Á síðastliðnu þingi var lagt fram frumvarp um lækkun fasteignaskatta. Þar sem ég hafði komið að því að semja frumvarpið kom
það í minn hlut að mæla fyrir því. Þá var það kynnt á ráðstefnu sveitarstjórnarmanna sem haldin var á vegum Alþýðubandalagsins
og samþykkt að taka málið til frekari skoðunar á þeim vettvangi. Ég vil í stuttu máli leitast við að kynna megináherslur
frumvarpsins.
21 þús. kr. á ári
Lagt er til að fella alveg niður fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði. Það lækkar skatta á einstaklinga um 2.800 milljónir kr. árlega. Til
mótvægis er lagt til að hækka eignarskattinn um 0,5% sem gefur um 700 m. kr. í tekjur. Samtals má ætla að nettóáhrifin verði um
21 þús. kr. lækkun skatta á ári hjá hverjum gjaldanda, meiri en 21 þús. kr. hjá þeim gjaldendum sem ekki þurfa að greiða
eignarskatt og minni hjá hinum efnameiri.
Ég tel að dreifingin á skattalækkuninni verði þannig að mestur hluti hennar renni til fólks með lágar tekjur og meðaltekjur. Til þess
að auka ráðstöfunartekjur sínar um 21 þús. kr. á ári þarf að afla tekna upp á 35-40 þús. kr. og ég er ekki viss um að nýgerðir
kjarasamningar skili sömu tekjuhópum jafnmikilli kjarabót og þessi skattalækkun.
Réttlátari skattlagning
Fasteignaskattur er í eðli sínu óréttlátur skattur, hann er lagður á eignina án tillits til skulda og í flestum sveitarfélögum landsins er
lagt á annan og hærri gjaldstofn en fasteignamatið sem á að endurspegla raunverulegt verðmæti eignarinnar. Það er óeðlilegt að
leggja eignarskatt á skuldir og það er líka óeðlilegt að leggja skatt á verðmætamat sem eignin stendur engan veginn undir.
Með því að fella niður fasteignaskattinn verður skattlagning á fasteign aðlöguð skattlagningu á aðrar eignir, skattlögð er nettóeign,
þ.e. eignir umfram skuldir, sem hlýtur að vera markmið skattlagningar á eignir.
Samræmd skattheimta
Lagt er til að fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði færist til ríkisins og verði felldur saman við eignarskattinn og þannig verði
samræmd skattheimta á húsnæðiseign, skattstofn verði sá sami svo og skattprósenta. Til þess að fjármagna breytinguna er
hækkaður eignarskattur eins og fyrr segir og lagt er til að tekjum af fjármagnstekjuskatti verði varið til þess en áætlað er að þær
nemi um 1.100 milljónum kr. árlega.
Með því er sköttum á tekjur af fjármagni (t.d. verðbréfum, hlutabréfum), svonefndum eignatekjum, varið til að lækka skatta á
íbúðarhúsnæði. Loks er gert ráð fyrir því að ríkissjóður fjármagni hluta af kostnaðinum með tekjuaukningu ríkissjóðs af hagvexti
sem nemur milljörðum króna árlega.
Hlutdeild í hagvexti
Árlega vaxa tekjur ríkissjóðs af óbeinum sköttum. Í hagvexti skila skattarnir fleiri krónum þótt skattprósentan sé óbreytt, þetta á
reyndar við um tekjuskatt að nokkru leyti. Á þessu ári má áætla að tekjur ríkisins aukist um a.m.k. 4 milljarða króna vegna
hagvaxtarins eða uppsveiflunnar í efnahagslífinu umfram það sem áætlað var. Skipting skatta milli ríkis og sveitarfélaga er þannig
að ríkissjóður fær megnið af þessum ávinningi.
Því er lagt til í frumvarpinu að í stað fasteignaskatta fái sveitarfélög í sinn hlut 12% af virðisaukaskatti. Telja verður það eðlilegt þar
sem sveitarfélög sinna fjárfrekum verkefnum svo sem félagslegri þjónustu og grunnskóla sem stöðugur vöxtur er í.
Athugasemdir