Vatnsmýrin – ríkið borgar en borgin græðir

Pistlar
Share

Það hefur aldrei verið mjög skýrt hvað borgarfulltrúar í Reykjavík ætla sér með þeim áformum að hrekja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Þeim hefur líka algerlega mistekist að útskýra mál sitt og hafa gjörtapað umræðunni um völlinn undanfarnar vikur. Þrjár skoðanakannanir nú í september sýna yfirgnæfandi stuðninginn við völlinn þar sem hann er. Á landsvísu mælist stuðningurinn ríflega 80% og um 72% í Reykjavík. Þeir sem eru sammála því að völlurinn fari úr Vatnsmýrinni eru aðeins 14-17% á landsvísu. Í Reykjavík njóta áform borgarstjórnar stuðnings fjórðungs kjósenda en þrisvar sinnum fleiri eru andvígir.

Könnun Capacent -Gallup greinir afstöðuna betur eftir búsetu og þá kemur í ljós að alls staðar er stuðningurinn við flugvöllinn í Vatnsmýrinni mun meiri en andstaðan, líka í öllum hverfum borgarinnar. Helst er amast við flugvellinum í 101 Reykjavík og nálægum hverfum og á Suðurnesjum. Þetta er auðvelt að útskýra. Suðurnesjamenn margir hverjir telja greinilega að flugvöllurinn myndi færast til Keflavíkur og sjá ávinning af því sem myndi styrkja byggðina.
Í íbúahverfunum nálægt Reykjavíkurflugvelli greinist vilji til þess að losna við óþægindi af flugumferðinni. Íbúarnir myndu hins vegar búa að öðru leyti við margvísleg forréttindi ásamt væntanlegum íbúum í Vatnsmýrinni umfram aðra landsmenn. Eini raunhæfi spítalinn væri innan seilingar ásamt greiðum aðgangi að annarri sérfræðiþjónustu á því sviði, svo og öll ráðuneyti landsins og langflestar stofnanir ríkisins og helstu háskólarnir yrðu í göngufæri frá Vatnsmýrinni. Þarna yrði búið til alveg einstakt velferðarsamfélag útvalinna múrað inni í borgríkinu.

Það ber að undirstrika og það er fagnaðarefni að skv. könnun Capacent Gallup er meirihluti íbúanna andvígur þessari framtíðarsýn og sérstaklega er mikil andstaða við hana í úthverfum borgarinnar og nágrannabyggðum hennarþar sem um 80% íbúanna styðja flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Í heildina eru um 3/4 íbúa höfuðborgarsvæðinu að staðfesta að þeir líta á sig sem hlut af þjóðinni með réttindi og skyldur. Notið er ríkulega þeirra réttinda sem fylgja höfuðborginni og þeirrar sameiginlegu ákvörðun þjóðarinnar að byggja þar upp af hagkvæmisástæðum ýmsa mikilvæga starfsemi fyrir landið allt. Því fylgja þær skyldur við aðra íbúa landsins, að tryggja þeim góðan aðgang að þjónustunni.

Þegar litið er til fjárhagslegra áhrifa af því að sópa flugvellinum á haf út og byggja 15-20 þúsund manna byggð í Vatnsmýrinni ásamt atvinnustarfsemi skýrist myndin. Í stuttu máli þá mun borgin hirða tekjurnar og senda reikninginn fyrir kostnaðinum til ríkisins.

Kostnaður við nýjan flugvöll á Lönguskerjum er talinn verða um 37 milljarðar króna á núverandi verðlagi. Ekki er raunhæft að byggja flugvöll á Hólmsheiði, sökum veðurfarsskilyrða, en hann myndi kosta um 24 milljarða króna. Þá þarf ný umferðarmannvirki til þess að þjóna byggðinni í Vatnsmýrinni. Óvarlegt er að áætla þann kostnað lægri en 20 milljarða króna. Allur þessi kostnaður mun falla ríkið, samtals 55-60 milljarðar króna.

Reykjavíkurborg mun hins vegar fá ávinninginn. Þjóðskrá Íslands hefur nýlega birt útreikninga sem staðfesta að verðmæti lóða í Reykjavík er að jafnaði um 8 mkr af 160 fermetraíbúð sem hefur 800 fermetra lóð. Það er hæst í miðborginni, sem heitir Reykjavík suður, Þingholt eða um 12 mkr. Það verð er líklegt í Vatnsmýrinni. Útreikningar ParX frá apríl 2007 renna stoðum undir þá staðhæfingu að það sé varfærið mat. Fyrirtækið taldi verðmæti landsins í Vatnsmýrinni 75 milljarðar króna miðað við verðlag í janúar 2006. Það myndu vera um 140 milljarðar króna á verðlagi í dag. Miðað við 6300 íbúða byggð í Vatnsmýrinni yrðu tekjur Reykjavíkurborgar um 75 milljarðar króna af lóðunum einum saman, ef 12 mkr fengjust af hverri íbúð fyrir staðsetninguna. Ríkið á 40% landsins en það er hvergi að sjá í skipulagstillögum borgarinnar að gert sé ráð fyrir því að borgin kaupi það land af ríkinu á markaðsverði.

Frá sjónarhóli borgarinnar séð þá fást mestar tekjur af byggingarlóðunum í borgarkassann af 15-20 þúsund manna byggð ef hún er í Vatnsmýrinni. Væri þessi byggð reist annars staðar,svo sem í úthverfunum yrðu þær að meðaltali þriðjungi lægri skv. gögnum Þjóðskrár Íslands og um 55% lægri ef miðað er við mat Parx frá 2007. Verðmæti byggingarlandsins er 25- 40 milljarðar króna hærri í Vatnsmýrinni en t.d. í Úlfarfellshverfinu. Þetta skýrir þetta skrýtna mál um flugvöllinn í Vatnsmýrinni; meiri peningar í borgarkassann og skattgreiðendur um land allt eiga að borga.
Það má benda á annað sjónarhorn: Verðmætið sem liggur í eftirsóttum íbúðahverfum er fyrst og fremst tilkomið vegna starfsemi ríkisins. Þess vegna er eðlilegt að ríkið innheimti þau verðmæti og noti tekjurnar til að fjármagna almenn verkefni sín.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir