Þær fréttir berast af alþingi í dag að nýkjörinn varaformaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafi gagnrýnt framkomna tillögu að auðlindaákvæði í stjórnarskrá Íslands. Taldi hann tillöguna miða að þjóðnýtingu og væri liður í því að koma á sósíalísku hagkerfi. Nú er hún Snorrabúð stekkur, kom mér fyrst í hug, þegar ég heyrði þessi tíðindi. Er svo komið að í þeim smáa stekk rúmast aðeins fáeinir tugir kvótaeigenda og nokkrir fjármálamenn.
Umrætt auðlindaákvæði kveður á um þjóðareign á náttúrurauðlindum, þar með talið fiskistofnunum við landið, þjóðareign á auðlindum á, í eða undir hafsbotni og lagt er bann við því að framselja úr hendi ríkisins réttindi til þess að virkja vatnsföll, jarðhita, námaréttindi og grunnvatn svo það helsta sé nefnt.
Þetta er væntanlega þjóðnýtingin, sem varaformaðurinn leggst gegn.
Á flokksþingi Framsóknarflokksins vorið 2001 er samþykkt „að ákvæði verði sett í stjórnarskrá Íslands um að fiskistofnarnir séu sameigninleg auðlind allrar þjóðarinnar og eign hennar. Þingið tekur jafnfram undir þá niðurstöðu auðlindanefndar að greiða beri gjald fyrir afnot af auðlindinni.“
Er þetta ekki líka þá þjóðnýting?
Í auðlindatillögunni, sem varaformaður Framsóknarflokksins segir boða sósíalisma og gangi gegn borgaralegum gildum, er lagt til að veitt verði nýtingarleyfi til afmarkaðs tíma og gegn eðlilegu gjaldi.
Ennfremur var samþykkt á flokksþinginu 2001 að markmið nýrrar löggjafar um stjórn fiskveiða ætti að tryggja „jafnræði aðila í greininni og koma þannig í veg fyrir að stétt leiguliða myndist í henni“. Fyrir voru samþykktir flokksþingsins 1998 um skattlagningu á söluhagnaði þeirra sem seldu veiðiheimildir og ekki hvað síst „að þegar leyfður heildarafli hefur náð ákveðnu marki komi til álita að halda eftir auknum aflaheimildum sem verði meðal annars notaðar til að bregðast við áföllum í sjávarútvegi og til leigu á almennum markaði“.
Er þetta eitthvað annað en „hið sósíalíska hagkerfið“ að skattleggja hagnað, að leigja veiðiheimildir á almennum markaði og tryggja jafnræði aðila í greininni?
En sagan er ekki lengur aðgengileg á vef flokksins. Þar er aðeins að finna samþykktir flokksþingsins 2013. Framsókn fyrir Sigmund og Sigurð hefur verið tekin niður og sett í geymslu.
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir