Vægt er til orða tekið að þungt sé í Vestfirðingum eftir að úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi úr gildi starfsleyfi til fiskleldis í Ísafjarðardjúpi. Það var ekki eins og verið væri að umdeilt laxeldi heldur var leyfið fyrir eldi á regnbogasilungi og þorski. Skipulagsstofnun telur að neikvæð áhrif vegna eldisins á laxastofna verði óveruleg, tímabundin og afturkræf. Þrátt fyrir það ringdi inn kærum vegna leyfisins.
Vestfirðingar settir til hliðar
Efnisatriðin voru heldur rýr í roðinu. Úrskurðarnefndin felldi málið á því að Umhverfisstofnun hefði ekki formlega tekið afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, en dró þó ekki í efa að Umhverfisstofnun hefði afgreitt erindið á grundvelli þess. Þessi orðhengilsháttur opinberra stofnana er orðinn kerfislægt vandamál. Minna má á áratugslanga þvermóðsku Skipulagsstofnunar varðandi vegagerð um Teigsskóg. Þriðja málið sem ber nú hátt er fyrirhuguð virkjun Hvalár í Ófeigsfirði. Þau áform eru mikið framfaraskref fyrir byggð um alla Vestfirði og hafa verið ljós árum saman. Þau runnu fyrirhafnarlaust í gegnum Rammaáætlun og eru þar á nýtingaráætlun. Skyndilega nú þegar hreyfing er komin á virkjunaráformin rísa upp ýmsir hópar gegn virkjun. Það sem verst er að í gegn skín andstaða embættismanna og einstakra hagsmunaaðila við framfaramál á Vestfjörðum. Skipulagsstofnun og Landvernd eru dæmi um firringu fjarlægra aðila sem blygðunarlaust finnst eðlilegt að neita íbúum um bættar samgöngur, atvinnu og raforkuöryggi. Það er orðin slíkt rof í íslensku samfélagi að engin dæmi eru um slíkt.
Olnbogabörn
Þróunin síðustu þrjá áratugi hefur verið Vestfirðingum erfið. Að mörgu leyti á það líka við um aðra hluta landsbyggðarinnar. Íbúum fjórðungsins hefur fækkað um 32% en á höfuðborgarsvæðinu er fjölgunin 54% eða um 78 þúsund manns. Nú gera sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ráð fyrir því að öll fólksfjölgun, 70.000 manns, fram til 2040 og rúmlega það, verði þar. Frá 1994 hefur íbúðum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 27.000 eða 47% en fækkað um 4% á Vestfjörðum. Verðmæti eigna á Vestfjörðum hefur frá 1994 fallið um helming miðað við verðmæti á höfuðborgarsvæðinu. Meðalverð á m² íbúðarhúsnæðis á Vestfjörðum var þá 57% en er nú aðeins 28% af verðinu á höfuðborgarsvæðinu miðað við fjölbýli. Það vantar 57 milljarða króna upp á að verð á fasteignum á Vestfjörðum hafi fylgt verði á höfuðborgarsvæðinu. Það gerir um 12 milljónir króna að meðaltali á hverja íbúð. Verðmæti íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið að raungildi um nærri 100% frá 2010. Það lætur nærri að vera um 600 milljarðar króna sem skiptist á milli íbúðareigenda og er skattlaus ávinningur sem skýrist af almennum hagvexti landsmanna. Af honum fá Vestfirðingar ekkert. Frá aldamótum hefur hagvöxtur á Vestfjörðum verið nánast enginn en er 50% á höfuðborgarsvæðinu. Með hverju árinu vex þjóðarauðurinn um hundruð milljarða króna. En þessum gæðum er ójafnt dreift milli íbúanna. Vestfirðingar og fleiri landsmenn eiga rétt á sínum hluta en fá ekki. Þeir eru olnbogabörn þjóðfélagsins.
200 milljarða króna skuld
Leikreglurnar um auðlindanýtinguna svipta sjávarbyggðirnar öllum rétti. Fiskimiðin eru gjöful og verða það um ókomna tíð. Samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknarstofnunar má ætla að veiðin á miðunum frá Snæfellsnesi að Horni sé um 60.000 tonn af þorski ár hvert og 15-20.000 tonn af ýsu auk annarrar veiði. Árleg verðmæti veiðiréttarins eru miðað við verð á leigukvóta á þessu ári 15- 20 milljarðar króna. Ekkert af þessum peningum rennur til uppbyggingar og bættra lífskjara í fjórðungnum. Samtals má áætla að verðmætin séu um 350-400 milljarðar króna síðan framsalið var leyft. Ef við gerum ráð fyrir að aðeins helmingur verðmætanna renni heim í hérað en hinn helmingurinn í ríkissjóð hafa Vestfirðingar orðið af 175 – 200 milljörðum króna. Að auki er svo 57 milljarða króna skuld vegna verðfalls húsnæðis. Samtals er skuldin við Vestfirði ekki minni en 200 milljarðar króna.
Valdið heim
Vestfirðingar eru í þeirri stöðu að vera arðrændir. Það er gert í krafti miðstjórnarvaldsins. Engar horfur eru á því að það breytist. Við hefur bæst ofbeldi frá einstökum stofnunum og samtökum. Þess vegna verða Vestfirðingar að grípa til aðgerða og taka málin í sínar hendur og breyta leikreglunum. Það þarf ný ákvæði í stjórnarskrána sem tryggir lífskjör og framfarir til jafns við aðra landsmenn. Þar vegur þungt forræði og réttindi yfir auðlindum og nýtingu þeirra og sanngjarna dreifingu arðsins um þjóðfélagið. Núverandi lýðveldi er gengið sér til húðar. Sambandslýðveldið Ísland er næsta skref.
Kristinn H. Gunnarsson
leiðari í blaðinu Vestfirðir
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir