Besti vinur stórútgerðarinnar?

Greinar
Share

Höfuðmál Frjálslynda flokksins er að berjast fyrir nýrri stefnu í stjórn fiskveiða.
Taka á upp sóknarmark í stað aflamarks – nema hjá stórútgerðinni.
Fara á úr aflamarki í sóknarmark vegna brottkasts í aflamarkskerfinu, en er þá ekki brottkast hjá stórútgerðinni?
Banna á framsal og afnema kvótagróða og kvótabrask – nema hjá stórútgerðinni.
Er ekki einmitt mestur gróðinn þar?
Opna á möguleika á nýliðun – nema hjá stórútgerðinni.
Í sérstökum útgerðarflokki eiga að vera frystitogarar og nóta- og flotvörpuveiðiskip.. Veiðistjórnun í þeim flokki á áfram að vera byggð á framseljanlegum aflakvótum.
Það er merkileg tillaga því að :
Besta leiðin til þess að viðhalda háu kvótaverði er að hafa útgerðarflokkinn lokaðan. Besta leiðin til þess að ná kvótagróða er að leyfa framsal.
Stórútgerðin er færanleg eins og aðrar útgerðir, útgerð Guðbjargarinnar ÍS fór til Akureyrar og útgerð Sléttanessins ÍS fór úr fjórðungnum. Kvóti Bolvíkinga fór á frystitogara í Grindavík.
Mesta samþjöppunin í íslenskum sjávarútvegi hefur verið frá ýmsum byggðarlögum einmitt til stórútgerðarinnar.
Frjálslyndi flokkurinn vill ekki taka á þessarri samþjöppun.
Sjávarútvegsstefna Frjálslynda flokksins hróflar ekki við stóru köllunum í kerfinu og leyfir þeim meira að segja að halda áfram að sameinast hver öðrum.
Er von að menn spyrji: er Frjálslyndi flokkurinn besti vinur stórútgerðarinnar ?
Þessar spurningar eru eðlilegar í ljósi þess að í ályktun landsráðs frjálslynda flokksins er kyrfilega tekið fram að veiðistjórnun þessa útgerðarflokks á að vera byggð á framseljanlegum aflakvótum eins og lesa má á vef flokksins. Eitthvað virðist vera að renna tvær grímur á formanninn, því í viðtali við Mbl. síðasta sunnudag segir hann að skip í þessum útgerðarflokki megi ekki hafa viðskipti með heimildir sínar. Þetta rímar ekki við samþykkta stefnu flokksins. Það skyldi þó ekki vera að sjávarútvegsstefna frjálslyndra sé það illa gerð að þar reki sig hvað á annars horn. Eitt liggur alveg klárt fyrir: að Frjálslyndi flokkurinn styður stórútgerðina og vill leyfa henni að braska áfram með veiðiheimildirnar, eini útgerðarflokkurinn sem það fær.

Athugasemdir