Ráðist á verkafólk í fiskvinnslu

Greinar
Share

Í MORGUNBLAÐINU um helgina er í tvígang vegið illilega að verkafólki í fiskvinnslu. Í laugardagsblaðinu er greint frá aðalfundi Vinnslustöðvarinnar
í Vestmannaeyjum. Frá fundinum berast skýr skilaboð. Farið verður fram á viðræður við verkalýðsfélögin um LAUSNIR á vandanum og annaðhvort
fallast þau á breytingar á vinnutíma og bónusfyrirkomulagi eða frystihúsunum verður lokað, öðru eða báðum. Daginn eftir bergmálar Reykjavíkurbréf
Morgunblaðsins sama boðskap, en þar stendur m.a.: "Það mundi koma verulega á óvart, ef starfsfólk fyrirtækisins vildi heldur missa vinnu en taka þátt
í nauðsynlegum breytingum til að rekstur félagsins verði hagkvæmur." Frekar er svo hnykkt á þessu viðhorfi og sagt að boltinn sé hjá
verkalýðsforystunni og að ábyrgð hennar sé mikil.

Ekki er allt sem sýnist í þessu máli. Samkvæmt upplýsingum í ársreikningi Vinnslustöðvarinnar má ætla að launagreiðslur hafi verið um 900 milljónir
króna á síðasta rekstrarári. Tapið í botnfiskveiðum og -vinnslu var hins vegar um 450 milljónir kr. skv. upplýsingum Morgunblaðsins. Stjórnendur
Vinnslustöðvarinnar og Morgunblaðið eru sammála um að framtíð fyrirtækisins ráðist af viðbrögðum verkafólks við hagræðingartillögum. Ég bendi á
að það þyrfti að lækka launakostnað um 50% til þess að eyða tapinu. Hvernig ætla menn að ná því fram?

Ég sé ekki fyrir mér meiri ávinning af umræddum hagræðingaraðgerðum en 10­15% nema ætlunin sé að lækka laun verulega. Ég veit ekki hve stór
hluti af þessum 900 milljónum er vegna vinnslunnar, en ef ég gef mér að það séu um 40% eða um 360 milljónir kr. gæti hagræðingin skilað um 35­50
milljónum kr. í afkomubata. Fráleitt er að það skipti sköpum í 450 milljóna kr. tapi.

Stærstur hluti vandans liggur í öðru en launum verkafólks og það er bæði rangt og ósvífið af forsvarsmönnum Vinnslustöðvarinnar að gera verkafólk
ábyrgt fyrir slæmri stöðu fyrirtækisins. Þetta heitir að árinni kennir illur ræðari. Af fréttinni má greina að vandinn liggur í því að hráefnið er of lítið sem
fer í vinnsluna, fyrirtækið er of skuldsett og fjárfestingar hafa ekki skilað sér í bættri afkomu. Ég get ekki fallist á að verkafólkið beri ábyrgð á þessu og
enn síður að lausnin liggi í því að fækka pásunum.

Ég efa ekki að forsvarsmenn verkafólks eru tilbúnir að ræða vinnutímabreytingar en þá til þess að skila sínu fólki hærri launum. Helsta vandamálið í
vinnslunni er láglaunastefnan og skortur á metnaði forstjóranna til að breyta henni.

Vandi landvinnslunnar er ekki nýr af nálinni og hefur verið til umræðu um margra ára skeið. Á síðasta vori flutti ég frumvarp sem ætlað er til þess að
jafna starfsskilyrði landvinnslu og sjóvinnslu. Ég man vel eftir umfjöllum Morgunblaðsins um það fyrir nærri áratug. Þá kom það fram að frystiskipum
verður meira úr sínum kvóta en öðrum. Var því haldið fram að munaði 20­25% sem frystiskip hefðu framyfir ísfiskskip. Þetta þýðir einfaldlega að
vinnslan í frystiskipunum er að greiða sem því svarar lægra fiskverð en landvinnslan. Það er gríðarlegur munur enda hráefniskaup langstærsti
kostnaðarliður vinnslunnar. Ég skora á Morgunblaðið að beina sjónum sínum að því að jafna skilyrði milli landvinnslu og sjóvinnslu fremur en að hengja
verkafólk í Vestmannaeyjum og á Þorlákshöfn upp í hæsta tré.

Höfundur er þingmaður Alþýðubandalagsins.

Athugasemdir