Allan síðasta áratug hafa staðið deilur um stjórn fiskveiða og þær eru síður en svo í rénum. Tvær nefndir hafa starfað undanfarin tvö ár og var þeim ætlað að fara yfir helstu ágreiningsatriðin og koma með tillögur til úrbóta. Önnur þeirra, svonefnd auðlindanefnd hefur skilað af sér ýtarlegri álitsgerð og leggur til að tekið verði gjald fyrir afnot af auðlindum. Hin nefndin er enn að störfum og á að fara almennt yfir lög um stjórn fiskveiða og gera tillögur um breytingar á þeim.
Framsal og fénýting
Í núverandi kerfi er byggt á aflaheimildum sem úthlutað er ótímabundið og handhöfum þeirra heimilað að framselja þær, leigja eða selja varanlega. Þannig geta útgerðarmenn haft miklar tekjur af framsali veiðiheimilda en fá þeim úthlutað fyrir lítið fé í samanburði við tekjurnar. Framsalið hefru fært mörgum miklar tekjur í eigin vasa og eru dæmi um þúsundir milljóna króna. Þetta atriði sætir mikilli gagnrýni og má nefna að á síðasta flokksþingi framsóknarmanna í nóvember 1998 var ályktað að "framsóknarmenn telja óeðlilegt að einstakir aðilar skuli hafa komist upp með að fénýta endurnýjanlegar auðlindir í eigin þágu. Nauðsynlegt er að skattkerfinu verði beitt til að koma í veg fyrir að slíkt gerist í framtíðinni.".
Ágreiningur í auðlindanefnd
Auðlindanefndinni var ætlað sérstaklega að ráða bót á þessu atriði. Nefndin náði samstöðu um að gjald yrði tekið fyrir afnot af auðlindinni en ekki var samstaða í nefndinni um hvernig það yrði gert. Bendir nefndin á tvær leiðir, veiðigjaldsleið og fyrningarleið, og kemur fram að ágreiningur var í nefndinni um þær og nokkrir nefndarmanna telja aðeins aðra leiðina ásættanlega. Ekki er upplýst hve margir nefndarmenn styðja hvora leið né hverjir þeir eru.
Leiðir auðlindanefndar
Veiðigjaldsleiðin þýðir áfram ótímabundin og óbreytt úthlutun veiðiheimildanna og heimild til framsals og að hið opinbera ákveði gjald fyrir afnotin, sem verði annað hvort ákveðið hlutfall af verðmæti landaðs afla eða sem tiltekna fjárhæð á hvert kg. af úthlutuðu aflamarki. Þær hugmyndir sem nefndar hafa verið um gjaldið staðfesta að ætlunin er að það verði aðeins brot af því verði sem handhafar veiðiheimildanna fá fyrir leigu þeirra eða sölu. Þessi leið mun ekki setja niður núverandi deilur enda áfram mögulegt að fénýta endurnýjanlega auðlind í eigin þágu. Veiðigjaldsleiðin er ávísun á áframhaldandi deilur.
Fyrningarleiðin er mun róttækari, ákveðinn hundraðshluti veiðiheimildanna er fyrndur hvert ár þar til allar heimilir eru innkallaðar. Hinum fyrndu heimildum er ráðstafað að nýju til ákveðins tíma í senn með því að selja þær á markaði eða uppboði. Þessi leið þýðir að handhafar veiðiheimilda munu afla sér heimildanna með sama hætti og þeir geta framselt þær. Verðlagning fer þá fram með sambærilegum hætti og möguleikinn á að fénýta auðlindina eins og verið hefur hverfur að öllum líkindum. Þar með er það deiluefni úr sögunni. Tekjurnar af leigu veiðiheimildanna renna til hins opinbera og segja má því að fyrningarleiðin uppfylli samþykkt síðasta flokksþings framsóknarmanna.
Ég tel að fara eigi svonefnda fyrningarleið þannig breytta að veiðiheimildir verði eingöngu leigðar á markaði til ákveðins árafjölda í senn en ekki seldar og að sveitarfélögin hafi forræði á fjórðungi til þriðjungs heimildanna sem leigðar verða, hafi tekjur af þeim og geti sett skilmála um útgerð og vinnslu sem tryggja atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu. Þannig verði uppfyllt það markmið í 1. grein laga um stjórn fiskveiða að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Í þeirri grein er engin byggð undanskilin.
Kristinn H. Gunnarsson
Athugasemdir