Margir þekkja þjóðsöguna um gömlu konuna sem var að gefa upp andann og yfir henni sat klerkur. Hallaði hann sér að konunni og þóttist heyra það sem aðrir heyrðu ekki, að hún gæfi kirkjunni hverja jörðina á fætur annarri. þegar menn töldu allt um garð gengið lagði klerkurinn eyra alveg að gömlu konunni og rétti sig svo og sagði: enn gefur hún.
Frumvarp til laga, sem ríkisstjórnin flytur fyrir Alþingi, kveður á um að heimilt verði að gefa Landsvirkjun vatnsréttindi vegna virkjunar í Þjórsá við Búrfell. Eftir að hafa lesið frumvarpið ásamt tiltækum gögnum datt mér þessi saga í hug. Enn er verið að gefa eignir þjóðarinnar.
Eigendur Landsvirkjunar eru ríkið að hálfu og Reykjavíkurborg og Akureyrarkaupstaður samanlagt að hálfu. Því er haldið fram að ætlunin hafi verið þegar fyrirtækið var stofnað 1965 að ríkið legði þessi vatnsréttindi fram sem eign og að þau hefðu verið metin sem framlag ríkisins. Hlutur ríkisins myndi minnka ef vatnsréttindin væru ekki eign Landsvirkjunar og því væri frumvarpið flutt til þess að tryggja óbreytta eignastöðu ríkisins í Landsvirkjun.
En ekki er allt sem sýnist. Óbyggðanefnd komst að þeirri niðurstöðu árið 2002 að vatnsréttindin væru þjóðlenda, sem ríkið færi með, en ekki eign Landsvirkjunar. Í úrskurði Óbyggðanefndar segir að nefndin hafi gert ítarlega rannsókn á viðkomandi lagaheimildum og í því sambandi kannað tiltæk lögskýringargögn, lagafrumvörp, greinargerðir og athugasemdir með þeim, ásamt því að fara yfir allar umræður um viðkomandi lagafrumvörp. Síðan segir:
„Í tilvitnuðum lögum og lögskýringargögnum er hvergi að finna áform í þá veru að stofna til hefðbundinna eignarréttarheimilda Landsvirkjun til handa að lands- og/eða vatnsréttindum." Heldur sé um að ræða nokkurs konar og að öðru leyti óskilgreindan nýtingarrétt. Telur Óbyggðanefnd að lögbundnar heimildir til Landsvirkjunar til þess að reisa og reka raforkuver verði ekki skýrðar svo að það hafi verið ætlað löggjafans að stofna til hefðbundinna einkaeignarréttarlegra heimilda.
Forsætisráðuneytið óskaði eftir áliti Ríkislögmanns á úrskurði Óbyggðanefndar og kemst hann að þeirri niðurstöðu að ósannað sé að ríkið hafi ætlað að færa vatnsréttindin til Landsvirkjunar sem eign og að ríkið hafi eingöngu lagt fyrirtækinu til hagnýtingarrétt en ekki eignarrétt.. Hann er sem sé sammála Óbyggðanefnd. Þá er það niðurstaða Ríkislögmanns að úrskurður Óbyggðanefndar hafi hvorki breytt eignarhlutföllum né réttarstöðu eigenda Landsvirkjunar.
Þá er spurt: hvers vegna halda eigendur Landsvirkjunar öðru fram? Við þeirri spurningu hefur ekki fengist neitt svar. Þá er líka spurt: hvað eru þessi réttindi verðmæt? Það var ekki hægt að upplýsa það á Alþingi í gær, þrátt fyrir að málið hafi fengið athugun allsherjarnefndar. Það virðist enginn vita hversu verðmæt þessi réttindi eru.
Á það er bent að með því að gefa Landsvirkjun þessi réttindi er verið að gefa sveitarfélögunum helminginn af þessum réttindum. Og loks skal á það bent að áform eru uppi um einkavæðingu Landsvirkjunar, Þá verða umrætt réttindi seld með fyrirtækinu. Verðhækkun þeirra síðar mun falla í skaut nýrra eigenda en ekki þjóðarinnar. Hins vegar er það meginstefna ríkisins að auðlindir sem þessar séu eign þjóðarinnar og að þeir sem nýta þær greiði afnotagjald eða auðlindagjald.
Strax 1982 gerði ríkisstjórnin samning við Landsvirkjun um að reisa og reka sem sína eign Blönduvirkjun, Fljótsdalsvirkjun og Villinganesvirkjun. Ákveðið var að gera samning milli ríkisins og Landsvirkjunar áður en framkvæmdir hæfust um greiðslu Landsvirkjunar til ríkissjóðs vegna vatnsréttindanna, þannig að þá þegar lá fyrir þessu stefna ríkisins um að réttindin yrðu í eign þjóðarinnar og að greitt yrði endurgjald fyrir þau. Hvers vegna er með þessu frumvarpið vikið frá stefnunni um nýtingarrétt og eign þjóðarinnar gefin?
Athugasemdir