Afskriftir veiðiheimilda verði bannaðar

Greinar
Share

Í MORGUNBLAÐINU í fyrradag (fimmtudag) boðar sjávarútvegsráðherra nýtt lagafrumvarp um bann við afskriftum keyptra aflaheimilda. Rökin eru
að veiðirétturinn rýrnar ekki við notkun þar sem auðlindin er endurnýjanleg. Þetta er öðru sinni á skömmum tíma sem sjávarútvegsráðherrann boðar
þetta frumvarp.

Um þetta er allt gott að segja og ég er alveg sammála þessum sjónarmiðum. Aðeins tvennt vil ég benda á. Það er ekki sjávarútvegsráðherra sem flytur
slíkt frumvarp heldur fjármálaráðherrann þar sem málið varðar löggjöf um tekju- og eignarskatt. Hitt atriðið er að frumvarpið hefur þegar verið flutt. Ég
leyfði mér að flytja það í maí síðastliðnum og endurflutti það í upphafi yfirstandandi þings. Mælti fyrir því fyrir nokkru, sjávarútvegsráðherra var ekki
viðstaddur. Frumvarpið er nú til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. Þegar frumvarpið kom fram vakti það nokkra athygli, fjölmiðlar
gerðu því góð skil og margir höfðu samband við mig og lýstu eindregnum stuðningi við málið. Ég geri mér vonir um að frumvarpið verði samþykkt,
enda stuðningur við það víðtækur.

Ég vil í mestu vinsemd benda sjávarútvegsráðherranum á að það tíðkast ekki á Alþingi að flytja frumvarp um sama efni og þegar liggur fyrir þinginu.
Svoleiðis gera menn ekki. Það sem máli skiptir er efni málsins en ekki hver er flutningsmaður þess, það má sjávarútvegsráðherrann muna. Að vísu skal
það upplýst að Morgunblaðið hefur enn ekki séð ástæðu til þess að skýra frá flutningi frumvarpsins og kann það að skýra yfirsjón ráðherrans, en
blaðið hefur sér til afbötunar að hafa þeim mun oftar skýrt frá vilja sjávarútvegsráðherrans til þess að flytja málið

Athugasemdir