HUGMYNDIR um samfylkingu vinstri manna hafa verið mikið til umræðu síðastliðið ár og nú eru þær farnar að hafa áhrif á umræðu innan
ríkisstjórnarflokkanna. Morgunblaðið tekur málið fyrir í leiðara sunnudaginn 26. október sl. og daginn eftir er mikið viðtal við formann
Sjálfstæðisflokksins í Degi þar sem vikið er að samfylkingu vinstri manna. Þá viku formenn beggja stjórnarflokkanna að málinu á blaðamannafundi sem
þeir efndu til í miðri þeirri viku um störf ríkisstjórnarinnar.
Viðbrögðin eru athyglisverð. Morgunblaðinu og Davíð Oddssyni ber ekki saman í grundvallaratriðum. Morgunblaðið telur að sögulegar forsendur fyrir
sundrungu vinstri manna séu ekki lengur fyrir hendi og að sameining myndi skýra og einfalda línurnar í íslenskum stjórnmálum, en formaður
Sjálfstæðisflokksins lætur hafa eftir sér í Degi: "Mér finnst ósvífni að halda því fram að þessir flokkar eigi að sameinast af því þar ríki enginn
málefnaágreiningur. Ég sé ekki eitt einasta mál sem þeir eru sammála um."
Báðir kjósa reyndar að tala um sameiningu A-flokkanna, sem ekki er til umræðu nú, heldur hvort flokkarnir eigi að taka upp náið samstarf á grundvelli
sameiginlegrar málefnayfirlýsingar sem yrði undirstaða ríkisstjórnarsamstarfs milli þeirra. Flokkarnir fylktu liðsmönnum sínum á bak við
málefnayfirlýsinguna. Síðan verður það metið hvort þeir bjóði fram hvor fyrir sig eða sameiginlega, en sameining flokkanna er ekki á döfinni. Því er
hins vegar ekki að leyna að samfylkingin gæti leitt til þess síðar að flokkarnir rynnu saman, en því getur enginn svarað nú hvort svo fer, reynslan af
samfylkingunni mun skera úr um það.
En þessi mismunandi túlkun Morgunblaðsins og formanns Sjálfstæðisflokksins opinberar að það er greinilega verulegur ágreiningur innan
Sjálfstæðisflokksins um það hvernig beri að mæta hugmyndum um samfylkingu vinstri manna. Davíð Oddsson er greinilega mikið í mun að sannfæra
þjóðina um að samfylking geti ekki gengið. Það skýrist frekar þegar lengra er haldið í viðtalinu í Degi, en þar segir Davíð: "Ég hef enga trú á því að
slíkur listi yrði talinn hæfur kostur í stjórnarsamstarfi, hvorki hjá Sjálfstæðisflokki eða Framsóknarflokki. Ég held að hann muni dæma sig í útlegð og
harma það svo sem ekki."
Þessi yfirlýsing forsætisráðherrans sætir verulegum tíðindum. Hann leggur það á sig að hafna samstarfi við samfylkingu vinstri manna í einum
framboðslista. Það gerir hann áður en hann veit málefnagrundvöll samfylkingarinnar, honum er greinilega mikið í mun að kæfa hugmyndina í fæðingu.
En enn athyglisverðara er að formaður Sjálfstæðisflokksins lýsir því yfir fyrir hönd Framsóknarflokksins að sá flokkur muni hafna samstarfi við
samfylkinguna. Ég er alveg viss um að það gerir Davíð Oddsson ekki upp á sitt eindæmi heldur hlýtur hann að styðjast við álit forystumanna
Framsóknarflokksins, a.m.k. formannsins. Af þessu leiðir að boðað er að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn muni sameinast um það að
dæma sameiginlegt framboð A-flokkanna í útlegð. Spyrja má hvers vegna. Benda má á að Morgunblaðið telur að samfylkingin verði
Sjálfstæðisflokknum til góðs, þar sem eitthvað af fylgi Alþýðuflokksins muni leita yfir á Sjálfstæðisflokkinn. Davíð Oddsson er greinilega annarrar
skoðunar og metur samfylkinguna skeinuhætta Sjálfstæðisflokknum og sendir Alþýðuflokknum þau skilaboð að samstarf við Alþýðubandalagið
jafngildi útlegð flokksins í íslenskum stjórnmálum.
Ástæðan fyrir þessum hörðu viðbrögðum er augljós. Samfylking vinstri manna gæti orðið öflugasta stjórnmálaaflið og skákað Sjálfstæðisflokknum til
hliðar sem ráðandi flokki. Davíð gerir sér grein fyrir þessu og bíður ekki boðanna og leggur til atlögu gegn tilrauninni. Tökum eftir því að framundan eru
mikilvægir fundir bæði hjá Alþýðuflokknum og Alþýðubandalaginu, tímasetningin er engin tilviljun. Viðbrögð Davíðs staðfesta á hinn bóginn að
samfylkingarhugmyndin er raunhæf leið til þess að knýja fram grundvallarbreytingar í íslenskum stjórnmálum.
Höfundur er þingmaður Alþýðubandalags.
Athugasemdir