Iðnaðarráðherra leggur til að Byggðastofnun verði lögð niður og sameinaðar verði Iðntæknistofnun og Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins undir heitinu Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að stofnunin nýja verði að grunni til þekkingarsetur sem tengjast eigi rannsóknarstarfsemi háskóla. Þá segir þar að mikilvægt sé að horfa til framtíðaruppbyggingar opinberra rannsókna í Vatnsmýrinni í nábýli við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.
Það eru mikil tíðindi að ráðherra byggðamála skuli leggja til að Byggðastofnun verði lögð niður og lánastarfseminni hætt. Það hefur alla tíð verið helsta hlutverk Byggðastofnunar að tryggja fyrirtækjum á landsbyggðinni aðgang að fjármagni og á góðum kjörum. Fjármagn er afl þess sem gera skal og ef það er ekki fyrir hendi þá næst ekki árangur. Stofnunin hefur einnig lagt fram hlutafé og veitt styrki. Því er ekki að neita að síðustu árin hefur jafnt og þétt verið dreginn krafturinn úr stofnuninni og greinilegt að pólitíski viljinn hefur legið annar staðar. Í því ljósi kemur þessi tillaga ráðherrans ekki á óvart.
Þó er rétt að minna á tillögur starfshóps frá því í nóvember síðastliðinn, þar sem tveir alþingismenn stjórnarflokkanna áttu sæti. Starfshópurinn lagði til að Byggðastofnun starfaði áfram, héldi áfram að veita áhættulán en tæki upp ábyrgðaveitingu til viðbótar og hugað yrði að samhæfingu eða samþættingu við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Tillögum starfshópsins er hent í ruslaskúffuna að öðru leyti en því að ábyrgðaleiðin verður tekin upp og stofnaður utan um það nýr sjóður, byggðasjóður með lítil efni. Engin ný fjárframlög eru boðuð samhliða þessum breytingum.
Ég tel að skynsamlegast sé að sameina Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og Byggðastofnun í eina fjárhagslega stofnun, sem styðji við atvinnulífið með fjölbreyttum hætti, lánveitingum, styrkjum og ábyrgðum. Starfsmenn þessara stofnana hafa samanlagt víðtæka þekkingu á atvinnulífinu frá nýsköpun til styrkingar þess á einstökum landssvæðum. Helsti vandi fyrirtækja er það hversu dýrt fjármagnið er, með verðtryggingunni eru vextir 10-15%, miklu hærri en sambærileg fyrirtæki erlendis. Það getur hver og einn séð hversu erfitt það er að koma fyrirtæki á legg við þetta okur og stjórnvöldum ber að tryggja aðgang að fjármagni á sambærilegum kjörum og gerist erlendis. Það er forsenda þess að ná viðlíka árangri.
Óljóst er hver staða atvinnuþróunarfélaganna verður samkvæmt frumvarpi ráðherra og hvernig þau eiga að tengjast hinni nýju stofnun. Boðuð eru þekkingarsetur á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum, en eigi þau að skila því sem til er ætlast sýnist mér að háskólar verði að vera á stöðunum. Auk þess er ósvarað hvernig sækja eigi fram utan þessara þriggja byggðakjarna.
Það verkur sérstaka athygli þegar skoðað er skipurit og greindur ákvörðunarferillinn í hinnu nýju stofnun og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins eftir breytingar, sem þar verða gerðar, hversu ráðherravaldið er orðið mikið og miðstýringin öflug. Engin stjórn verður yfir Nýsköpunarmiðstöðinni og sjóðirnir sem koma til með að tengjast henni eru meira og minna háðir samþykki ráðherra, oftast iðnaðarráðherra, en stundum öðrum, svo sem fjármálaráðherra og sjávarútvegsráðherra.
Ákvörðun um ráðstöfun fjármagns verður nær ráðherravaldinu en áður. Það er líklega meginbreytingin í öllu þessu spilverki. Ég vil leyfa mér að setja fram þá skoðun að eðlilegast hefði verið að fara í hina áttina, fjarlæga ráðherrana frá einstökum ákvörðunum en ætla þeim að móta almenna stefnu og láta þar við sitja.
Höfuðstöðvar hinnar nýju stofnunar verða þar sem ráðherra ákveður hverju sinni, samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Boðað er að þær verði á Sauðárkróki og er það ágætt svo langt sem það nær. Nýr ráðherra getur tekið aðra ákvörðun þannig að fátt verður öruggt til framtíðar litið ef frumvarpinu verður ekki breytt. Þá verður ekki framhjá því litið að langflestir starfsmennirnir verða búsettir í Reykjavík, þar mun meginþungi starfseminnar fara fram.
Mér finnst ólíklegt að höfuðstöðvar stofnunarinnar geti verið til lengri tíma annars staðar en þar sem meginþungi starfseminnar er. Búast má við að yfirmennirnir verði meira og minna fyrir sunnan við störf og menn muna kannski enn að fyrsti forstjóri Byggðastofnunarinnar, sem var ráðinn eftir að stofnunin var flutt norður, flutti aldrei norður. Var þó starfsemi Byggðastofnunar að mestu þar.
Síðastliðinn mánudag voru frumvörpin tvö lögð fram í þingflokknum, en Iðnaðarráðherrann hafði ekki tök á því að fylgja þeim úr hlaði þar sem hann hafði af einhverjum ástæðum boðað til blaðamannafundar á sama tíma og þingflokksfundurinn stóð yfir, gagngert til þess að kynna breytingarnar. Ráðherrann lét opinbera kynningu á málinu ganga fyrir því að kynna það fyrir þingmönnum og hlusta á sjónarmið þeirra. Athugasemdir og ábendingar sem settar eru fram við þessar aðstæður eru til lítils. Þetta gæti kannski gengið ef ráðherrann legði málin fyrir Alþingi í eigin nafni, en meginreglan er að frumvörpin eru lögð fram í nafni þingflokksins og með þeirra stuðningi. Þessir starfshættir eru óviðunandi.
Athugasemdir