Váboðar Sjálfstæðisflokksins

Pistlar
Share

Í dag var haldinn borgarafundur í Bolungavík um atvinnumál. Hann var fjölmennur og fulltrúar stjórnmálaflokkanna mættu til þess að gera grein fyrir úrræðum flokka sinna í atvinnumálum Bolvíkinga. Um 60 manns hafa fengið uppsagnarbréf síðustu daga og bætast við þá sem misstu vinnuna þegar dregið var úr starfsemi Ratsjárstöðvarinnar á Bolafjalli. Það er mikið högg í ekki stærra byggðarlagi.

Því miður eru það fleiri sjávarplássin um land allt sem hafa orðið fyrir áföllum af þessu tagi sem tengjast kvótasölu og samþjöppun aflaheimilda. Á fundinum gerði ég grein fyrir þeirri skoðun minni að kerfið sjálft væri vandinn. Atvinnufrelsið hefði verið afnumið og þess vegna væri allur þróttur að hverfa úr byggðunum.

Lausin er einföld, kerfisbreyting sem innleiðir á nýjan leik atvinnufrelsi í sjávarútvegi. Auðvitað þarf aðgerðir á fleirir sviðum og í fjölbreyttara atvinnulíf, en án endurreisnar í sjávarútvegi er tómt mál að tala um að Vestfirðingar nái vopnum sínum og fyrri styrk.

En fleiri váboðar vofa yfir. Á fundinum minnti formaður Eldingar, Gunnlaugur Finnbogason, á nýlega samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins og las úr henni þetta: „Gera þarf sérstakt átak í að einfalda stjórnkerfi veiðanna og auka gegnsæi þess með því að draga úr sérstökum úthlutunum og skorðum og öðru því sem felur í sér mismunum.“

Það fer ekki milli mála hvað þetta þýðir. Það á að afnema byggðakvóta og línuívilnun, en hvort tveggja fellur undir sérstaka úthlutun. Gunnlaugur spurði sjávarútvegsráðherrann sérstaklega um línuívilnunina. Benti hann á að fyrir Bolvíkinga þýddi hún um 830 milljóna króna útgjöld ef þeir ættu að afla sér veiðiheimilda í stað ívilnunarinnar.

Á síðasta fiskveiðiári hefu bátar frá Bolungavík fengið 344 tonn af þorski, 137 tonn af ýsu og 132 tonn af steinbít í línuívilnun og varanlegar veiðiheimildir að þessu marki myndu kosta um 830 milljónir króna miðað við verð í krókaaflamarkskerfinu. Ráðherrann lýsti því yfir að hann myndi ekki samþykkja skerðingu á línuívilnunni og er það fagnaðarefni að fundurinn hafi skilað þeim árangri, en eftir stendur skýr ályktun flokksins.

Þá spurði Gunnlaugur Finnbogason, formaður Eldingar um lækkun á slægingarstuðli í þorski, en ráðherrann hefur sett reglugerð sem lækkar stuðulinn úr 0,84 í 0,90. Fram kom hjá Gunnlaugi að þessi breyting hefði þau áhrif að kvóti bátanna nýttist verr og munaði um 400 tonnum miðað við landaðan afla á síðasta fisveiðiári. Það kostar um 800 milljónir króna að kaupa veiðiheimildir fyrir breytingunni, bara fyrir útgerðir í Bolungavík.

Samtals kosta þessi tvö atriði liðlega 1600 milljónir króna fyrir útgerðirnar í einu litlu plássi, ef halda á óbreytum afla. Um slægingarstuðulinn sagði sjávarútvegsráðherrann að hann hefði frestað gildistöku reglugerðar til 1. september í ár, sem lækkar stuðulinn og ég gat ekki heyrt betur en að breytingin myndi ekki taka gildi.

En þar á ráðherrann við sjálfan sig að eiga. Hann þarf að afnema reglugerðina og meðan það verður ekki gert er engin alvara í orðum hans. Það verður vandlega fylgst með efndum ráðherrans næstu daga.

Upp úr stendur hættan sem Bolungavík og öðrum sjávarplássum stafar af Sjálfstæðisflokknum, miðað við síðustu samþykkt flokksins. Ætlar flokkurinn að höggva aftur í sama knérunn og gera útgerðum að greiða stórfé til þess að halda sömu veiði eða þola frekari samdrátt ella í atvinnu og umsvifum?

Reikningurinn í einu sjávarplássi er 1600 milljonir króna og hann verður hár þegar kostnaðurinn um land allt er tekinn saman. Er ekki nóg komið?

Athugasemdir