir að hafa farið að fullu eftir ráðleggingum vísindamanna. Það tel ég ekki mæla með áframhaldandi árlegum sveiflum. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar tel ég að jafnstöðuafli gæti verið um 250 þús. tonn.
Hámark á hlut aflahlutdeildar
Frá því að framsalið var leyft hefur staða margra byggðarlaga breyst til hins verra.Hlutur Vestfirðinga af heildaraflamarki hefur lækkað úr 14,8% í 8,8%. Þessi samdráttur er um 40% og er um 25.000 tonn miðað við þorskígildi. Enginn annar landshluti hefur farið svona illa. Verð á heimildum er svo hátt að ógerningur er að hefja útgerð með því móti að kaupa allan kvóta. Til þess að opna fyrir nýliðun þarf að vera aðgangur að veiðiheimildum á lægra verði, sem fiskverðið stendur undir. Ég minni á samþykkt flokksþings Framsóknarmanna frá 1998 sem ályktaði um að setja hámark á hlut þeirra sem eiga aflahlutdeildir í heildarafla á þann veg að þegar leyfður heildarafli færi yfir ákveðin mörk væri því sem umfram er ráðstafað með öðrum hætti. Með þessum hætti eru teknar frá aflaheimildir til ráðstöfunar fyrir nýliðun eða í byggðakvóta.
Byggðakvóti
Á síðustu 4 árum hefur orðið til byggðakvóti samtals um 5300 tonn. Hann hefur víða orðið að gagni til atvinnuuppbyggingar, en því er ekki að neita að úthlutunin hefur stundum verið umdeild. Ætlun Framsóknarflokksins er að auka þennan kvóta enn til þes að treysta búsetu í viðkvæmustu sjávarbyggðum. Ég tel að það þurfi a.m.k. 20.000 tonn í þessu skyni sem yrði ráðstafað til byggðarlaga miðað við samdrátt á aflaheimildum á tíma framsalsins.
Línuívilnun
Á síðasta flokksþingi var samþykkt að taka upp línuívilnun fyrir dagróðrarbáta þar sem lína er beitt eða stokkuð upp í landi. Miðað er við 20% ívilnun í þorksveiðum og 50% í öðrum botnfisktegundum. Þetta þýðir einfaldlega að þeir sem gera út á línu fá viðbótaraflaheimildir og víst er að línútgerð á Vestfjörðum mun styrkjast ef þetta kemst í framkvæmd.
Milljarðar kr. til atvinnuuppbyggingar
Á næsta ári verður tekið upp svonefnt veiðigjald sem mun skila 1 – 2 milljörðum króna árlega. Á móti gjaldinu verða felld niður önnur þannig að hækkun á útgerðina verður mun minni. Framsóknarflokkurinn hefur samþykkt að verja tekjum af þessu gjaldi til nýsköpunar og atvinnuþróunar í sjávarbyggðum landsins. Fjármagninu verður varið mest til þeirra byggðarlaga og landssvæða sem hafa mátt þola mestan samdrátt. Gangi þetta eftir munu háar fjárhæðir renna til atvinnumála á Vestfjörðum.
Ekki ætla ég að halda því fram að allur vandi verði leystur ef þessar sex tillögur komast í framkvæmd á næsta kjörtímabili, en víst er að Vestfirðir munu standa betur og það er nokkurs virði.
Kristinn H. Gunnarsson
Athugasemdir