Hæstiréttur og veiðileyfin

Greinar
Share

FYRIR skömmu setti Alþingi nýja 5. grein í lögin um stjórn fiskveiða í framhaldi af dómi Hæstaréttar sem felldur var í byrjun desember sl., en þessi
grein kveður á um skilyrði fyrir því að fá leyfi til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilögsögu Íslands. Umræður á Alþingi snerust einkum um það hvort dómur
Hæstaréttar snerti aðeins 5. greinina eða einnig 7. grein laganna, en þar er mælt fyrir um aflahlutdeildarkerfið, sem í daglegu tali er nefnt kvótakerfið. Í
meginatriðum má segja að stjórnarandstaðan hafi haldið því fram að dómurinn felldi 7. grein laganna úr gildi og því væri öll fiskveiðistjórnunin skv.
kvótakerfinu í uppnámi. Hins vegar varð það niðurstaða meirihluta sjávarútvegsnefndar og Alþingis að dómurinn varðaði aðeins 5. grein laganna.

Einungis veiðileyfin

Í dómnum sjálfum segir: "Hins vegar er ekki í þessu dómsmáli tekin afstaða til þess, hvort ráðuneytinu hafi að svo búnu borið að verða við umsókn
áfrýjanda, en málið er einungis höfðað til ógildingar á ákvörðun ráðuneytisins en ekki til viðurkenningar á rétti áfrýjanda til að fá tilteknar veiðiheimildir í
sinn hlut." Með öðrum orðum þótt dómurinn ógildi synjun um veiðileyfi, á þeim forsendum sem tilteknar voru, tekur hann sérstaklega fram að í því felist
ekki viðurkenning á veiðiheimildum til handa áfrýjanda. Þar með afmarkar Hæstiréttur sig við 5. greinina einvörðungu. Í málatilbúnaði sínum vísaði
áfrýjandi hvergi til 7. greinar laganna og beinlínis afmarkaði kröfu sínu við veiðileyfi samkvæmt 5. grein laganna. Í dóm Hæstaréttar var því ekki vísað
ágreiningsefni sem varðaði 7. greinina. Um dómstóla gildir almennt að þeir úrskurða um ágreiningsefni sem fyrir þá eru lögð, annað ekki. Dómstóllinn
hafði ekki 7. greinina til úrskurðar og gat því í umræddu dómsmáli ekki fellt neinn dóm um hana. Dómstóllinn verður beinlínis að tilgreina 7. greinina í
dómi sínum ef ógilda á þá grein. Grundvallargrein í lögum um stjórn fiskveiða verður ekki felld úr gildi með óbeinum hætti í dómsmáli um annað efni.
Svo einfalt er það. Þá var það samdóma álit sérfræðinga sem sjávarútvegsnefnd kallaði á sinn fund að dómurinn tæki aðeins til 5. greinarinnar og það
álit hlýtur að vega þungt. Ekki kom neitt fram sem hnekkti áliti sérfræðinganna eða ofangreindum rökum.

Atvinnuréttindi og stjórnarskráin

Loks má nefna að hefði Hæstiréttur ógilt greinina þá hefði rétturinn samhliða þurft að taka afstöðu til atvinnuréttinda þeirra sem eru í sjávarútvegi og
skýra þá vernd sem stjórnarskráin veitir atvinnuréttindunum og draga mörk milli þeirra annars vegar og jafnræðisreglu og atvinnufrelsis hins vegar. Í
þessu samhengi er rétt að undirstrika að dómstólar hafa aldrei vefengt að atvinnuréttindi njóti verndar. Það er afar þýðingarmikið að skýra stöðu
atvinnuréttinda í sjávarútvegi, ekki síst þegar framundan er endurskoðun laganna á næstu tveimur árum, og hefur sjávarútvegsnefnd farið þess á leit við
lagastofnun Háskóla Íslands að taka saman álitsgerð um það efni. Er óskað eftir að skýrð verði atvinnuréttindi útvegsmanna með hliðsjón af ákvæðum
stjórnarskrárinnar. Ennfremur að stofnunin veiti álit sitt á því hvort aðrir sem starfa í sjávarútvegi (t.d. sjómenn og fiskverkafólk) eigi
stjórnarskrárvarinn atvinnurétt í greininni.

Að öllu samanlögðu er það ótvíræð niðurstaða stjórnarflokkanna að dómur Hæstaréttar raski ekki 7. grein laganna og því nægjanlegt að gera
breytingar á 5. greininni. Hvað varðar 7. greinina þá er það dómstóla að dæma en ekki stjórnmálamanna og ég er í engum vafa um að fyrir dómstóla
verður lagt fyrr en seinna að kveða upp úr með gildi aflahlutdeildarkerfisins sem kveðið er á um í 7. greininni. Skal engu um það spáð hvernig sá
dómur verður. En mikinn greinarmun verður að gera á því hvort menn telja að aflahlutdeildarkerfið brjóti í bága við stjórnarskrána eða hvort menn eru
einfaldlega á móti því.

Endurskoðun laganna í heild

Segja má að í málflutningi stjórnarandstöðunnar (þ.e. stærstum hluta hennar) hafi falist sú afstaða að dómurinn setti aflahlutdeildarkerfið í uppnám án
þess að segja skýrt hvort stjórnarandstaðan væri andsnúin því fyrirkomulagi og einnig án þess að koma með tillögur um hvernig ætti að stjórna
fiskveiðunum á annan hátt. Gerði stjórnarandstaðan kröfur um að brugðist yrði við dómnum skjótt með lagasetningu en eina tillaga hennar var að
viðhalda óbreyttu ástandi næstu fjögur árin og ganga þannig algerlega á skjön við eigin túlkun á hæstaréttardómnum um að óbreytt ástand gengi ekki
vegna dómsins. Þessi vandræði eru hins vegar að mörgu leyti skiljanleg, stjórnkerfi í fiskveiðum verður ekki breytt í grundvallaratriðum í einu vetfangi
og stjórnarandstöðuflokkarnir hafa greinilega ekki komið sér saman um hvernig ætti að breyta stjórn fiskveiða. Þess vegna tel ég að ákvörðun
stjórnarliðsins um að endurskoða lögin í heild sinni á næstu tveimur árum sé miklu vænlegri leið en tillaga stjórnarandstöðunnar. Gildandi fyrirkomulag
er lagt til grundvallar, farið yfir reynsluna af því, dregnir fram kostir og gallar kerfisins og náð samkomulagi um breytingar til bóta á því. Þessi
endurskoðun verður á breiðum pólitískum grundvelli og hagsmunaaðilar munu eiga þess kost að koma að henni ásamt öðrum sem vilja leggja orð í
belg. Með þessu er málið sett í farveg skipulagðrar vinnu í stað upplausnar. Sjálfur hef ég mjög beitt mér fyrir því að endurskoðun laganna færi fram og
hef ýmsar athugasemdir við gildandi lög um stjórn fiskveiða. Það mun koma í ljós við endurskoðunina hver vilji flokkanna er til breytinga og þá hvaða
breytinga. Málið snýst ekki lengur um það hvort flokkarnir vilja endurskoða lögin heldur hvaða breytingar þeir vilja gera, um það verða þeir spurðir
fyrir næstu Alþingiskosningar, líka stjórnarandstaðan.

Athugasemdir