Markaðsverð kvóta og ný úthlutun

Pistlar
Share

Aftur hefur lægt eftir snarpan stormsveip í flestum fjölmiðlum landsins gegn öllum breytingum á kvótakerfinu. Í nokkra daga var látið eins og 4 hagfræðingar og einn viðskiptafræðingur væru handhafar sannleikans. En svo er ekki. Allt frá 1998 hefur um ¾ þjóðarinnar verið óánægður með kerfið samkvæmt könnunum Gallups. Fjórðungur kjósenda hefur viljað leggja niður kerfið, um 60% breyta því en aðeins um 15% hafa stutt það óbreytt.

Í síðustu alþingiskosningum veitti þjóðin tveimur stjórnmálaflokkum hreinan meirihluta á Alþingi til þess að framfylgja stefnu sinni um róttækar breytingar á kerfinu. Vandræði ríkisstjórnarinnar og innantökur við kvótafrumvörpin eru vegna þess að stjórnarflokkarnir hafa hopað frá stefnu sinni og orðið viðskila um stund við kjósendur sína. Ríkisstjórnin hefur ekki umboð til þess að framlengja óbreytt í öllum meginatriðum um 22 ár núverandi kvótaúthlutunarkerfi. Hún var kosin því til höfuðs. Stjórnarflokkarnir eiga ekki að deyja inn í hagsmunagæslu LÍÚ. Það eru aðrir flokkar sem þar liggja fyrir á fleti, sér til skaða.

Almenningur hefur gefið skýra vísbendingu um inntak breytinganna, nú síðast í könnun MMR sem birtist í maílok síðastliðinn. Það er tvennt sem stendur upp úr. Fyrra atriðið er að þeir sem fá kvóta úthlutað eiga að greiða til ríkisins markaðsverð fyrir hann. Ríflega 71% svarenda vilja það og aðeins 14% eru ósammála því. Þjóðin vill ekki að kvótahafar geti auðgast á kvótasölu. Þeir eiga að efnast á fiskveiðum. Meirihluti kjósenda allra flokka vill að ríkinu verði greitt markaðsverð fyrir kvótann. Hverfandi stuðningur er við núverandi fyrirkomulag, þar sem útgerðarmenn greiða smámuni til ríkisins fyrir leyfið og framselja það svo öðrum fyrir stórfé.

Seinni breytingin, sem almenningur vill, er að ljúka núverandi úthlutun og að kvótanum verði öllum úthlutað eftir nýjum og breyttum reglum. Nærri 65% þjóðarinnar vill það, en aðeins 21% ekki. Fyrirmælin eru alveg skýr: ríkið fái markaðsverð fyrir kvótann og úthlutun hans verði í nýju kerfi byggðu á markaðsfyrirkomulagi. Þetta er ekki flókið. Sáttin á að vera við þjóðina.

Athugasemdir