Umræða um sjávarútvegsmál hefur löngum einskorðast við fiskveiðistjórnunina, sum part af eðlilegum ástæðum. Fiskveiðistjórnun felst m.a. í því að takmarka og stýra sókn og veiði og það eru miklir hagsmunir í húfi hvernig til tekst. Það eru hagsmunir þjóðarinnar að fiskistofnarnir séu sterkir. Hinu má ekki gleyma að fiskveiðistjórnun felst líka í því að stuðla að sem öflugustum sjávarútvegi, atvinnugrein sem nýtir miðin á hagkvæman hátt og framleiðir mikil verðmæti með sem minnstum tilkostnaði. Lífskjör þjóðarinnar ráðast að miklu leyti af því hvernig þeir standa sig sem starfa í sjávarútveginum, allt frá útgerð til vinnslu og þaðan til sölu- og markaðsstarfs.
I.
Undanfarin 5 ár hefur atvinngreinin í heild verið gerð upp með hagnaði og líklegt að svo verði áfram og í kjölfarið hefur eiginfjárstaða sjávarútvegsins lagast. Fjármagn leitar inn í greinina og veruleg eftirspurn er eftir hlutafé í sjávarútvegi. Mikil endurskipulagning á sér stað í greininni þar sem fyrirtækjum fækkar og þau stækka með tilheyrandi hagræðingu eða áformum um hagræðingu í útgerð og vinnslu. Deila má um ýmislegt í þessari þróun, svo sem áhrifum hennar á einstök byggðarlög,skipting veiðanna milli báta og togara einkum frystiskipa, stöðu landvinnslunnar, gengi á hlutabréfum og að hve miklu leyti uppreiknuð verðmæti fyrirtækjanna eru vegna verðmætisins í aflahlutdeildinni ( þ.e. aðganginum að miðunum ) og að hve miklu leyti um er að ræða uppsafnaðan hagnað af starfseminni. Það verður hins vegar ekki deilt um að sjávarútvegurinn er á uppleið, efnahagslega er hann að styrkjast. Þjóðfélagsumræðan tekur mið af því, hún snýst fyrst og fremst um skiptingu á arðinum í greininni.Deilt er um hve mikið af svokölluðum fiskveiðiarði á að vera í sjávarútveginum til þess að standa undir þróun og framförum, greiða niður skuldir og styrkja eiginfjárstöðu, greiða góð laun, kaupa þjónustu , greiða arð til hluthafa og greiða skatt til ríkissjóðs og hve mikið af arðinum á að taka strax út út sjávarútveginum til ríkisins með beinni skattlagningu í formi auðlindaskatts eða gegnum uppboð á veiðiheimildum.
II.
Umræðan snýst að litlu leyti nú um vandann í sjávarútvegi eins og raunin var um árabil. Þessi breyting á afstöðunni til sjávarútvegsins segir meira en mörg orð.Stöðugleiki í efnahagsmálum skiptir gríðarlega miklu máli fyrir allt atvinnulíf og ég tel að þjóðarsáttarsamningarnir sem gerðir voru árið 1990 eigi stóran þátt í þessum umskiptum í sjávarútveginum.
Þrátt fyrir það verður að hafa í huga að sjávarútvegurinn er enn mjög skuldsettur, skuldir eru áætlaðar um 120 milljarðar króna, eiginfjárstaðan er um 25% af eignum og er lakari en í iðnaði, verslun eða samgöngum, enda má ekki gleyma því að á árunum 1988 og 1989 var gripið til neyðaraðgerða af hálfu stjórnvalda til þess að bjarga sjávarútveginum frá því að hrynja um land allt. Stofnaðir voru tveir opinberir sjóðir sem veitti miklu fjármagni til sjávarútvegsfyrirtækja annars vegar sem hlutafé og hins vegar sem lánsfé. Þessi veruleiki minnir á að fullsnemmt er að taka fúlgur fjár út úr greininni.
III.
Þessi almenna greining á misjafnlega við, landvinnslan hefur átt undir högg að sækja á umræddu 5 ára tímabili.Útgerðin hefur bætt sér upp að nokkru leyti skerðinguna í þorskveiði með hækkun á fiskverði sem þýðir einfaldlega að landvinnslan borgar meira en áður fyrir hráefnið.Á Vestfjörðum hefur verið mun verra ástand en víðast annars staðar á þessum tíma, enda óvíða sem landvinnslan var jafnstór þáttur í sjávarútveginum, má þar nefna gjaldþrot fyrirtækja á Bíldudal og í Bolungavík svo og mikla erfiðleika á Patreksfirði, Suðureyri og Þingeyri.Þá hefur jafnt og þétt dregið úr fiskvinnslu á Ísafirði og hafa verið miklar sveiflur í rækjuvinnslunni á þessum tíma.Efnt var til sérstakrar aðstoðar við vestfirsk sjávarútvegsfyrirtæki á árunum 1994 – 1996 og varið til hennar 360 milljónum króna í formi víkjandi lána.
IV.
Vissulega tengjast þessir erfiðleikar miklum samdrætti í þorskveiðum ásamt því að endurskipulagning fyrirtækjanna hófst tiltölulega seint. Þá held ég að menn hafi verið misjafnlega fljótir að átta sig á kostnaðinum af verðtryggingu lánsfjár. Auk þess hefur verið bent á að fiskveiðistjórnunin væri Vestfirðingum óhagstæð.
Ég tel að áhrifin af um helmingssamdrætti í þorskveiðiheimildum á fáum árum hafa verið verulega vanmetin. Það eru fá fyrirtæki sem standast það að tekjur þeirra dragist saman um fjórðung til helming í eitt ár hvað þá í 3 – 5 ár samfleitt eins og verið hefur. Slíkur samdráttur þýðir einfaldlega að selja verður eignir, skip og kvóta, það verður að rifa seglin. Þeir sem gerðu það ekki urðu einfaldlega gjaldþrota eða misstu eignir sínar með öðrum hætti. En það eru ekki bara útgerðarfyrirtækin sem verða fyrir samdrætti, í vestfirskum útgerðarplássum sveiflast afkoma þjónustufyrirtækja í takt við afkomu útgerðarinnar. Tekjur þjónustufyrirtækja, verkstæða, iðnaðarmanna og verslana drógust saman og úr varð keðjuverkandi áhrif gegnum allt plássið. Í sjávarplássunum er lítið um fyrirtæki sem eru óháð sjávarútveginum, á Vestfjörðum er það helst á Ísafirði í formi opinberrar þjónustu.
V.
Þá tel ég að leikreglurnar í fiskveiðistjórnuninni séu fámennari byggðarlögunum óhagstæðar. Í þessu markaðskerfi sem í gildi er verða þorpin einfaldlega undir. Þar má benda á nær öll vestfirsku þorpin. Súðavík og Hólmavík eru einu þorpin sem undanfarin ár hafa ekki misst obbann af veiðiheimildum sínum. Þá gildir þetta fyrir þorp á Norðurlandi, svo sem Grenivík og Hofsós, á Austurlandi, svo sem Breiðdalsvík og á Suðurlandi eins og Stokkseyri.
Vestfirðingar eiga að halda þessum skýringum á lofti og halda því fram sem réttmætt er í þeim efnum.Það er engin ástæða til annars.
VI.
Hins vegar verður það að viðurkennast að það er ekki hægt að skýra allar ófarir Vestfirðinga með tilvísun í niðurskurð á veiðiheimildum og vond lög um stjórn fiskveiða. Þegar sóknin hættir að vera ótakmörkuð eru útgerðarfyrirtækin meira og minna í samkeppni hvert við annað um takmarkaðar veiðiheimildir og þar gildir að eins dauði er annars brauð. Í þeirri samkeppni er ekki um annað að ræða en að standa sig. Það þýðir ekki að bíða eftir betri tíð, öðrum lögum, meiri veiðiheimildum o.s.frv. Því miður held ég að Vestfirðingar hafi of lengi beðið eftir því að gamli tíminn rynni upp á nýjan leik og á meðan létu þeir hjá líðast að laga reksturinn að nýju umhverfi.
VII.
