Héraðsdómur Reykjaness sem komst nýlega að þeirri niðurstöðu að sveitarfélög ættu ekki forkaupsrétt að aflaheimildum fiskiskipa. Í síðustu viku dæmdi Hæstiréttur að forkaupsréttarákvæðið næði ekki til hlutabréfa í útgerðarfélagi. Ef til vill fer fyrra málið sem Hafnarfjarðarbær höfðaði til Hæstaréttar en það verður að teljast ólíklegt eftir dóm Hæstaréttar í síðara málinu og varðar sölu útgerðarfyrirtækis í Vestmannaeyjum til kaupenda utan sveitarfélagsins að nokkur breyting verði.
Niðurstaðan úr báðum málunum er að forkaupsréttarákvæði laganna nái aðeins til fiskiskipa en hvorki til aflaheimilda skips né hlutabréfa í félaginu sem á viðkomandi skip.Hæstiréttur segir beinlínis í dómi sínum að í 12. greininni sé fyrst mælt fyrir um forkaupsrétt sveitarfélaga að fiskiskipum og svo í kjölfarið í sömu grein reglur um frelsi til framsals á aflahlutdeild skipanna. Þessi röð komi í veg fyrir að hægt sé að halda því fram að forkaupsrétturinn að skipunum eigi líka við um aflaheimildirnar. Þar með hefur Hæstiréttur í raun tekið efnislega undir dóm Héraðsdómi Reykjaness.
Forkaupsréttur aðeins að skipum
Þetta þarf engum að koma á óvart. Það hefur verið kristaltært frá lagasetningunni árið 1990 þegar framsalið var heimilað að forkaupsréttarákvæðið var aðeins friðþæging og jafnvel blekking og ætlað til þess að slá ryki í augun á áhyggjufullum íbúum í sjávarplássum landsins sem gerði sér strax grein fyrir því hversu alvarleg áhrifin af framsalinu gætu orðið, sérstaklega á tímum minnkandi veiðiheimilda í þorskveiðum. Í aldarfjórðung hefur þeirri blekkingu verið haldið að almenningi að forkaupsréttarákvæðið skipti einhverju máli. Nú hafa dómstólar landsins svipt hulunni frá blekkingunni og eftir stendur berstrípaður ásetningur um alræði gróðafíklanna. Það er engin tilviljun að Síldarvinnslan hf er stefnt fyrir dómstóla í báðum málunum. Landsmenn vita hverjir leynast þar á bak við.
Skorturinn á vörn almannahagsmuna í sjávarplássum landsins hefur alla tíð verið pólitískt bitbein og loksins þegar fyrsta hreinræktaða vinstri stjórnin komst til valda eftir kosningarnar 2009 fékk hún samþykkt bragarbót að þessu leyti við lögin um stjórn fiskveiða. Sá hængur var þó á ráðahagnum að ákvæðið var aðeins til bráðabirgða og rennur úr 1. september næstkomandi . Innihald ákvæðisins er að heimilt er að stöðva flutning aflaheimilda úr sveitarfélag við tilgreindar aðstæður. En ákvæðið færir heimamönnum takmarkaða svigrúm til aðgerða þar sem sjávarútvegsráðherra fær einn vald til þess að úrskurða um hvort beita skuli því.
Vinstri vonbrigði
Vestmannaeyjabær reyndi ekki að skírskota til ákvæðisins í tilraun sinni til þess að stöðva sölu aflaheimildanna norður og austur á land. Hafnarfjarðarbær beitti því hins vegar fyrir sér án árangurs. Héraðsdómur Reykjaness segir að bráðabirgðaákvæðið hafi ekki að geyma heimild til sveitarfélags til þess að krefjast í eigin nafni ógildingar á úrskurði sjávarútvegsráðherra Sigurðar Inga Jóhannsonar, sem komst að því að ekki væri tilefni til þess að grípa inn í söluna. Þó er ekki alveg loku fyrir það skotið að Hafnarfjarðarbær geti látið reyna betur á rétt sinn samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu, því ætla má miðað við dómsorð Héraðsdóms Reykjaness að bæjarfélagið geti stefnt sjávarútvegsráðherra fyrir dómstóla og krafist þess að úrskurður hans verði ógiltur. Hvort það verði gert hefur ekki komið fram. Samt fer ekki á milli mála að bráðabirgaðákvæðið er ekki merkileg vörn fyrir þá sem þurfa að bera skaðann af hagræðingunni sem framsalinu er ætlað að leiða fram. Vinstri stjórnin getur seint sagt að hún hafi staðið undir þeim væntingum sem kjósendur hennar gerðu til hennar vorið 2009.
Loks er rétt að árétta það sem kannski er þýðingarmest í allri þessari viðleitni til þess að tryggja hagsmuni almennings í sjávarplássum landsins, að sjálfu gangvirki framsalsins er ekki haggað með forkaupsréttarákvæðinu. Ganga verður inn í kaupverð sem fyrir liggur. Það kaupverð er markaðsverð eins og það er á hverjum tíma. Íbúar sveitarfélagins verða þá að taka á sig að greiða verðið og grípa til lækkunar launa og annarrar hagræðingar. Rétturinn og arðurinn er eftir sem áður bundinn sama ranglæti og áður.
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir