Gott heilbrigðiskerfi, hóflegur kostnaður

Greinar
Share

Heilbrigðismál hafa verið mikið í opinberri umræðu undanfarnar vikur og hefur mátt heyra ýmsar fullyrðingar um það. Hefur ýmist verið fullyrt að það væri það dýrasta í heimi og einkenndist af fjáraustri og sóun eða að það væri í fjársvelti.

Eins og oft áður eru svona fullyrðingar öfgakenndar og fjarri lagi. Íslendingar hafa lagt metnað sinn í það að byggja upp gott heilbrigðiskerfi sem veitir betri alhliða þjónustu en nokkurs staðar er til staðar í jafnfámennu samfélagi. Það er mikill árangur sem við getum verið stolt af . Auðvitað kostar slík þjónusta peninga en það hefur löngum verið samstaða um það meðal íslendinga að kosta því til og að hið opinbera greiðir nær allan kostnaðinn. Það hefur t.d. ekki verið vilji fyrir því hérlendis að velta stórum hluta kostnaðarins yfir á einstaklingana og ætla þeim að kaupa sér tryggingar fyrir kostnaðinum eins og sums staðar er erlendis. Hið opinbera greiðir um 85% alls kostnaðar við heilbrigðisþjónustu hér á landi sem er með því allra hæsta í heiminum en t.d. í Bandaríkjunum greiðir hið opinbera aðeins um 44% af kostnaðinum.
Viljum við taka upp bandaríska kerfið ? Það held ég ekki, það er ekki vilji til þess að taka í raun upp tvöfalt kerfi eftir efnahag, en þeir sem gagnrýna kostnaðinn við íslenska kerfið verða auðvitað svara þessarri spurningu.

Í alþjóðlegum samanburði kemur íslenska heilbrigðiskerfið vel út. Það sýnir góðan árangur sem bendir til þess að gæðin séu með því allra besta í heiminum. Íslendingar voru í 10. sæti meðal þjóða innan OECD varðandi heildarkostnað árin 1990-98. Síðustu tölur sem til eru eru fyrir árið 2000 og þá voru íslendingar í 6. sæti. Þá á eftir að leiðrétta íslensku tölurnar til þess að gera þær að fullu samanburðarhæfar , en ýmsar greiðslur s.s. til hjúkrunar og aðstoðar við aldraða eru hjá okkur skráðar til heilbrigðismála en aðrar OECD þjóðir færa þær sem félagsmál. Ég hef ekki leiðréttar tölur en líklega má lækka tölurnar hér á landi um 10%. Þegar aðeins er skoðaður hlutur hins opinbera af heildarkostnaðinum erum við með þeim allra hæstu innan OECD, enda greiða einstaklingarnir óvíða minni hlut af kostnaðinum eins og áður er getið.

Þegar skoðuð er þróun útgjalda í heilbrigðiskerfinu á 10 árabili 1990 –2000, kemur í ljós að útgjöldin hérlendis hafa aukist minna en meðaltal landa innan OECD og gildir einu hvort skoðuð eru útgjöld á mann ( aukist um 2,9% á mann en meðaltal OECD landanna 3,3%) eða hlutfall af þjóðarframleiðslu, ( 1,6% á Íslandi en 2,2% í OECD).

Niðurstaðan er skýr: íslenska heilbrigðiskerfið er gott, kostnaður við það er hóflegur miðað við þjóðir innan OECD og hlutur einstaklinga er með því allra minnsta sem þekkist í heiminum.
Fullyrðingar umfjáraustur og sóun í heilbrigðiskerfinu eru algerlega fráleitar í ljósi framangreindra staðreynda.

Síðan Framsóknarflokkurinn kom að stjórn landsins fyrir rúmum 7 árum hefur verið góður gangur í atvinnulífinu, atvinnuleysi með allra minnsta móti og kaupmáttur vaxið um liðlega fjórðung. Það hefur skilað auknum tekjum í ríkissjóð sem aftur skilar sér í auknum fjárveitingum til heilbrigðismála. Árið 1994 voru framlög til heilbrigðismála tæpleg 30 milljarðar kr. en liðlega 64 milljarður kr. í frv. til fjárlaga 2003,
mælt sem hlutfall af landsframleiðslu jókst hlutur heilbrigðismála úr 6,8% í 7,8% frá 1994 til 2000 og hlutur heilbrgðismála af útgjöldum ríkisins jókst úr rúmum 16% í tæplega 19% á þessum árum. Þannig að það er sama á hvaða mælikvarða er litið fjárveitingar til heilbrigðismála hafa aukist umtalsvert í tíð Framsóknarflokksins frá því sem var þegar Alþýðuflokkurinn fór með þennan málaflokk.
Ég vil ljúka þessarri umfjöllum um heilbrigðismál með því að vitan til ummæla heilbrigðisráðherra bandaríkjanna, Tommy Tompson, sem var hér á landi á dögunum. Hann kynnti sér íslenska kerfið og niðurstaða hans var sú að hann sagðist ekki sjá hvers vegna íslendingar ættu að breyta sínu heilbrigðiskerfi og stefna á frekari einkavæðingu, það væri gott og skilvirkara en í USA, einstaklingarnir greiði aðeins um 15% af kostnaðinum og kerfið kosti aðeins um 8% af landsfrl. en um 14% í Bandaríkunum. Glöggt er gests augað.

