Skjaldborg sjávarútvegsráðherrans um LÍÚ

Pistlar
Share

Hinn nýi sjávaútvegsráðherra hefur á skömmum tíma undirstrikað rækilega að hlutverk hans er að slá skjaldborg um LÍÚ. Það er gert með því að auka gróða þeirra, sem vel græða. Veiðigjaldið, sem fyrri ríkisstjórn mannaði sig loksins upp í að hækka skömmu fyrir kosningar var stórlega strax að loknum kosningum lækkað verulega. Lækkunin er samtals um 10 milljarða króna á þessi fiskveiðiári og því næsta. Ennfrekari lækkun gjaldsins gæti orðið síðar með boðaðri endurskoðun laganna um veiðigjald. Almenn andstaða er við þessa lækkun sbr könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 í lok júní sl. Nærri 71% svarenda voru andvígir lækkun gjaldsins.

Sjávarútvegurinn í heild er rekinn með gífurlegum hagnaði. Afgangur frá rekstri er um 30% af tekjum eða um og yfir 80 milljarðar króna á ári undanfarin þrjú ár 2011, 2012 og 2013. Til eigandans, hins opinbera, voru greiddir 4 milljarðar í veiðigjald árið 2011 fyrir nýtingarréttinn á fiskimiðunum. Í fyrra var gjaldið 10 milljarðar króna og áætlað er nú eftir lækkun að það verði svipað á þessu ári. Lækkunin fyrir þessi tvö fiskveiðiár er svo mikil miðað við lögin sem höfðu verið sett að jafna má því við að veiðigjaldið sé algerlega fellt niður annað árið. Þessi ár nemur veiðigjaldið aðeins um 1/8 hluta rekstrarafgangs, en 7/8 hluta eða um 70 milljarða króna verður eftir í fyrirtækjunum. Það eru kostakjör. Fyrir liggur skv. opinberum gögnum að 10 stærstu fyrirtækin ráða yfir 52% alls kvóta á Íslandsmiðum.

Eftir lækkun veiðigjaldsins skrifaði heilbrigðisráðherra blaðagrein og upplýsti að það vantaði 8.5 milljarða króna í heilbrigðiskerfið. Skjaldborgin er þétt um LÍÚ og 10 stærstu sjávarútvegsfyrirtækin.

Í sumar ákvað sjávarútvegsráðherrann að taka fyrir almennan aðgang skipa að rækjumiðunum og hann vill færa völdum fyrirtækjum að nýju einkaréttinn til rækjuveiða. Það er mikil þjónkun sjávarútvegsráðherra við LÍÚ hópinn að gefa nokkrum fyrirtækjum aftur rækjukvótann, þrátt fyrir að þau hafi ekki sinnt veiðum undanfarin mörg ár. Skjaldborgin um LÍÚ setur framtíð eins stærsta fyrirtækis á Vestfjörðum með um 100 starfmenn í uppnám og hefur þegar skaðað rekstur þess umtalsvert.

Fyrir tveimur vikum hélt svo ráðherrann erindi á sjávarútvegsráðstefnu á Ísafirði. Þar var enn hoggið í sama knérunn. Ráðherrann fann að því að ívilnanir í kerfinu væri sérsniðnar að aðstæðum á Vestfjörðum og boðaði breytingar þar að lútandi og nefndi sérstaklega byggðakvótann. Ráðherran tók fram að um 40% af afla á Vestfjörðum mælt í þorskígildum væru af smábátum og sagði að gæði aflans væru ekki góð. Ráðherrann endurómaði mjög sterkt gagnrýni LÍÚ á veiðar smábáta og þær breytingar sem gerðar voru á kvótakerfinu a síðasta kjörtímabili.

Það er full ástæða til þess fyrir Vestfirðinga að hafa áhyggjur af áformum ráðherrans og ríkisstjórnarinnar. Skjaldborg um hagsmuni LÍÚ er andstæð almennum hagsmunum og nokkurs konar öfug skjaldborg. Var það ekki einmitt formaður Framsóknarflokksins sem sagði fyrir síðustu alþingiskosningar að öfug skjaldborg væri umsátur?

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir