Hin pólitíska hönd DV

Greinar
Share

Fyrir skömmu ákvað Ellert Schram, fyrrverandi alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn, að bjóða sig fram fyrir Samfylkinguna. Það virðist hafa valdið titringi á DV því í kjölfarið birtist mikil úttekt í blaðinu um menn sem höfðu fært sig milli flokka. Greinin, sem Ólafur Teitur Guðnason blaðamaður, er skrifaður fyrir er satt að segja alveg ótrúlegur samsetningur, morandi í villum og rangfærslum, skrifuð með heiðbláum gleraugum og augljóslega uppgjör sjálfstæðismannanna á blaðinu við Ellert Schram.

Yfirskriftin á baksíðu DV er flokkaflækingar og inni í blaðinu eru fyrirsögnin yfir þvera síðu: flokkaflakkarar. Það leynir sér ekki andúðin hjá blaðinu á Ellert og öðrum sem hafa skipt um flokk og hnykkt á því með að segja að "sennilegt er að þó að illindi og framapot hafi ráðið för að minnsta kosti jafnoft og hreinn hugmyndafræðilegur ágreiningur". Það er merkilegt að blað sem stærir sig af því að vera frjálst og óháð skuli ekki geta haldið pólitískum viðhorfum blaðamannsins frá umfjöllun um þetta viðfangsefni og menn kallaðir flækingar og flakkarar. Síðan er klykkt út með því að halda fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé laus við þetta og því væntanlega betri en aðrir flokkar, en á baksíðu blaðsins segir að engin dæmi séu um að maður sem gengt hafi þingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn setjist á þing fyrir einhvern hinna rótgrónu flokka og jafnframt að enginn hafi "flakkað í Sjálfstæðisflokkinn eftir þingmennsku fyrir annan flokk".

Í og úr Sjálfstæðisflokknum
Ekki eru þessar fullyrðingar nákvæmar svo ekki sé fastar að orði kveðið. Ingi Björn Albertsson og Hreggviður Jónsson voru kosnir á þing fyrir Borgaraflokkinn 1987 og gengu báðir í þingflokk Sjálfstæðisflokksins árið 1990. Ingi Björn var svo kosinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum 1991. Kristín S. Kvaran náði kjöri sem þingmaður fyrir Bandalag jafnaðarmanna í kosningunum 1983 og gekk í þingflokk Sjálfstæðisflokksins fyrir lok kjörtímabilsins. Þarna eru 3 dæmi um þingmenn sem farið hafa í Sjálfstæðisflokkinn eftir þingmennsku fyrir annan flokk. Blaðamaðurinn skilgreinir flakk milli flokka þannig að þeir teljist ekki hafa flokkað sem ekki áttu þess kost að bjóða sig fram aftur fyrir sinn flokk þar sem flokkurinn hætti að vera til. Borgaraflokkurinn bauð fram í öllum kjördæmum 1991 og því því rangt að "enginn hafi flakkað í Sjálfstæðisflokkinn eftir þingmennsku fyrir annan flokk" jafnvel þótt beitt sé framangreindri skilgreiningu.

Fleiri hafa farið úr Sjálfstæðisflokknum og stoðar lítt að reyna fela það með því að þeir hafi ekki sest á þing "fyrir einhvern hinna rótgrónu flokka". Sverrir Hermannsson, Guðjón Arnar Kristjánsson og Albert Guðmundsson náðu kjöri fyrir aðra flokka og Eggert Haukdal fór í sérframboð, náði kjöri og gekk síðar aftur í þingflokk Sjálfstæðismanna. Þá fóru Jón Sólnes og Sigurlaug Bjarnadóttir í sérframboð, en bæði höfðu setið á þingi fyrir flokkinn, Sigfús L. Jónsson tók sæti sem varamaður fyrir Sjálfstæðiflokkinn árin 1996 og 1997 en var í framboði fyrir Frjálslynda flokkinn í síðustu kosningum og nú er Ellert Schram kominn í framboð fyrir Samfylkinguna. Satt best að segja hefur verið ótrúlega mikill órói kringum Sjálfstæðisflokkinn síðasta aldarfjórðunginn og það er önnur mynd en DV vill draga upp.

Rangfærslur
Ekki eru tök á að leiðrétta allar villurnar sem finnast í greininni og læt ég nægja rangfærslur gagnvart tveimur mönnum Karvel Pálmasyni og mér. Varðandi Karvel er fullyrt að hann hafi setið á þingi eitt kjörtímabil fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna og hafi setið á þingi fyrir Alþýðuflokkinn bæði fyrir og eftir það. Hið rétta er að Karvel náði kjöri fyrir Samtökin 1971 og aftur 1974. Hann sat sem sé tvö kjörtímabil fyrir þann flokk. Í kosningunum 1978 bauð hann sig fram utan flokka en náði ekki kjöri, þótt litlu munaði. Ári síðar gekk hann í Alþýðuflokkinn og sat á þingi fyrir hann 1979-1991. Rangt er að Karvel hafi setið á þingi fyrir Alþýðuflokkinn fyrir 1971. Í ljósi þess að Samtökin buðu ekki fram eftir 1978 þá fellur Karvel ekki undir flokkaflakkara miðað við skilgreiningu blaðsins og því farið með rangt mál í greininni. Varðandi mig þá er ranglegt fullyrt að ég hafi verið þingflokksformaður Alþýðubandalagsins, hins vegar var ég varaformaður þingflokksins um tíma. Sem kunnugt er hætti flokkurinn pólitískri starfsemi fyrir kosningarnar 1999. Það á því hvorki við mig né aðra fyrrverandi þingmenn Alþýðubandalagsins nafnbótin flokkaflakkari sem ég er sæmdur í greininni.

Flokksblaðið DV
Mikil breyting hefur orðið á DV síðustu misseri. Eftir að Óli Björn Kárason varð ráðandi á blaðinu hefur blaðið orðið eindreginn málsvari Sjálfstæðisflokksins og hörðustu einkavæðingarsjónarmiða. Það er ekki lengur frjálst og óháð eins og áður og líkist meir gömlu flokksblöðunum enda búið að losa sig við Jónas Kristjánsson. Þessi úttekt um svonefnt flokkaflakk er bara ein af mörgum af sama toga. Nýleg umfjöllun um þrjú mál, bjórmálið á Alþingi, útvarpsrekstur og EES samninginn, er með sama marki brennd og þessi. Eignarhald á fjölmiðum skiptir greinilega máli.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir