Vina- og fjölskylduvæðing felldi Sjálfstæðisflokkinn

Fréttir
Share

Óvæntustu úrslit sveitarstjórnarkosninganna á Vestfjörðum voru í Vesturbyggð. Þar féll meirihluti Sjálfstæðisflokksins og óháðra. Ný sýn fékk 298 atkvæði (54%) og fjóra bæjarfulltrúa kjörna en D listinn hlaut 251 atkvæði (46%) og þrjá bæjarfulltrúa. Fyrirfram var búist við því að D listinn fengi 5 menn kjörna og nýja framboðið Ný Sýn fengi 2 bæjarfulltrúa.

Listi Sjálfstæðisflokksins og óháðra varð sjálfkjörinn fyrir 4 árum og fékk því alla 7 bæjarfulltrúana. Sjálfstæðisflokkurinn hafði unnið meirihluta í kosningunum 2010 og fékk þá 54% atkvæða en bæjarmálafélagið Samstaða 46%.  2006 fékk Samstaða flest atkvæði og öruggan meirihluta en 2002 vann Sjálfstæðisflokkurinn meirihluta með 56% atkvæða. Bæjarmálafélagið Samstaða bauð fram frá 1998 til 2010 en hvorki 2014 né nú 2018.

Það er nokkuð samhljóða svör þeirra sem blaðið Vestfirðir hefur rætt við að ólíðandi starfshættir við stjórnsýsluna standi upp úr til skýringar á falli Sjálfstæðisflokksins og óháðra. Þar hafi hagsmunagæsla fáeinna einstaklinga, einkum bæjarstjórans Ásthildar Sturludóttur og forseta bæjarstjórnar Friðbjargar Matthíasdóttur gengið langt fram úr hófi og eru rakin fjölmörg dæmi því til stuðnings í samtölunum.  Eiginmaður Ásthildar bæjarstjóra, útgerðarmaðurinn Hafþór Gylfi Jónsson var formaður hafnarstjórnar á síðasta kjörtímabili. Bróðir hans Magnús Jónasson bæjarfulltrúi var einnig varaformaður bæjarráðs og á kjörtímabilinu ráðinn sem umsjónarmaður fasteigna bæjarins. Bæði sú ráðning og eins ráðning á fræðslustjóra eru gagnrýndar þar sem ekki hefði verið auglýst né ráðningin farið fyrir bæjarstjórn.

Útgerð formanns hafnarstjórnar fékk 147 tonna byggðakvóta Bíldudals þrátt fyrir að gera út frá Patreksfirði, landa og vinna fiskinn þar. Byggðakvóta er úthlutað ókeypis og verðmæti kvótans er um 22 milljónir króna miðað við leiguverð eins og það var við úthlutun.

Þá sætir gagnrýni að ekki hafi verið viðhaft prófkjör við röðun á D listann , en Hafþór Gylfi Jónsson var formaður uppstillinganefndar og þykir gagnrýnendum að raðað hafi verið á listann úr vinahópnum til þess að tryggja öll tök bæjarstjórans á væntanlegum bæjarfulltrúahóp. Meðal annarra var í fjórða sætinu formaður Samfylkingarinnar í sveitarfélaginu og stjórnarmaður bæjarmálafélagsins Samstöðu. Það varð til þess að Samstaða bauð ekki fram en þess í stað myndaðist hópur um framboð sem heitir Ný Sýn og naut stuðnings innan úr röðum sjálfstæðismanna og almenns stuðings fólks úr öðrum flokkum og fékk óvænt hreinan meirihluta.

Þá benda margir heimildarmenn blaðsins á ferlimál fatlaðrar konu í sveitarfélaginu, sem nú er látin,  sem komst í landsfjölmiðlana. Bæjarfélagið stóð mjög á bremsunni varðandi þjónustu við hana og fór það fyrir dómstóla. Þar hefur bæjarfélagið farið halloka og verið dæmt til þess að greiða  umtalsverðar bætur. Konan var rótgróin heimamaður, átti stóran frændgarð og var vinamörg. Þykir stífni og óbilgirni bæjarstjórans fyrrverandi hafa farið fram úr öllu hófi. Að lokum er svo töluverð gagnrýni á fjármálastjórn bæjarins og vaxandi skuldastöðu.

Niðurstöðuna má draga saman þannig að það sem felldi stærsta meirihlutann á Íslandi hafi verið vina- og fjölskylduvæðing innan hans. Krafan um heilbrigða stjórnarhætti virðist eiga jafnmikinn hljómgrunn meðal íbúa Vesturbyggðar eins og um land allt.

 

 

Athugasemdir