Þegar Ásthildur Sturludóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Vesturbyggð var endurráðin eftir kosningarnar 2014 var ráðningarsamningurinn við hana hvorki lagður fram né samþykktur. Þetta má ráða af svörum Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra Vesturbyggðar.
Þóri og Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra var send fyrirspurn 20. maí þar sem meðal annars var spurt að því hvenær „var ráðningarsamningur við bæjarstjóra með ákvæðum um kaup og kjör lagður fram og samþykktur í bæjarstjórn?“. Ásthildur vísaði á Þóri Sveinsson til svara og hann svaraði á eftirfarandi hátt: „Ráðningarsamningur við bæjarstjóra er frá júní 2014 og ráðning hennar staðfest á 273.fundi bæjarstjórnar 18.júní 2014 undir 4.tölul. dagskrár.“
Á þeim fundi bæjarstjórnar er aðeins bókað: „Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkir að ráða Ásthildi Sturludóttur sem bæjarstjóra Vesturbyggðar frá upphafi kjörtímabils bæjarstjórnar.“ og hvergi getið um ráðningarsamninginn.
Var af þeim sökum ítrekuð fyrir skömmu beiðnin um að fá svör við því hvenær ráðningarsamningur við bæjarstjórann með ákvæðum um kaup og kjör hafi verið lagður fram og samþykktur. Þórir Sveinsson, fjármálastjóri svaraði þá því til að hann gerði ráð fyrir því að samningurinn hafi verið lagður fram til kynningar á fundinum 18. júní 2014 en sjálfur hefði hann ekki verið á fundinum og ekki ritað fundargerð og gæti því ekkert fullyrt um það mál heldur aðeins ályktað. Gerði B. Sveinsdóttur, starfandi bæjarstjóra, var sent afrit af fyrirspurninni og svörunum og hún hefur ekki brugðist við henni til svara.
Við athugun á fundargerðum bæjarráðs og bæjarstjórnar á síðasta kjörtímabili frá 2014 – 2018 verður ekki séð að ráðningarsamningur við fyrrverandi bæjarstjóra hafi verið ræddur, lagður fram eða samþykktur. Þegar blaðið Vestfirðir óskaði í ársbyrjun 2015 eftir ráðningarsamningum við sveitarstjóra á Vestfjörðum fékkst ekki samningurinn við bæjarstjórann í Vesturbyggð, heldur aðeins lýsing á kjörunum.
Athugasemdir