Einkavæðingu takmörk sett.
Undanfarinn áratugur hefur einkennst af skipulagsbreytingum í efnahagsmálum sem styrkja eiga markaðshagkerfið, stefnt er að því að draga úr hlut ríkisins með sölu ríkisfyrirtækja og settar leikreglur í viðskiptalífinu sem eiga að koma á samkeppni. Ætlunin er að samkeppni milli aðila leiði til þess að framboð á vörum og þjónustu verði fjölbreytt og að verð verði lægra en ella.
Komin er nokkur reynsla á þessa skipan og fyrstu árin urðu breytingar sem lofuðu góðu. Mikil samkeppni var á matvörumarkaði, innanlandsflugi, landflutningum og útlánum banka svo dæmi séu nefnd. Síðustu árin hefur þróunin á mörgum sviðum verið á þá lund að ástæða er til að staldra við. Fækkun og stækkun fyrirtækja með sameiningu leiðir af sér fákeppni og jafnvel einokun sem einkenna æ fleiri svið viðskiptalífsins. Samhliða þessari þróun dregur greinilega úr samkeppni og verð hækkar í kjölfarið.
Matvörumarkaðnum er ágætlega lýst í skýrslu Samkeppnisstofnunar sem kom út í mai á síðasta ári. Þar er lýst óeðlilegum viðskiptaháttum og verðþróun sem er neytendum ekki hagkvæm. Tvö fyrirtæki ráða um 2/3 hlutum smásölumarkaðarins og um 80-90% af innkaupum matvöruverslana á dósa- og pakkavöru fara gegnum tvö birgðahús. Þessi þróun á átt til samþjöppunar og fákeppni er greinileg á fleiri sviðum svo sem í flutningum á landi, byggingarvörum, í fjármálaþjónustu, olíu- og bensínsölu, vátryggingum. Þá er hringamyndun að verða sýnileg þar sem aðilar í smásöluverslun og sjávarútvegi eru að komast til áhrifa í fjármálafyrirtækjum og geta þar með haft veruleg áhrif á samkeppnisaðila sína.

Þessi þróun er áhyggjuefni og bitnar á almenningi og neytendum og það verður viðfangsefni stjórnmálamanna á næstu árum að bregðast við. Þar verður til athugunar að endurskoða löggjöf til þess að tryggja samkeppni þar sem því verður við komið, setja reglur sem takmarka möguleika fárra aðila til að verða ráðandi á sínu sviði og á mörgum sviðum atvinnulífsins í senn og styrkja eftirlitsstofnun eins og Samkeppnisstofnun. Nauðsynlegt er að efla verulega samtök á borð við Neytendasamtökin til þess að veita öflugt aðhald almenningi til hagsbóta.
Umfram allt þarf að taka mið af því að við búum í afar fámennu þjóðfélagi og ekki er við því að búast að sömu skilyrði til samkeppni séu til staðar og gerist í milljónaþjóðfélögum. Þannig er t.d. engin samkeppni í innanlandsflugi, ferjusiglingum og milli sérfræðinga í heilbrigðiskerfinu sem stunda eigin rekstur er hverfandi samkeppni ef nokkur.

Frekari einkavæðing er vissulega kostur sem ber að skoða í hverju tilviki en gera verður þá kröfu að breytingin verði almenningi til hagsbóta. Sumt er ekki hægt að einkavæða eins og t.d. starfsemi Ríkisútvarpsins. Nýlega voru settar fram hugmyndir, meðal annars á vettvangi Samtaka atvinnulífsins, um að færa starfsemi ýmissa opinberra sjóða til bankakerfisins og fullyrt að einkavæðingin hafi lægri kostnað í för með sér. Ég er ekki að öllu leyti sammála þessum hugmyndum. Ég fæ ekki séð hvernig á að einkavæða starfsemi Lánasjóð íslenskra námsmanna eða Íbúðalánasjóðs án þess að skaða viðskiptavini þessarra sjóða.

Starfsemi lánasjóðsins er þess eðlis að ekki er hægt að einkavæða hana nema þá í heilu lagi til ákveðins fyrirtækis og hver er ávinningurinn af því ?
Íbúðalánasjóður er rekinn ríkissjóði að kostnaðarlausu, hann tekið aðeins 0,35% í vaxtamun sem dugar til þess að standa undir rekstri og útlánatöpum. Vaxtamunur í bankakerfinu er um 10 sinnum hærri. Íbúðalánasjóður og Íslandsbanki eru svipaðir að stærð. Vaxtamunur Íbúðalánasjóðs var um 1 milljarður króna á síðasta ári en Íslandsbanki tók 10 milljarða króna. Það fer ekki á milli hvor er lántakendunum hagstæðari. Auk þess er tryggt jafnræði óháð búsetu hjá þeim sem skipta við Íbúðalánasjóð en dæmi eru um það viðskiptabankarnir neiti að lána gegn veði í íbúðarhúsnæði í sjávarþorpum. ‘Ibúðalánasjóður er vel rekin og hagkvæmur sjóður og almenningur nýtur góðs af því í viðskiptum við sjóðinn.
Einkavæðing getur ekki verið takmark í sjálfu sér né heldur nægjanlegt að lánveitendur eða eigendur einir auki arð sinn, ef það leiðir til þess að kostnaður viðskiptavinanna eykst.

Athugasemdir