15. desember 2007.
Mýramaðurinn Bjarni Valtýr Guðjónsson á létt með að yrkja og er duglegur við að setja saman vísur við ýmis tækifæri.
Fyrir réttri viku hitti heimasíðuhöfundur hann á ferð um rangala Kolaportsins með vísu í höndunum sem ætluð var Þorvaldi Maríussyni, sem rekur þar bókabúðina Gvendur dúllari. Hún er svona:
Í gegnum birgðir bóka smýg
ber á engum skorti.
Hraða mér að Hafnarstíg
hér í Kolaporti.
Þegar hringt var í Bjarna til þess að bera undir hann vísuna, hvort rétt væri tekið niður þá kom önnur svona í kaupbæti. Hún er ort af því tilefni að Bjarni heyrði af orðrómi þess efnis að nú kraumuðu undir niðri átök innan Sjálfstæðsiflokksins. Látum sannleiksgildi þess liggja milli hluta, en vísan kemur hér:
Nú mun síst hið bjarta bros
breikka á flokknum öllum.
Hljómar líkt og Heklugos
hark frá íhaldsvöllum.
Athugasemdir