Það er mikilvægt að greina rétt viðfangsefnið ef ekki á illa að fara. Röng greining leiðir af sér vitlausar lausnir. Í Morgunblaðinu fyrir skömmu er viðtal við formann atvinnuveganefndar Alþingis. Þar er afkoma „litlu útgerðanna“ skilgreint sem stóra vandamálið í sjávarútvegi. Nánar tilgreint er það veiðigjaldið sem veldur vandanum. Formaður nefndarinnar, einn af alþingismönnum kjördæmisins, segir tryggja þurfi hag minni útgerða og ráðið til þess mun vera að breyta lögum um veiðigjald og „efla sérstaka afslætti“ til þessara útgerða.
Veiðigjaldið, sem innheimt er í rikissjóð af útgerðum sem veiða kvótann, er greinilega stóri vandinn sem verður vegna „útópíu eða hugmyndafræði um hvað sé hægt að leggja á há veiðigjöld án tillits til ólíkrar afkomu, samfélags og byggðarsjónarmiða“ eins og formaður atvinnuveganefndar segir í viðtalinu.
staðið með kvótaeigendum
Þetta er röng greining vegna þess að veiðigjaldið er ekki vandamál fyrir nokkra útgerð á landinu, hvorki litla né stóra og hefur aldrei verið. Þetta er sögufölsun enda hafa útgerðir um langt árabil greitt háar fjárhæðir fyrir aðganginn að fiskimiðunum og framhjá því er vísvitandi litið. Það er verið að fela þá staðreynd og láta sem sá hluti sem rennur til ríkisins sé alveg sérstakt vandamál stórhættulegt sjávarbyggðunum. Formaður atvinnuveganefndar Alþingis ver með kjafti og klóm handhafa kvótans, sem þegar taka til sín stærstan hluta af arðunum af fiskimiðunum. Tillagan til lausnar á vandamálinum er að ríkið gefi afslátt af veiðigjaldinu – til þeirra sem eiga kvótann. Þegar greiningin er röng verður úrræðið vitlaust. Öðru vísi getur það ekki orðið.
kvótaeigendur standa með sjálfum sér
Það er löngu vitað að kvótaeigendur standa bara með sjálfum sér, þótt því hafi framan af kvótakerfinu verið trúað að peningarnir sem kvótaeigendurnir hafa fengið með kvótanum myndu efla byggðina. Hver kvótaeigendi á fætur öðrum, stór og smár, hefur innleyst verðmætin í kvótanum. Það hefur gerst í öllum bæjum og þorpum á Vestfjörðum. Alls staðar hefur einstaklingurinn átt peninginn en ekki samfélagið. Svo gott sem alls staðar hefur verðmætunum verið ráðstafað annars staðar. Verðmætin í kvótanum hafa ekki orðið til þess að styrkja byggðarlögin, öðru nær þau hafa veikst í hvert sinn sem kvóti hefur verið seldur. Kvótaeigendurnir vilja hafa þetta svona áfram. Þeir vilja líka að verðið á kvótanum verði sem hæst áfram. Það gefur þeim mest í aðra hönd þegar kemur að sölu. Þeir selja allir að lokum og taka út eignina, verðmætin í kvótanum. Kvótaeigendurnir standa með sjálfum sér og formaður atvinnuveganefndar Alþingis stendur með þeim af því að hann greinir vandann vitlaust.
ekki staðið með ríkinu
Það eru til upplýsingar um það sem útgerðin greiðir fyrir aðganginn að miðunum. Annars vegar er það verðið sem greitt er fyrir kaup á kvóta eða leigu á kvóta og er greiðsla frá einum útgerðarmanni til annars. Hins vegar er það veiðigjaldið sem rennur til ríkisins. Á síðasta fiskveiðiári var meðalleiguverð á þorskkvóta 150 kr/kg og veiðigjaldið 23 kr/kg. Samtals var því greitt 173 kr fyrir veiðiréttinn á 1 kg af þorski. Ríkið fékk 13% og kvótahafinn 87%. Fyrir fiskveiðiárin á undan var hlutur ríkisins mun minni, t.d. fékk ríkið um 5% og kvótahafinn fékk um 95% fyrir þar síðasta fiskveiðiár. Þeir sem fá byggðakvóta þurfa ekkert að borga nema veiðigjaldið. Enginn hefur hafnað byggðakvóta vegna veiðigjaldsins. Veiðigjaldið er ekki vandamálið, heldur er það hin greiðslan, greiðslan til kvótahafans. Þegar krafist er þess að lækka hlutinn til ríkisins er viðkomandi ekki að standa með ríkinu heldur með einkaaðilanum sem á endaum fær í sinn vasa andvirði kvótans.
Ef menn vilja standa með ríkinu á að hækka veiðigjaldið mikið, enda mun afleiðingin af því verða að verðið milli útgerðarmanna mun lækka á móti. Heildargreiðslan fyrir aðganginn að miðunum verður óbreytt. Það vilja kvótahafarnir ekki því það lækkar þeirra „eign“. Þarna liggja undir tugir milljarða króna á hverju ári og það er tekist á um skiptinguna milli ríkisins og kvótahafanna.
ekki staðið með byggðarlögunum
Þeir sem svona greina stöðuna eins og er í viðtalinu í Morgunblaðinu standa ekki með byggðarlögunum. Það sem styrkir þau er bættur efnahagur, með öðrum orðum meiri peningar sem renna um staðbundið efnahagslíf byggðanna. Eftir að verðmætin í fiskveiðunum fóru að mestu inn í kvótaverðið hurfu úr plássunum gríðarlegir fjármunir og þau veiktust að sama skapi. Auðvitað á að renna til byggðarlaganna verulegur hluti af því verði sem greitt er hverju sinni fyrir aðganginn að miðunum. Fyrir Vestfjörðum eru gjöful mið. Vestfirsk byggðarlög eiga að fá milljarða á milljarða króna ofan til samfélagslegra verkefna á hverju ári. Það er þeirra hlutur í auðævunum og það er réttmætur hlutur íbúanna. Hvar eru alþingismenirnir sem standa með Vestfirðingum? Hinir sem standa með einkaeign á kvótaauðnum standa í löngum röðum utan við gullslegnar útidyr LÍÚ. Það eru enn orð að sönnu þau formanns nefndarinnar á Alþingi í viðtalinu við Morgunblaðið að það er útópía sú hugmyndafræði að innheimta réttmætan skerf af þjóðareign til hagsbóta fyrir samfélagið og byggðarlögin. Svo verður á meðan stjórnmálaflokkar bæði til hægri og vinstri mynda skjaldborg utan um auðvaldið í landinu.
Kristinn H. Gunnarsson
Þorskur:
fiskveiðiár | 2011/12 | 2012/13 | 2013/14 | 2014/15 | 2015/16 | 2016/17 | 2017/18 |
aflamark leiga | 304 | 206 | 203 | 233 | 217 | 191 | 150 |
veiðigjald | 9 | 33 | 17 | 13 | 14 | 11 | 23 |
Samtals greiðsla fyrir veiðiréttinn | 304 | 206 | 203 | 233 | 217 | 202 | 173 |
Hlutur ríkisins | 3% | 16% | 8% | 6% | 6% | 5% | 13% |
Hlutur kvótahafans | 97% | 84% | 92% | 94% | 94% | 95% | 87% |
Síðustu tvö fiskveiðiár hefur leigutakinn greitt veiðigjaldið ofan á leiguverðið. Áður greiddi sá veiðigjaldið sem leigðu frá sér kvótann. Byggt á upplýsingum Fiskistofu.
Athugasemdir