Í fréttum vikunnar var greint frá skýrslu ÖSE um Alþingiskosningarnar í apríl. Eftirlitsnefndin minnti á að misvægi atkvæða milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar væri um 50%. Það væri meira en Evrópuráðið miðar við í samþykktum sínum. Þar er mælst til þess að misvægið milli einstakra kjördæma sé innan 10% og aldrei meiri en 15%. Til þess að ráða bót á misvæginu þarf að flytja allt að 7 þingsæti frá landsbyggðinni til höfuðborgarkjördæmanna.
Um málið má ýmislegt fleira segja en fram hefur komið. Fyrst er að geta þess að engin regla er án undantekninga. Það á við um Evrópuráðið. Aukið misvægi er heimilt ef það er nauðsynlegt til þess að gæta að hagsmunum minnihlutahópa eða afmarkaðs landssvæðis sem er fámennt og íbúarnir búa dreift. Dæmi sem fellur undir fyrrnefndu undanþáguna eru Danir í Slésvík – Holtsetalandi innan Þýskalands. Frátekið er þingsæti fyrir þá. Dæmi um síðarnefndu undanþáguna eru dreifbýl svæði í Skotlandi. Kjördæmi þar, eins og Orkneyjar – Hjaltland og Na h-Eileanan an Iar eru miklu fámennari en almenn gerist á Bretlandi. Meðaltalsíbúafjöldi í kjördæmi í kosningunum 2005 var 68.390 en á Orkneyjum – Hjaltlandi voru aðeins 33.000 á kjörskrá og enn færri í sinu síðarnefnda, 21.600 íbúar. Misvægi atkvæða í bresku þingkosninunum var mest 1: 3,6 eða um 260%. Í mörgum tilvikum var að auki misvægið 30 – 40%.
Að þessu leyti er staðan á Bretlandseyjum svipuð og hún var á Íslandi fyrir kjördæmabreytinguna 1999. En þá var mesta misvægið 1:4 milli Reykjaneskjördæmis og Vestfjarðakjördæmis. Það er athyglisvert og kom ekki fram í fréttum íslenskra fjölmiðla að eftirlisnefnd ÖSE gerir enga athugasemd við þetta mikla misvægi á Bretlandi enda fellur það undir undanþáguákvæðið. Hins vegar mælist nefndin til þess bæði á íslandi og Bretlandi að minnka annað misvægi. Það er hins vegar ofmælt í frétt Mörgunblaðsins að nefndin hafi átalið umrætt misvægi atkvæða. Hið rétta er að beint er þeim tilmælum það verði tekið til athugunar.
Ég get ekki stillt mig um að benda á að óþarfi var að leggja niður Vestfjarðakjördæmi á sínum tíma. Það féll undir þá undanþágu að vera strjálbýlt afmarkað landssvæði og atkvæðamisvægið braut ekki í bága við almennu regluna. Óvíst er að önnur landsvæði hér á landi geti verið sjálfstæð kjördæmi með sömu rökum , en þó ekki alveg útilokað. En fyrir liggur að unnt er að endurreisa Vestfjarðakjördæmi og hafa þar misvægi atkvæða svipað og var.
Annað sem þarf að hafa í huga við mat á reglum Evrópuráðsins er að það gerir enga athugasemd við mikið misvægi atkvæða af öðru tagi milli kjördæma og flokka . Í Bretlandi er það látið óátalið að öll atkvæði í kjördæmi sem greitt eru frambjóðanda sem ekki nær kjöri falla niður dauð og án nokkurra áhrifa. Þannig getur frambjóðandi verið kjörinn með 35% atkvæða og öll hin 65% atkvæðin skila engu.
Þá eru engin jöfnunarsæti í Bretlandi sem leiðir það af sér að misvægi milli flokka getur verið gríðarlegt. Í síðustu þingkosningum sem fram fóru 2005 fékk Verkamannaflokkurinn 35.3% atkvæða en 56.9% þingsæta. Frjálslyndir demókratar fengu 22.1% atkvæða en aðeins 9.9% þingsæta. Atkvæðamisvægið er 1. 3,6. Við það er gerir eftirlitsnefnd ÖSE enga athugasemd.
Hér á landi er nánast fullkomið vægið milli flokka. Það þýðir að kjósandi á Íslandi getur verið viss um að flokkurinn sem hann kýs nýtur góða af atkvæðinu og að fær þingmannafjölda í samræmi við atkvæðafjölda á landsvísu. Þetta er ekki reyndin á Bretlandi. Að samanlögðu tel ég minna misvægi atkvæða á Íslandi en er á Bretlandi og í fleiri öðrum ríkjum sem styðjast við einmenningskjördæmafyrirkomulag án jöfnunarsæta.
Loks vil ég nefna að áhrif höfuðborgarsvæðisins er mun meira á löggjafarþinginu en víðast hvar erlendis þrátt fyrir misvægi atkvæða. Það er vegna þess að Alþingi starfar aðeins í einni málstofu og að allt löggjafarvald er þar samankomið. Víða er hluti þess valds í héraðs- eða fylkisþingum og vald þjóðþingsins takmarkað af því. Að auki eru í flestum ríkjuu þjóðþingið í tveimur málstofum og kosningarreglur til efri deildarinnar með öðrum hætti en til neðri deildarinnar. Sums staðar er alls ekki kosið til efri deildar heldur þingmenn tilnefndir. Annars staðar sjá héraðsþingin um kosningu til efri deildar þannig að ekki eru bein kosning frá almenningi. Og loks eru dæmi um almennar kosningar til efri deildarinnar en þá með þeim hætti að hvert hérað eða fylki fær sama fjölda þingsæta án tillitis til íbúafjölda.
Að öllu samanlögðu er niðurstaðan hér á landi að þrátt fyrir misvægi atkvæðanna eru áhrif landsbyggðarinnar lítil og örugglega minni en þau væru ef stuðst væri við nánast hvert annað kerfi erlendis sem fyrirfinnst. Þörfin fyrir breytingu er þess vegna augljós. En hún er til þess að styrkja einstök svæði á landsbyggðinni og draga úr ofurvaldi höfuðborgarsvæðsins. En það var ekki boðskapurinn í fréttum vikunnar heldur hið gagnstæða.
Athugasemdir