Helsta fjárfesting einstaklinga er í íbúðarhúsnæði. Vaxandi kaupmáttur launa leiðir af sér hækkandi verð á húsnæði. Frá árinu 2011 til 2016 hafa vergar þjóðartekjur landsmanna vaxið um liðlega 1000 milljarða króna eða um 40%. Sjá má áhrifin af því á íbúðarhúsnæði landsmanna. Verðmæti þess jókst um tæplega 1150 milljarða króna umfram áhvílandi skuldir á sama tíma. Aukin árleg þjóðarframleiðsla eykur uppsafnaða eign þjóðarinnar og birtist helst í formi fjárfestingar í íbúðarhúsnæði.
Allt frá miðri síðustu öld hefur íbúðarhúsnæði verið tryggasta fjárfesting fjölskyldna. Það er hins vegar fremur staðbundin trygging eins og sést á því að nær öll hækkun á verðmæti íbúðarhúsnæði landsmanna á árabilinu 2011-2016 er á höfuðborgarsvæðinu. Þar jókst verðmætið um 950 milljarða króna en aðeins um 200 milljarða króna utan höfuðborgarsvæðisins. Dreifingin á 200 milljarða króna hækkuninni á landsbyggðinni er mjög ójöfn en mest í grennd við höfuðborgarsvæðið og minnst, ef nokkur, í fjarlægum landshlutum.
Örugg fjárfesting – á einum stað
Samkvæmt opinberum upplýsingum má sjá t.d. að frá 1990 hefur árleg verðhækkun meðalverðs á fermetra í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu verið 2,9% umfram hækkun almenns verðlags. Hækkun íbúðaverðsins á þessu tímabili 1990 – 2017 er 600% en hækkun verðlags er 227% á sama tímabili. Þróunin frá 1990 á höfuðborgarsvæðinu nær raunar lengra aftur í tímann og nær allt til síðari heimsstyrjaldar.
Það er margt sem leiðir til þess að svo sé. Atvinna er öruggt, fjölbreytt og kaupmáttur hár í samanburði við önnur svæði. Sú ákvörðun að hafa nær alla starfsemi ríkisins í Reykjavík er forgjöf sem önnur landssvæði geta ekki keppt við. Ungt fólk sem stofnar fjölskyldu og fjárfestir í íbúðarhúsnæði í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu getur vænst þess að 40 árum liðnum að hafa auk kaupverðsins eignast 30 milljónir króna til viðbótar. Eignaaukningin er meiri sé um stærra húsnæði að ræða.
Tap af fjárfestingu – á öðrum stað
Annars staðar á landinu fer ungt fólk meira og minna á mis við þessa eignaaukningu. Þarna má sjá í hnotskurn ójafna dreifingu vaxandi þjóðarauðs eftir búsetu. Fjölskyldan á Vestfjörðum fer algerlega á mis við 30 milljóna króna eignaaukninguna. Það sem verra er hún fær ekki heldur fjárfestinguna í íbúðarhúsnæðinu endurgreidda þar sem raunverðið hefur fallið verulega. Mest varð fallið á árunum 1997 – 2004 en þá lækkaði fasteignaverðið um 28% í kjölfar þess að stærstur hluti fiskveiðikvóta vestfirskra fyrirtækja færðist út úr fjórðungnum. Þar hefur orðið gífurlegt fjárhagslegt tjón hjá þúsundum fjölskyldna síðustu 20 ár. Fleiri landssvæði hafa borið skarðan hlut frá borði varðandi þessa stærstu fjárfestingu hverrar fjölskyldu, þótt óvíða sé verri dæmi að finna. Síðustu ár hefur borið á hækkun fasteignaverðs á Vestfjörðum vegna aukinnar bjartsýni í fjórðungnum um atvinnuuppbyggingu með laxeldi í sjó. Sú bjartsýni hefur að nokkru verið slegin niður aftur. Afleiðingin er að síðustu tvö ár hefur fasteignaverð vísitöluhúss Byggðastofnunar verið lægst á landinu í Bolungavík. Verðhækkunin sem var komin er meira og minna horfin.
Afleiðingin er að heilu kynslóðirnar hafa lítið sem ekkert fengið fyrir íbúðafjárfestingu sína og að auki orðið af tugmilljóna eignaaukningunni sem er í boði fyrir að fjárfesta á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstaðan er vaxandi svæðisbundinn eignaójöfnuður. Þjóðarauðnum er misskipt eftir búsetu.
Ríkisstyrkur og skattfrjáls hagnaður
Eitt atriði vegur þungt til ójafnaðar. Það er sérstakur hvati í skattalögum til fjárfestingar á höfuðborgarsvæðinu. Hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis er almennt undanþegin skatti. Miðað er við skattfrelsi ef seljandinn á minna en 1200 m³ af íbúðarhúsnæði við sölu. það jafngildir um 440 m². Því er skattfrjáls svo gott sem allur hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis í eigu einstaklinga.Það virkar sem sérstakur hvati til fjárfestingar á höfuðborgarsvæðinu , þar sem reynslan sýnir að raunhækkun íbúðarhúsnæðis yfir langt tímabil er um 3% á ári.
Annað atriði er að árlega er sérstakur ríkisstyrkur til kaupa á húsnæði, sem nú heitir vaxtabætur. Það er framlag skattgreiðenda. Eignamyndunin vegna ríkisstyrksins er hins vegar skattfrjáls- með öllu. Það þarf ekki að endurgreiða styrkinn eftir velheppnaða fjárfestingu. Hvers vegna ekki? Til menntunar er lánað og það þarf að endurgreiða. Hvers vegna?
Ef einstaklingur aflar sér 30 milljóna króna tekna þarf að greiða um 40% í tekjuskatt og útsvar ef um launatekjur er að ræða eða um 22% í fjármagnstekjuskatt af fengnum arði. Að jafnaði er raunhagnaðurinn um 30 milljónir króna af íbúð í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðafjárfestum eru færðar 6 – 12 milljónir króna í skattaafslátt auk verulegrar fjárhæðar í formi árlegs ríkisstyrks.
Jöfnuður
Þessi einkennilega skattalega meðferð kostar líklega hið opinbera um 30 – 60 milljarða króna á hverju ári í tapaðar tekjur sé miðað við 3% raunhækkun á íbúðarverði á hverju ári. Það er hlutverk ríkisins og einkum Alþingis að tryggja ásættanlegan jöfnuð í þjóðfélaginu, bæði hvað varðar tekjur og eignir. Að þessu leyti hefur algerlega verið vanrækt að sinna því verkefni. Ójöfnuðurinn í þjóðfélaginu á sér meðal annars skýringar í staðbundnum forréttindum sem eru með öllu óþolandi.
Kristinn H. Gunnarsson
Athugasemdir