Reykhólahreppur hefur lokað fyrir aðgengi að upplýsingum nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ingimar Ingimarsson, starfandi sveitarstjóri og kjörinn oddviti ákvað þann 10. ágúst að þeir sem óska eftir gögnum verði að mæta á skrifstofu Reykhólahrepps með persónuskilyrði og fylla þar út til þess gert eyðublað. Þegar blaðið Vestfirðir óskaði eftir afriti af bréfi íbúa jarðanna Árbæ og Stað, til sveitarstjórnar var ekki orðið við erindinu og vísað í þessar starfsreglur.
Ingimar Ingimarsson segir þetta gert til þess að hægt verði að halda utan um það hverjir biðja um gögn og athugað hvort gögnin sem beðið er um brjóti ný persónuverndarlög. „Við höfum fulla heimild til þess að krefjast þess að fyllt sé út eyðublöð til þess að fá gögn skv. 15. gr. upplýsingalaga. Þessi framkvæmd felur ekki í sér neina neitun á afhendingu gagna, enda er farið yfir umsóknir og gögnin afhend ef við getum“ segir Ingimar ingimarsson.
Þegar honum var bent á að fjölmiðlar muni ekki senda mann á skrifstofu hreppsins til þess að framvísa persónuskilríkjum og því jafngilti þessi afgreiðsla því að neita fjölmiðlum um umbeðin gögn svaraði Ingimar því til „Ef fjölmiðlar vilja ekki senda fólk til okkar á skrifstofuna, þá er það ekki okkar mál.“
Ingimar Ingimarsson staðfesti að hann hefði sett umræddar starfsreglur en sagði að fullutrúum í sveitarstjórn væri kunnugt um þær, en svaraði því ekki hvort sveitartjórnin væri þeim sammála.
Blaðið Vestfirðir hefur bréf íbúanna undir höndum og kemur fram í því alvarleg gagnrýni á áform um svonefnda R leið, frá Þorskafirði um Reykhóla , sem hreppsnefnd Reykhólahrepps hefur nú samþykkt að skoða betur og kæmi í stað Þ-H leiðar sem að hluta til liggur um Teigsskóg. Greinilegt er að R leiðinni fylgja vankantar sem starfandi sveitarstjóri vill ekki að fjölmiðlar fjalli um.
Athugasemdir