Þar held ég að stjórnmálamenn eigi nokkra sök, því árum saman og jafnvel enn tala sumir þeirra um að taka upp algera nýja stjórn á fiskveiðunum sem færi Vestfirðingum gósentíð og skilja má að það sé í nálægum tíma að slík tíðindi gerist. Síðan líða árin og ekkert af slíku tagi gerist. Hver man ekki blessaða sjálfstæðismennina á Vestfjörðum, sem landsfund eftir landsfund fara til fundar með heitstrengingar um að nú renni upp byltingin í stjórn fiskveiða hvað varðar flokk þeirra, en koma svo heim skjögrandi eftir að landsfundurinn hefur valtrað yfir þá fram og til baka og skrifa í vestfirsku blöðin langar skýringar á óförunum og dugar ekki minna en að þrír skrifi saman.Man ég ekki í annan tíma þau tíðindi að saman skrifuðu þeir Matthías og þorvaldur Garðar. Það má líka minnast á félaga Sighvat sem hefur kosningar eftir kosningar sagt Vestfirðingum að Alþýðuflokkurinn væri á móti kvótakerfinu þegar ljóst er að núverandi kvótakerfið er grjóthörð stefna flokksins (með þeirri viðbót að rukka útgerðarmenn um miklu hærra gjald en nú er fyrir kvótann) enda Jón Sigurðsson helsti höfundur þess, en ekki Halldór Ásgrímsson eins og margir álíta. Það má líka nefna félaga í ónefndum flokki sem tala um að skipta um stjórnkerfi í fiskveiðum í haust komandi rétt eins og við séum aðalpersónur í Star trek og getum ferðast úr einum veruleika í annan á svipstundu og Mogginn trúir þessu eins og nýju neti og birtir frétt um það á baksíðu.Það er að sumu leyti skiljanlegt að vestfirskir útgerðarmenn hafi stunduð rekið fyrirtæki sín í því umhverfi sem þeir vildu að væri en ekki því sem var hverju sinni þegar svona er pólitíska leiðsögnin.
VIII.
Þótt ég hvetji útgerðarmenn eindregið til þess að standa sig sem best miðað við núverandi löggjöf í sjávarútvegi er ég ekki talsmaður óbreytts ástands.Þvert á móti tel ég að það þurfi að gera breytingar á aflamarkskerfinu og það á að vinna að því. Ég leyni því ekki að ég tel það óraunhæft að gerðar verði grundvallarbreytingar á kerfinu á skömmum tíma. Jafnvel þótt samþykktar væru grundvallarbreytingar á núverandi kerfi eða nýtt stjórnkerfi, sem ég tel vel koma til greina, þá mun líða langur tími þar til breytingunum verður hrint að fullu í framkvæmd. Ef tekið yrði upp t.d. uppboð á öllum veiðiheimildum yrði aðlögunartíminn að mínu mati a.m.k. 20 ár. Ef hraðar væri farið í sakirnar segjum 5 ár eða skemur , þá yrðu í uppnámi miklar skuldir upp á milljarðatugi króna sem hvíla á skipum umfram verðmæti þeirra, ef þau skip hefðu skyndilega litlar sem engar veiðiheimildir. Skuldirnar sem ekki fengjust greiddar myndu enda hjá almenningi sem yrði að borga brúsann. Ég dreg ekki úr mönnum að áforma breytingar á kerfinu en hvet fremur til breytinga en byltingar. Þeir sem reka sjávarútvegsfyrirtæki verða að búa við nokkuð stöðugt rekstrarumhverfi og geta gert áætlanir fram í tímann. Þá verða þeir að geta treyst því að löggjöfinni verði ekki kollsteypt með breytingum sem kippa grundvellinum undan fyrirtækjunum.
IX.
Eins og áður hefur komið fram er ég ekki talsmaður óbreytts kerfis. Ég tel núverandi aflamarkskerfi verulega gallað og óásættanlegt. Því hef ég ekki viljað styðja löggjöf sem festir það óbreytt í sessi. Ég hef reynt að gera mér grein fyrir því hverjir væru helstu ágallar kerfisins því það er nauðsynlegt ef vinna á að breytingum á því.
Athugasemdir