Árum saman hefur ekki tekist að ná kjarasamningum milli sjómanna og útvegsmanna. Síðasti samningur var gerður í janúar 2009 og rann út tveimur árum síðar. Síðan hefur ekki verið gerður kjarasamningur. Þetta ástand er einsdæmi og þekkist ekki í neinni annarri atvinnugrein. Það sem næst þessu kemst er kjaradeilda útvegsmanna við smábátasjómenn. Þar voru ekki kjarasamningar í gildi í 3 – 4 ár. Samningar náðust um síðir á forsendum útgerðarinnar. Sjómenn hafa mátt þola verulegar kjararskerðingar þrátt fyrir hlutaskiptakerfið sem á að tryggja að aflahlutir fylgi afurðaverði.
Í smábátakerfinu voru veruleg brögð að því að kostnaður við leigu á kvóta var dreginn frá aflaverðmæti og sjómenn látir greiða kostnaðinn í blóra við skýr lagaákvæði sem bönnuðu slíkt athæfi. Einn formaður í sjómannafélagi líkti ástandinu á þessum tíma við villta vestrið til þess að undirstrika að útgerðarmenn fóru sínu fram hvað sem leið ákvæðum laga.
Staða sjómanna á skipum og bátum öðrum en smábátum hefur líka verið mörkuð af þeirri staðreynd að útgerðarmenn hafa tögl og haldir í samskiptunum við launamenn. Kvótakerfið færir útgerðinni nánast óskilyrt forræði yfir veiðiheimildunum. Atvinnurekendur komast upp með að bera engar skyldur við áhöfnina. Það er hægt að leigja kvótann af bátnum. Það er hægt að leigja bátinn undan áhöfninni með kvótanum, það er hægt að ákvarða fiskverðið einhliða og skammta þannig áhöfninni hlut úr hnefa. Það er hægt að flytja allan kvótann af bátnum um lengri eða skemmri tíma án þess að sjómenn fái rönd við reist.
Samþjöppunin í sjávarútvegi þýðir að tiltölulega fáir útvegsmenn geta sammælst um að koma í veg fyrir að sjómaður fái vinnu og um það eru fyrirliggjandi staðfestar upplýsingar að sjómönnum hefur ítrekað verið hótað brottrekstri fyrir gagnrýni eða að upplýsa um ákvarðanir sem útgerðarmaður vildi að leynt færi. Það liggur líka fyrir að komið hefur til þess að hótanir af þessu tagi hafa verið framkvæmdar.
Kvótinn er vald
Forræði útgerðarmanna yfir kvótanum og sú staðreynd að þeir hafa einkarétt ótímabundið og óskilyrt og eru sérstaklega verndaðir gegn samkeppni um verðmikil réttindi gerir það að verkum að kvótahafarnir hafa yfirburðastöðu í samskiptum sínum við sjómenn. Þar ríkir gamla 19. aldar skipulagið með húsbændur og hjú. Þar að auki er auðsöfnunin svo gífurleg í sjávarútveginum að útgerðarmenn eru mjög valdamiklir í þjóðfélaginu. Áhrif þeirra fara vaxandi með fjárfestingum í öðrum atvinnugreinum. Um langt árabil hafa útgerðarmenn og samtök þeirra, eins og LÍÚ, verið ráðandi aðilar í samskiptum við stjórnmálaflokkana og svo gott sem haft lyklavöldin að sjávarútvegsráðuneytinu. Kvóta fylgir vald. Vald er grundvallarhugtak í þjóðfélaginu. Kvótanum fylgir auður. Auðinum fylgir enn meira vald.
Skýrasta dæmið um það hvernig kvótavaldið hefur mulið undir útgerðarvaldið er að útgerðin ræður öllum þáttum atvinnugreinarinnar. Fiskseljandi og fiskkaupandi er sami aðilinn og oft einnig líka útflytjandinn. Sami aðilinn situr allt í kringum borðið og hagræðir hlutunum á þann veg sem færir honum mestan gróða, sem verður alltaf á kostnað sjómanna. Þetta er einokunarfyrirkomulag.
Nokkrar tölur um þróunina frá 2008 til 2015 segja alla söguna. Þessi ár eru mestu gróðaár í sjávarútvegi, líklega nokkurn tíma. Framlegðin er talin úr hundruðum milljarða króna. Eigið fé fyrirtækjanna hefur vaxið um 300 milljarða króna og á þá eftir að bæta við útgreiddum arði.
En bein viðskipti útgerðar við fiskvinnslu uxu á tímabilinu úr 57% í 71%. Verðið í þeim viðskiptum hækkað aðeins um 20,5%. Til samanburðar þá hækkað vísitala neysluverðs um 39,1% þannig að fiskverð til sjómanna hækkaði mun minna. Verðvísitala sjávarafurða hækkaði um 50,5% á þessum árum eða rúmlega tvöfalt meira en fiskverðið í beinum viðskiptum til sjómanna. Sjómenn fengu ekki réttmætan hlut úr almennu góðu árferði í sjávarútveginum. Útgerðarmennirnir minna orðið á faktorinn á dögum Skúla fógeta sem réðu því sem þeir vildu og sögðu undirmönnum sínum að "mæla rétt."
Kvótalöggjöfin er meginorsökin fyrir þessari þjóðfélagslegu röskun sem birtist þjóðinni í því að kjaraasamningar nást ekki milli útgerðar og sjómanna. Útgerðin þarf ekki að semja, hún fer sínu fram og ræður því sem hún vill. Meðan aðstæður eru á þann veg verður ekki samið. Lausnin er sú að breyta lögum um úthlutun veiðiheimilda. Afnema þarf einokun fáeinna útgerðamanna á verðmætustu réttindunum í eigu þjóðarinnar og gera þeim að starfa við samkeppnisskilyrði sem eiga við í öðrum atvinnugreinum. Það þarf lög á útgerðarmenn.
Kristinn H. Gunnarsson
leiðari í blaðinu Vestfirðir
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir