Borgarfulltrúar hegða sér einkennilega þegar kemur að Reykjavíkurflugvelli. Undanfarin ár hafa þeir ekki hikað við að ganga gegn eindregnum vilja kjósenda í Reykjavík, að ekki sé talað um á landsbyggðinni, og lagt sig í líma við þá iðju að úthýsa flugvellinum úr borginni. Þeir virðast ekki sjá eftir allri þeirri atvinnustarfsemi sem honum fylgir, en talið er að 500 – 600 manns hafi starf sitt af fluginu um völlinn.
Um 70% landsmanna vija hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni . Stuðningurinn er líka mikill hjá Reykvíkingum. Um tveir þriðju þeirra styðja völlinn. Svona hefur viðhorf landsmanna verið í megindráttum árum saman. Aðeins einu sinni minnist ég könnunar Fréttablaðsins , sem sýndi að 2/3 Reykvíkinga vildu völlinn úr Vatnsmýrinni. En sama ár, 2005, gerði Gallup tvær kannanir og þar var annað upp á tengingnum 50 – 55% studdu flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Í janúar 2008 vildu 60% Reykvíkinga Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni.
Borgarfulltrúarnir hafa ekki endurspeglað afstöðu borgarbúa. Eftir síðustu borgarstjórnarkosningar reyndust 14 þeirra vilja völlinn úr Vatnsmýrinni en aðeins einn borgarfulltrúi styður hann. Þegar sá kom úr veikindaleyfi var honum gert að framvísa læknisvottorði til sönnunar um andlegt hæfi sitt til þess að starfa í borgarstjórninni.
75% kjósenda Sjálfstæðisflokksins styðja Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni. Sjálfstæðisflokkurinn er í meirihluta í borginni og hefur þar tögl og haldir. En samt dregur flokkurinn lappirnar fyrir nýrri samgöngumiðstöð eða flugstöð á Reykjavíkurflugvelli og hefur tafið málið árum saman. Með dyggum stuðningi annarra flokka, sem ekki hafa þurft að framvísa geðheilbrigðisvottorði.
Eðlilega er spurningin þessi: hvers vegna láta borgarfulltrúar svona? Eina skynsamlega svarið, sem er í boði er: peningar. Peningar í kosningasjóði borgarfulltrúanna og flokka þeirra, peningar í borgarsjóð af lóðarsölu og fasteignagjöldum og peningar til fyrirtækja sem munu byggja og selja húsnæði í Vatnsmýrinni með miklum gróða. Það er gömul saga og ný, að peningar eru öruggasta ráðið til þess að fá sitt fram. Peninga þarf til þess að ná árangri í valdabaráttu innan flokksins. Þeir sem láta peninga af hendi vilja fá eitthvað fyrir sinn snúð. Þetta eitthvað er auðvitað tækifæri til þess að græða peninga. Tækifærið var Vatnsmýrin. Borgarfulltrúarnir geta skapað það tækifæri.
Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar keyrði úr öllu hófi fjárausturinn til stjórnmálamannanna í Reykjavík, bæði í prófkjörum og kosningunum. Oddviti Framsóknarflokksins safnaði tugum milljóna króna í kosningasjóð , fyrst í sinn eigin og svo flokksins. Bæði í Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum söfnuðu forystumenn háum fjárhæðum til þess að standa straum af eigin prófkjörbaráttu.
Enginn þessara forystumanna hefur gert grein fyrir fjárreiðum sínum með fullnægjandi hætti. Flokkarnir hafa líka sameinast um það á Alþingi að sópa ósómanum undir teppið með málamyndalöggjöf. Og ganga þar á móti eigin kjósendum, sem vilja allt upp á borðið.
Vatnsmýrin var tækifæri vegna þess að landið var talið mjög eftirsótt og í háu verði. Nú hefur það mat breyst. Að auki er ríkið ekki tilbúið til þess að borga reikninginn fyrir öll samgöngumannvirkin sem þarf að gera fyrir byggðina í Vatnsmýrinni. Svo er komið mikið atvinnuleysi í Reykjavík. Það er lítið boðið fram af peningum í næsta prófkjör.
Ætli þeir fari ekki að snúa sér borgarfulltrúarnir í Reykjavík, án heilbrigðisvottorðs, og verða orðnir eindregnir stuðningsmenn flugvallarins upp úr næstu áramótum.
Athugasemdir